1. útgáfa
til baka
17. september 2019

Mér hefur löngum verið hugleikin sú tenging sem ég hef skapað við persónufornafnið „hún“. Þegar ég var yngri átti ég það til að láta mig dagdreyma að um mig væru skrifaðir textar, ljóð eða lög þar sem talað væri um mig sem „hana“ — að ég væri sú sem ort væri um. Birting fornafnsins í textasmíð virtist rómantísk, blómum sveipuð! Þannig hef ég hugsað til þess frá því ég var lítil, en ég var mjög lengi að átta mig á því af hverju þetta fornafn vakti upp slíkar tilfinningar í mér.

MANÍSKA, DRAUMKENNDA ÞUMALÍNAN MÍN

Ég tel að ástæða þessara sterku tilfinninga minna til fornafnsins tengist við hugtak sem oft er vísað í sem „Manic Pixie Dream Girl“ eða MPDG. Ég mun koma til með að vísa áfram til hugtaksins á ensku, því ég gat ég ekki með nokkru móti fundið réttu orðin á íslensku sem grípa hugtakið eins vel. Skilgreining á hugtakinu hljóðar í stuttu máli svona: 

,,Manic Pixie Dream Girl“ er kvenkyns persóna sem birtist oftast í kvikmyndum og hefur litla sem enga baksögu. Hún hefur hins vegar áberandi sérkennilegan persónuleika en eina hlutverk hennar í söguþræðinum er að veita karlkyns aðalpersónunni rými til að enduruppgötva lífið, kynnast ástinni eða víkka sjóndeildarhringinn.

Þessi lýsing á hugtakinu vakti upp forvitni mína og ég fór að lesa mér til um það. Þegar ég var svo búin að lesa allt sem ég fann fór ég að horfa á útskýringarmyndbönd og síðar að skrifa ritgerðir og vinna verkefni í skólanum um hugtakið. Ég var svo ánægð að hafa loksins fundið skýringu á þessari óeðlilegu sterku tilfinningu í garð persónufornafnsins. Ég var hugfangin.