3. útgáfa
til baka
10. mars 2019

Stundum velti ég fyrir mér af hverju Flóra er til. Enn einn staður þar sem femínistar standa og öskra út í tómarúmið. Enginn sem leggur við hlustir. Nákvæmlega sama og allir gera á samfélagsmiðlum á hverjum degi. Keppumst við að segja skoðanir okkar en er nokk sama um hvað næsti segir. „Brúðkaupsfín“, „lítið kríli á leiðinni“ eða „þessi besta mín á afmæli í dag“, aftur og aftur og aftur. Á sama hátt hrópum við „feðraveldið“, „nauðgunarmenning“ og „eitruð karlmennska“.

Ég horfði á Nannette eftir Hannah Gatsby og vona af öllu hjarta að þú hafir gert hið sama.
Þar talaði Hannah um virðingu okkar fyrir mannorði og hvernig hún er yfirgengileg, ofar öllu öðru. „Við lifum í heimi þar sem valdhöfum er drullusama um konur og börn, svo framar sem karlar halda mannorði sínu óflekkuðu.“ Oft heyrist í umræðunni „þetta gæti eyðilagt líf hans“, og ekki gert grein fyrir því að hið sama þetta er þegar búið að eyðileggja líf hennar. Spurt er „á hann þetta skilið?“ eins og hún hafi átt þetta skilið. Við segjum „hann var bara strákur“, en hún var líka bara stelpa. Okkur finnst alvarlegra að saka einhvern um nauðgun heldur en að nauðga. Getur virkilega verið að staðhæfingarnar „mér var nauðgað“ og „ég nauðgaði ekki“ séu báðar réttar á sama tíma? Við flykkjumst í hópa. Við erum með þetta á heilanum, hvort er meiri dauðadómur að vera sakaður um nauðgun eða verða fyrir nauðgun.

Umræðan lendir á vegg því við gefum hvorki brotaþolum svigrúm til þess að segja sína sögu án þess að ausa yfir þau skömm né gerendum rými til að gangast við og sjá eftir gjörðum sínum. Allir eru teknir af lífi.

Hefur einhver kona einhvern tímann fengið jákvæða athygli eftir að hafa sakað mann um nauðgun? Er stuðningur við þolendur á við „við trúum konum“ jákvæð athygli? Er ósanngjarnt að almenningur sýni þolenda stuðning á erfiðum tímum, þegar þolandi hefði alltaf kosið að sleppa við athyglina, stuðninginn og fyrst og fremst því að þurfa nú að birtast sem þolandi. Er eitthvað sem gefur til kynna að í þessari jöfnu sé eitthvað sem þolandi kaus? Hvaðan kemur þessi hugmynd að konur yfirleitt segi frá misnotkun til þess að fá athygli eða græða pening? Einnig, hefur þú velt fyrir þér hvað það er erfitt að segja frá misnotkun? Að segja mömmu þinni og pabba, stóru systur og litla bróður, frá því að þér hafi verið nauðgað? Já, þessi efnisgrein er öll spurningar, og já ég er að spyrja í alvöru.

Narratíva fjölmiðla í ofbeldismálum til dagsins í dag er auðvitað galin, og á sama tíma ekki galin – ef þú ert að reyna að verða ríkur.

Fjölmiðlar græða á að birta hneykslanlegar fréttir með enn hneykslanlegri fyrirsögnum. Því fáránlegri sem fréttin er, því fleiri klikk, því meira græðir fjölmiðillinn. Fullkomlega brotið kerfi.

Hvatinn til að skrifa af mannúð er enginn þegar ekkert má út af bregða í rekstri fjölmiðla. Í öllum hasarnum gerast fjölmiðlar einnig sekir um ofbeldi. Fjölmiðlar nafngreina, draga ályktanir, endurbirta stafrænt ofbeldi og þar fram eftir götum. Hér þarf að staldra við og spyrja hverjum fjölmiðlar þjóna. Hvort ætla fjölmiðlar að starfa af mannúð eða til að svala sjúkri forvitni. Er hægt að reka fjölmiðil sem stendur með brotaþolum og minnihlutahópum? Sem starfar eftir jafnréttisstefnu? Er slíkt raunhæft á frjálsum fjölmiðlamarkaði þar sem eftirspurnin er mest eftir fréttum sem við sjokkerumst yfir.

Ég er hugsi yfir valdastrúktúr og virðingu í heiminum. Hugsi yfir hver segir söguna. Hver stjórnar umræðunni. Hvenær við leggjum við hlustir og af hverju.

Rannsókn á fjölmiðlum í Bandaríkjunum frá árinu 2015 sem tekur fyrir meira en 2000 netmiðla, prentmiðla og tímarit frá árunum 1983-2009 sýnir að í 82% tilvika voru menn viðmælendur. Þar kemur fram að þó konur fari með ritstjórnarstörf eða skrif er hlutfallið ekki skárra. Þar kemur jafnframt fram að hlutfallið er ekki betra á frjálshyggjumiðlum miðað við þá íhaldssömu. Það sem verra er, þetta kemur ekki einu sinni á óvart. Vandamálið er grafið djúpt í sál samfélagsins og við erum öll partur af því. Við tökum öll of oft frekar mark á mönnum en konum. Hví skyldi fjölmiðill vitna í konu þegar hann getur vitnað í mann?

Ef blómasalinn á horninu þínu lokar er það vegna þess að þú og allir hinir kusu að versla við keðjuna. Neytendur hafa valdið og það á einnig við um fjölmiðla. Ef fréttaveitan þín og samfélagsmiðlaefni er uppfullt af kynjamisrétti eða fréttum um karla, er það þín ábyrgð að breyta því. Ef okkur líkar ekki hvernig fréttir eru í fjölmiðlum, skulum við skrifa fréttir sem við viljum lesa. Ef ekki það, getum við öll tekið okkur saman og lesið betra fjölmiðlaefni og kallað þannig eftir breytingum. Ef okkur líkar ekki hvernig sagan er sögð, skrifum hana aftur – breytum sjónarhorninu.

Hvernig á skoðun kvenna að heyrast ef hún er ekki tjáð? Hvernig getum við haft áhrif á ríkjandi menningu ef við leggjum ekkert til?

Þess vegna skiptir Flóra máli.— — —

Höfundur er ritstýra Flóru og vill vekja athygli á því að frjáls framlög til Flóru eru einkar vel þegin, sem og hverskonar samstarf eða styrkir. Flóra er framkvæmd í sjálfboðavinnu af einskærri hugsjón allra sem að henni koma. Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við flora.utgafa@gmail.com