Lapiz lazuli er verðmætt grýti eða steinn sem er aðallega að finna í Afganistan. Á miðöldum var steinninn mulinn niður og notaður sem blá málning en var það einungis á færi færustu málara og finnst meðal annars í mörgum verkum Michelangelo. Hann var einnig notaður í hverskyns skartgripi og húsgögn fyrir aðalsfólk. Ljóðið að neðan varð til þegar fréttir bárust af því að leifar af þessum dýrmæta blálit hafi fundist í tönnum í beinagrind konu sem uppi var á miðöldum í Dalheim í Þýskalandi. Var það talin vísbending um að hún hefði skrifað og myndlýst handrit en verið þurrkuð úr sögunni eins og margar kynsystur hennar.
hugsa til þín systir
með hafið í penslinum
rándýrt himnarykið
heiðríkjuna sjálfa
hugsa um tungu þína
væta helgasta litinn
heitar varir
hvessa drættina
þú myndlýstir helgirit
öðrum betur
munstraðir skinnið
fínbláum línum
hugsa um strit þitt
mulinn stein, Maríuklæði
hafblik í tönnum þínum
þúsund árum síðar