til baka

Þegar við fögnuðum fimmtu útgáfu Flóru og rúmu ári af starfsemi flutti ég ræðu á útgáfuhófinu. Hún var einhvern veginn svona:

Ég velti stundum fyrir mér afhverju Flóra varð til. Það sem meira er, afhverju hún hélt áfram að vera til og hvaða það veldur því að ég og allir sem taka þátt í sköpun þessa rýmis hafa gefið vinnuna sína nú í nærri 2 ár. 

Þegar ég stofnaði Flóru hafði ég margar háleitar hugmyndir. Mig langaði fyrst og fremst að framleiða femínískt efni og vinna þannig að meira jafnrétti í fjölmiðlaflóru Íslands. Skapa vettvang fyrir ólíka samfélagshópa, öruggt rými fyrir einlægni og fyrir fyrstu skref, og samfélag sem deildi þessum femíníska hugsunarhætti og markmiðum.

Þetta allt gerði ég auðvitað ekki. Þetta sköpuðum við öll saman og erum enn að. 

Flóra, þar sem hugrekki, einlægni, auðmýkt og metnaður drýpur af hverjum staf og pennastriki. Konsept sem erfitt er að ná utanum í einum frasa eða slagorði. Flóra er flókin stærð eins og samfélagið sjálft, og þannig viljum við vera. Þar sem sögur, skoðanir og upplifanir eru sagðar af okkur, konum og hópum samfélagsins sem minna rými fá í fjölmiðlum. Þar sem dagskrárvaldið er okkar. 

Í mínum huga skiptir þetta rými öllu máli. Sérstaklega fyrir þá ástæðu að það er ekki hægt að breyta ríkjandi menningu nema leggja eitthvað nýtt til. Breyta reglunum og samtímis hugmyndinni um hvað er verðmætt, hvað er velgengni. Verðmætið í hverjum einstakling og hverri stund sem lögð eru í verkefni af þessu tagi eru það verðmætasta sem til er fyrir sköpun jafnréttis í menningu okkar. 

—————-

Ég hef margsinnis verið spurð hvernig Flóra afli tekna, hver næstu skref séu. Hvað er planið? 

Satt best að segja er framtíðin óráðin, Flóra er til á meðan það er til fólk sem vill skrifa og skapa. Á meðan það er fólk sem vill lesa. Ég hef ótal sinnum spurt mig hinnar hjartakremjandi, og óþolandi spurningar „hvað myndi ég gera ef ég væri maður?“ Ég, með sárt egó fer í vörn og spyr sjálfa mig í huganum, „má ekki bara taka hægar vel ígrundaðar ákvarðanir? Má ekki hafa líka bara gaman? Þarf alltaf að sigra heiminn á einni nóttu?“ Tíminn mun leiða það í ljós. Mér þykir persónulega komið gott af því að mæla hagnað og velgengni í ársfjórðungum, reyndar finnst mér við eiga að mæla allt í 100 árum. En þannig virkar þetta víst ekki. 

Þar sem ég bý, í úthverfi í Kaupmannahafnar, er mikið um einyrkja og lítil fyrirtæki. Þau hafa mörg hver límmiða í glugganum þar sem stendur „ef þú vilt að við séum til á morgun, styrktu okkur í dag“. Sem er kannski bara allt sem ég vildi sagt hafa. 

Hugtakið eitruð karlmennska er fyrirbæri sem hefur síðustu ár orðið að einskonar suð-hugtaki sem heyrist oft í umræðunni og í fjölmiðlum. Almenningur heyrir hugtakið og túlkar það út frá eigin heimsmynd svo úr verður spírall ólíkra „staðreynda“ og skoðana. Margir karlmenn hafa tekið því sem gagnrýni á sína karlmennsku. Að karlmenn séu eitraðir. Árás á karlmenn sem tegund. Líkt og orðið femínismi er eitruð karlmennska misskilið hugtak í umræðunni. 

Flestir sem tefla fram hugtakinu eru að vitna í hugmyndir samfélagsins um karlmennsku, sem kemur í veg fyrir að karlkyns einstaklingar geti háttað lífi sínu eins og þeir vilja. Þá er auðvitað ekki átt við að það sé ómögulegt fyrir þá að hátta lífi sínu eins og þeir vilja. Heldur kostar það niðurlægingu, stríðni eða útskúfun ef þeir kjósa að fylgja hjartanu sínu ef það stangast á við viðteknar hugmyndir um hvað karlmenn eiga að vera eða gera. Almennt er hugtakið skilgreint sem hegðanamynstur sem karlmenn halda þeir þurfi að samræma sig með til þess að vera alvöru karlmenn. Einfalt og augljóst dæmi eitraðar karlmennsku er þegar þeirri viðteknu mýtu er leyft að lifa að drengir megi ekki gráta eða að það þyki ekki karlmannlegt að gráta eða sýna tilfinningar sínar. Ef enginn upprætir mýtuna verður til menning þar sem drengir og karlmenn halda aftur af tárum sínum og byrgja vanlíðan sína inni – sem getur svo valdið því vandamáli seinna meir að þeir eiga erfitt með að þekkja tilfinningar sínar, takast á við erfiðar tilfinningar eða leita sér hjálpar. Óuppgerðar, stórar, erfiðar tilfinningar eru svo oft uppspretta ofbeldis, hvort sem er andlegs eða líkamlegs, sjálfskaða, þunglyndis og annarra sjúkdóma og samfélagslegra vandamála. Þetta á vissulega við um fólk af öllum kynjum, en pæliði samt í butterfly effectinu sem á sér stað. 

Nú eru femínistar ekki einsleitur hópur og margir ósammála því að eitthvað tengt karlmönnum skuli falla undir baráttumál femínismans. Það er allgjört skilgreiningarmál hvað femínismi þýðir fyrir hvert og eitt, sem auðveldar okkur svo auðvitað alls ekki að skilja femínisma, en það er svo sem efni í annan pistil. 

En því er vert að spyrja, hvað varðar það femínisma að vera að spá í eitraðri karlmennsku? Hvað kemur það jafnrétti kynjanna við, dreifingu valds í samfélaginu eða að veita konum sömu tækifæri og menn fá? 

Í mínum huga er svarið: mjög margt, en leyf mér að útskýra. 

Í minni femínísku útópíu eru við öll smá meira og öll smá minna. Konur svolítið minni ráðskonur með hluti á hornum sér heimafyrir, menn aðeins (mikið) minna að taka ákvarðanir fyrir samfélagið. Konur aðeins (mikið) meira að taka ákvarðanir samfélagsins og menn aðeins meira að ala upp börn. Menn aðeins minna að bora og konur aðeins meira að bora. Hlutverk væru ekki kynjahlutverk heldur persónuleg hlutverk því þú hefur ánægju af viðkomandi hlutverki. Áhugamál væru sömuleiðis ekki ákvörðuð út frá kyni og ekki lærð persónueinkenni heldur. Við getum verið af hvaða kyni sem er, og það hefði engin áhrif á aðrar meðvitaðar eða ómeðvitaðar ákvarðanir lífs okkar, nema kanski nærbuxna- eða túrtappaval. Nú kann einhver að spyrja sig hvort samfélög séu ekki einmitt svona, og jú, þau er það að einhverju leyti. En þó að inn á milli leynist fólk sem samfélagið hefur ekki náð að móta að þessu leyti, hafa viðteknar skoðanir samfélags mótandi áhrif fyrir heildina, um það hvað er æskilegt og hvað er eftirsóknarvert. Afhverju er til dæmis svona viðtekin skoðun að menn og strákar gangi almennt ekki í bleikum fötum? Ég veit það eru til menn og strákar sem að ganga í bleikum fötum en það verður að viðurkennast að viðtekna skoðunin er sú að drengir skulu ekki settir í bleikt. Gleymum því ekki að bleikur er ekki pólitík, bleikur er litur. Sama má segja að að menn og drengir skuli; harka af sér erfiðleika, ekki vera auðmjúkir og leita sér hjálpar, séu sterkir, gráti ekki, fái ekki átröskun, séu ekki þolendur, eigi síðasta orðið, viti alltaf betur, séu ekki lágvaxnir, drekki ekki Baileys, geti ekki leikið sér með dúkkur, vilji ekki vera í kjól og svona mætti lengi telja. Fyrir áhugasama, skoðið #karlmennskan á Twitter – þar er hafsjór af raunverulegum dæmum. 

Einfalda svarið er, að femínistar ættu að berjast fyrir útrýmingu eitraðar karlmennsku, samhliða öðrum baráttumálum, vegna þess að kvaldir, tilfinningabældir menn beita ofbeldi – og það ofbeldi bitnar oftar en ekki á konum og börnum. Hér er einstakt tækifæri til þess að ráðast á rót risastórs vandamáls samfélagsins sem hefur mikil áhrif á konur um allan heim. Manneskjur sem þekkja tilfinningar sínar, þora að tala um þær, fá að vera þau sjálf, eru virt fyrir það sem þau velja að klæðast, segja eða vera, eru ólíklegri til þess að taka út vanlíðan sína á öðru fólki. Menn sem finnast þeir ekki alltaf þurfa að stjórna bara til þess að hafa valdið, því vald er einkennistákn karlmennskunnar, gætu gefið einstaklingum af öðrum kynjum frekara rými til að taka stjórnina. 

Niðurstaða þessarar óvísindalegu rannsóknar er því að útrýming eitraðar karlmennsku leiðir af sér færri ofbeldismenn og meiri dreifingu valds. Allir græða, málið leyst, next.