til baka

Sem kona í viðskiptum hef ég komist að einu: Ég er aldrei alveg eins og ég á að vera. Það er eitthvað við tóninn í röddinni minni, eða fatavalið, sem er of þetta eða of hitt. Ég er alltaf of mikið máluð eða svo lítið að fólk spyr mig hvort ég sé hreinlega veik. Ég fæ mikið af ráðleggingum um að vera ákveðnari, en samt rólegri. Sjá til þess að röddin mín heyrist en hún má alls ekki ekki yfirgnæfa aðra. Ég er annaðhvort svaka stjórnsöm eða læt of lítið fyrir mér fara og stundum bæði á sama tíma. Það er ekkert eitt sem er að. Það er örlítið af öllu og línan á milli „of lítið“ og „of mikið“ er svo þunn að enginn getur borið almennileg kennsl á hana.

Ég virðist bara þurfa að vera “aðeins meira þetta” og “aðeins meira hitt”.

Þegar við leitum svara við því af hverju konur skipa minnihluta stjórnenda byrja svörin gjarnan á sömu sjö orðunum: Konur þurfa bara að vera duglegri að…

Við þekkjum þessi orð. Þau prýddu meira að segja strætisvagn á götum Reykjavíkur á tímabili. En af hverju rúlla þau svona auðveldlega af tungunni? Er það vegna þess að ekkert sem konur gera er nógu gott? Eða er það vegna þess að við erum að reyna að troða konum í mót sem aðeins fáar þeirra geta beygt og brotið sig saman til að passa í?

Margir kannast við myndlíkingu Alberts Einstein þar sem hann talar um að dæma ólíkar dýrategundir eftir hæfni þeirra til að klifra upp í tré. Samkvæmt þeim stöðlum mun fiskurinn lifa lífi sínu haldandi að hann sé heimskur. Nú eru karlar og konur vissulega ekki ólíkar dýrategundir, en samfélagsmótun kynjanna er ólík og þar af leiðandi eru dæmigerðir eiginleikar karla og kvenna ekki þeir sömu. Sem þýðir að ef mótin eru steypt eftir karlinum þá er sama hversu dugleg konan er, því hún mun aldrei verða nógu góð. Það er nefnilega ekki verið að hvetja hana til þess að vera „nógu góð útgáfa af sjálfri sér“, heldur „nógu góð útgáfa af karlmanni“.

Þarftu í alvörunni að vera; ákveðnasta, áhættusæknasta og kröfuharðasta manneskjan í herberginu til þess að vera góður stjórnandi? Eða erum við bara vön því að stjórnendur séu karlar sem búa yfir þessum eiginleikum? Metum við konur út frá karllægum stöðlum vegna þess að það eru bestu mælikvarðarnir? Eða er það vegna þess að við þekkjum ekkert annað?

Kaldhæðnin liggur í því að við erum alltaf að komast betur og betur að því að bestu stjórnendurnir búa yfir eiginleikum sem gjarnan þykja „kvenlegir“. Eins og auðmýkt og samkennd, útsjónarsemi, skilning og hæfni til að setja sig í spor annarra. Góðir stjórnendur koma í ólíkum umbúðum og búa að fjölbreyttum eiginleikum sem byggjast á kyni þeirra, uppeldi, bakgrunni, menntun, reynslu og fleiri áhrifaþáttum.

Við sem samfélag missum af þessu fólki með því að ætla að mæla það eftir einsleitum stöðlum. Það þarf fjölbreytta stjórnendur til að leiða fjölbreytt starf og ólíka hópa fólks. Þess vegna þurfa konur ekki að vera duglegri að vera karlar, samfélagið þarf bara að vera duglegra að meta fjölbreytta eiginleika jöfnum verðleikum.

Kynjamisrétti er rótgróið fyrirbæri. Það liggur ekki aðeins uppi á yfirborðinu þar sem allir sjá það, heldur einnig í allskyns ómeðvitaðri hegðun okkar allra. Þar á meðal er kynjuð orðræða.

Hefur þú einhverntíma velt fyrir þér hvert karlkynsorðið er fyrir; tík, tussa, mella, hóra, tepra, pempía, drós, gála eða glyðra? Ég held nefnilega að þau séu ekki til. En það er ekki nóg með að sum orð virðist bara vera til fyrir eitt kyn, heldur notum við líka orðin okkar mismunandi eftir því hverjum við erum að lýsa.

Rannsóknir hafa sýnt að í atvinnulífinu eru konur gjarnan gagnrýndar fyrir sömu eiginleika og körlum er hrósað fyrir. Þó frammistaða karla og kvenna sé sambærileg þá notum við ólíkan orðaforða eftir kyni þeirra sem um er rætt. Fleiri neikvæð orð eru notuð til að lýsa konum og fleiri jákvæð orð eru notuð til að lýsa körlum. Kona sem stendur fast á sínu, lætur ekki vaða yfir sig og segir sína skoðun er frekja. Karl með sömu eiginleika er ákveðinn. Kona sem tekur frumkvæði, segir fólki hvað það á að gera og fylgir hlutunum eftir er stjórnsöm. Karl með sömu eiginleika er stjórnandi. Kona sem brennur fyrir því sem hún gerir, vinnur verkin af innlifun og tekur fjölbreytta þætti inn í reikninginn við ákvarðanatöku er óskynsöm og tilfinningarík. Karl með sömu eiginleika er ástríðufullur.

Því er reglulega kastað fram að til þess að yfirbuga kynjamisrétti þurfi konur bara hreinlega að hafa meiri trú á sjálfri sér. En ég sé ekki hvernig það á nokkurn tímann að gerast á meðan við kerfisbundið rífum þær niður í leik og starfi. Kynjuð orðræða fyrirfinnst nefnilega ekki bara í atvinnulífinu, heldur allt í kringum okkur. Í skólabókum barnanna okkar, heilbrigðiskerfinu, hrósunum sem við gefum hvoru öðru og í daglegu tali.

Hvernig eiga konur að öðlast meira sjálfstraust, ef þær eru sífellt gagnrýndar og rifnar niður? Hvernig eiga konur að vera ákveðnari, ef þeim er sagt að þær séu frekar og yfirþyrmandi þegar þær sýna ákveðni í verki? Hvernig eiga konur að hafa trú á eigin hæfni og getu þegar það er kerfisbundið gert lítið úr þeim?

Svarið er einfalt, þær geta það ekki og þær eiga heldur ekki að þurfa þess. Því konur eru ekki vandamálið og þær hafa aldrei verið það. Vandamálið er að við sem samfélag komum öðruvísi fram við konur en karla. Við höfum öðruvísi væntingar til þeirra og tökum öll þátt í kynjakerfinu með hegðunarmynstri sem viðheldur misrétti. Rót vandans liggur í hegðun okkar og það er okkar ábyrgð að uppræta hana. Við þurfum öll að líta í spegilinn og velta fyrir okkur hvað við getum sjálf gert betur.

Ég legg til að við byrjum á því að brjóta upp okkar eigin kynjuðu orðræðu.

Mig langar því að skora á þig að hugsa út í orðin sem þú velur að nota. Stuðla þau að því að byggja fólk upp, eða rífa það niður? Notar þú sömu orð til þess að lýsa sömu hegðun hjá ólíkum kynjum? Metur þú sömu eiginleika jöfnum verðleikum í fari kvenna og karla? Eru hrósin sem þú velur kynjahlutlaus? Segir þú börnunum þínum jafnt að þau séu; falleg, sterk, hugrökk og dugleg, burtséð frá kyni þeirra?

Verum meðvituð um eigin hlutdrægni og pössum upp á okkar eigin hegðun. Það er eina leiðin til að höggva á rætur kynjabundins misréttis.

Munum að orðin okkar skipta máli.


Myndskreytingar: Stefanía Emilsdóttir
@stefaniaemils
Vefsíða

Ég vildi óska að ég gæti hafið þessa grein með þeim orðum að yfirvofandi breyting á útlendingalögum hafi eflaust ekki farið fram hjá neinum. En sannleikurinn er sá að lagabreytingin hefur farið fram hjá mörgu okkar Íslendinga. Hún hefur fallið í skugga meira aðkallandi málefna á borð við smithættu, atvinnuleysi, forsetakosningar og lögregluofbeldi. Hún er margþætt, og misskiljanleg, en mig langar að segja lesendum frá breytingu sem lítið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum og varðar fjölskyldusameiningu flóttafólks. 

Fjölskyldan er alþjóðlega viðurkennd frumeining þjóðfélagsins, sem ber að virða og vernda. Eining fjölskyldunnar (e. family unity) er ekki berum orðum nefnd í Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en telst hreinlega vera grundvallarréttur sem aðrar reglur, t.d. um fjölskyldusameiningu, leiða af. Fjölskyldusameining (e. family reunification) felur í sér tvíþætt mannréttindi. Annars vegar girðir hún fyrir brottvísun einstaklinga sem eiga fjölskyldu í umræddu landi. Hins vegar veitir hann einstaklingum kröfu á að sameinast fjölskyldu sem þeir hafa skilist frá, annað hvort að yfirlögðu ráði eða gegn eigin vilja. 

Hugtakið má skoða frá ýmsum sjónarhornum, en fræðimenn hafa almennt lagt áherslu á andlega velferð flóttafólks annars vegar (innri áhrif) og fjárhagslegan létti (e. economical relief) ríkisvalds hins vegar (ytri áhrif). Með innri áhrifum er átt við að fjölskyldusameining myndar sálræna umgjörð sem tryggir flóttamanni eðlilegt líf, a.m.k. að því marki sem slíkt er mögulegt miðað við aðstæður. Er þá bæði átt við að fjölskyldan veitir öryggi, sem flóttafólk var svipt í upprunaríkjum sínum, og að flóttafólk fær tækifæri til að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart öðrum fjölskyldumeðlimum. Af framandgreindum ástæðum er fjölskyldusameining séð sem nauðsynlegt skref í árangursríkri aðlögun flóttafólks. Með ytri áhrifum er átt við að fjölskyldan léttir undir með einstaklingnum og minnkar þannig álag á þær stofnanir ríkisvaldsins sem ellegar yrðu að útvega flóttafólki fjárhagslegan og félagslegan stuðning.

Fjölskyldusameining er nátengd öðrum mannréttindum, einkum rétti barna til að þekkja og umgangast báða foreldra sína samkvæmt Barnasamningi Sameinuðu þjóðanna, og hliðstæðum skyldum foreldra til að bera jafna ábyrgð á uppeldi og þroska barna sinna. Í tilfelli einstaklinga undir lögaldri má því almennt gera ráð fyrir að þeim verði ekki stíað frá foreldrum sínum með ákvörðun stjórnvalda, nema það sé barninu fyrir bestu.

Hér á landi tekur fjölskyldusameining til „nánustu aðstandenda“. Með því er í núgildandi útlendingalögum átt við maka eða sambúðarmaka, foreldra eldri en 67 ára og börn yngri en 18 ára sem eru „í forsjá og á framfæri“ viðkomandi. Með lagabreytingunni tæki reglan einnig til stjúpbarna í fylgd maka eða sambúðarmaka, sem verður að teljast jákvæð viðbót í ljósi fjölskyldusamsetningar sem orðið hefur algengari vegna hárrar dánartíðni flóttafólks. Á hinn bóginn takmarkar lagabreytingin regluna þannig að hún nær ekki til barna í hjónabandi eða sambúð. Er hér um afar hættulega breytingu að ræða, bæði út frá sjónarhorni kven- og barnaréttar, enda gerðu bæði UN Women og UNICEF á Íslandi athugasemdir í umsögnum sínum um frumvarpið. Þótt að börn, einkum ungar stúlkur, séu gefnar í hjónaband eða gert að búa með oft sér eldri mönnum, hvaða ástæður sem kunna að liggja að baki slíkri tilhögun, hætta þær ekki að vera börn, sem eiga rétt á umönnun og samvist við foreldra sína. Er þvert á móti um að ræða einkar viðkvæman hóp, m.a. vegna tíðni heimilisofbeldis í barnahjónaböndum.

Aðalbreytingin á reglum um fjölskyldusameiningu er þó mun alvarlegri. Hingað til hefur svokallað kvótaflóttafólk (fólk sem hér fær vernd í boði íslenskra stjórnvalda) getað sameinast nánustu aðstandendum sínum, sem aftur geta sameinast nánustu aðstandendum sínum, innan þeirra marka sem leiða af skilgreiningu hugtaksins. Verði frumvarpið að lögum munu þeir sem hingað koma á grundvelli fjölskyldusameiningar ekki geta gert kröfu um sömu mannréttindi. Er um afar torskiljanlega breytingu að ræða og vil ég því segja sögu, út frá dæmi úr umsögn Rauða kross Íslands. 

Kona er gift manni og elur upp tvö börn hans úr fyrra hjónabandi. Eftir að hafa verið gift í 10 ár neyðast þau til að flýja heimili sitt frá öfgahópi sem ætlar sér að taka yngra barnið, son, í hermennsku, með leyfi föðurins eða drepa að öðrum kosti alla fjölskylduna. Konan og sonurinn ná í flóttamannabúðir, en maðurinn og dóttir hans týnast á leiðinni og mæðginin telja þau af. Nokkrum árum síðar fær konan, ásamt öðrum einstæðum mæðrum, boð um að flytjast til lítils lands nyrst á hnettinum. Eftir dálitla dvöl á Íslandi kemst konan að því að eiginmaður hennar er á lífi, og hefur sloppið úr haldi hermanna. Á grundvelli fjölskyldusameiningar fær maðurinn að koma til Íslands og búa með konu sinni og syni. En þau sakna dóttur sinnar. Síðar kemur í ljós að stúlkan er lífs og hefst við í flóttamannabúðum í Eþíópíu. Verði frumvarpið að lögum gæti stúlkan ekki sameinast fjölskyldu sinni, einfaldlega vegna þess að faðir hennar var ekki sjálfur kvótaflóttamaður, og hún ekki „í fylgd“ með honum sem stjúpdóttir eiginkonu hans.

Dæmið er auðvitað tilbúið, en lagabreytingin mun hafa sambærilega skelfileg áhrif fyrir fjölda fólks. Því verður neitað um réttinn til að vera raunverulegur hluti af fjölskyldu sinni.

Allt frá því að mannréttindi fólks voru endurskilgreind af alþjóðastofnunum í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, hefur flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd verið einn viðkvæmasti hópur samfélagsins, vegna þess að hann hefur ekki sama tilkall til umræddra mannréttinda og ríkisborgarar. Með auknu flæði flóttamanna inn í Evrópu hafa viðtökuríkin af örvæntingu reynt að minnka, eða í tilfelli Íslendinga, stöðva, strauminn með aðferðum sem virðast einkennast af síaukinni grimmd. Í stað þess að ráðast að rót vandans með alþjóðlegu friðarstarfi, eða bjóða fólk velkomið í óþökk ógnara þeirra, ganga lög og reglugerðir Evrópuríkja sífallt lengra í réttindaskerðingu. 

Nú nálgumst við hratt þann áfanga þegar við þurfum að spyrja okkur hvað telst til grundvallarmannréttinda, sem allir njóta óháð því hvort eða hvar þeir eiga ríkisfang, og hvort við ætlum að skapa hóp fólks sem hreinlega nýtur þeirra ekki. Hóp fólks sem verður sviptur frelsi, reisn og lífi. Hóp fólks sem getur ekki gert kröfu um skjól, vernd og réttláta málsmeðferð. Hóp fólks sem má ekki vinna, vera eða mótmæla. Hóp fólks sem fær ekki einu sinni að eiga fjölskyldu.

Myndskreytingar: Alexandra Steinþórsdóttir

@alexsteinthorsdottir

Vefsíða

Bandaríkin loga í kjölfar morðs lögreglunnar á George Floyd. En þessi eldur er ekki nýkviknaður, hann hefur logað um aldir. George Floyd er ekki fyrsti svarti maðurinn sem lögreglan myrðir og hann verður ekki sá síðasti. Stjórnvöld reyna að halda því fram að lögreglan sé ekki rotin í gegn og að kerfisbundinn rasismi sé ekki til staðar. Hinir hvítu gráta krókódílstárum og benda fingrum á alla aðra en sjálfa sig og valdakerfið sem upphefur þá á kostnað annara. 

Lygin um land hinna frjálsu þar sem allir menn eru skapaðir jafnir byggir á ljótri óskhyggju, yfirhylmingu og algerri afneitun á raunveruleikanum. Hið hvíta valdakerfi er djúpstæður vefur kúgunar gegn svörtu fólki og minnihlutahópum sem hefur kostað óteljandi menn lífið.

 Í þessari grein verður litið til uppfinningu kynþátta og valdakerfisins sem við búum í. Við fæðumst kannski ekki rasistar en við fæðumst inn í heimsmynd sem gerir okkur að rasistum frá blautu barnsbeini. Rasismi er ekki bara náungi með hakakross á enninu að öskra white power. Rasismi er lúmskt valdakerfi sem á rætur sínar að rekja til nýlenduhyggju og þrælahalds og gerir okkur öll samsek í að jaðarsetja svart fólk, dýrgera það og ræna mennsku sinni, ala á ofbeldi og líta í aðra átt. Sú lygi að kynþáttur sé líffræðilegur og það sé munur á fólki sökum litarhafts er langlíf, rétt eins og sú trú að við séum ekki öll hluti af ósanngjörnu valdakerfi byggðu á þessum uppspunnu kynþáttum. 

Hið hvíta valdakerfi

19 júní 2019 markar 154 ára afmæli þess að öllum þrælum í Bandaríkjum Norður Ameríku var löglega veitt frelsi frá þrældómi. Þrátt fyrir að þrælahald hafi formlega verið lagt af árið 1865 hafa önnur valdakerfi sem viðhéldu kúgun og undirokun svartra komið í stað þess og sum eru enn til staðar í dag1. Hið hvíta valdakerfi (e. White supremacy) er það sem kenna má um hinn mikla mun á lífsgæðum og afkomu svartra og hvítra Bandaríkjamanna. Ber að nefna að munur á innkomu heimila svartra og hvítra er um 100.000 USD á ári2. Stórt hlutfall svartra Bandaríkjamanna er í fangelsum, fáir svartir eru í valdastöðum og hafa síður aðgang að menntun en hvítir, svartir eiga erfiðara með að færast upp um stétt og lifa í heildina styttra3. Einnig eru svartar konur þrisvar sinnum líklegri en hvítar til að deyja við barnsburð og svört ungabörn mun líklegri til að deyja í fæðingu en hvít4. Lögreglan og almennir borgarar myrða svart fólk á götum úti og á sínum eigin heimilum án dóms og laga.

Kerfisbundinn rasismi

Algengt er að líta markvisst framhjá tölfræðinni um hvernig hallar á svarta Bandaríkjamenn og kenna öðru um en kerfisbundum rasisma. Auk þess hefur um langt skeið verið álitið svo, af stórum hluta hvítra, að rasismi sé einfaldlega ekki lengur vandamál, og ef einhver á erfitt uppdráttar sé það honum sjálfum að kenna en engu ósýnilegu valdakerfi. 

Hið hvíta valdakerfi er ástæða bæði þess hvernig hallar á svarta, konur og alla minnihlutahópa  í nútímasamfélagi. Þrátt fyrir að valdakerfið tilheyri og sé nefnt eftir kynþætti valdhafanna eru fleiri atriði sem spila inní. Hið hvíta valdakerfi mótaðist til að viðhalda hinu hvíta kapítalíska feðraveldi sem byggir allan samfélagsstrúktúr okkar. Bæði eru það sjáanlegir þættir sem og ósýnilegir og margt fléttast inn í. Til dæmis hin kapítalíska fegurðarþráhyggja og stigveldi fegurðar, líkamspólitík, rasismi, kvenhatur, stéttaskipting og viðhald elítunnar sem á að haldast hvít og karllæg. 

Uppfinning kynþáttar

Okkur hefur flestum verið kennt, bæði beint og óbeint, að það sé skýr líffræðilegur munur á kynþáttunum og að auðvelt sé að benda á hann. Þessi líffræðilegi munur útskýrir, samkvæmt gömlum kenningum, sjáanlegan mismun, til að mynda á augnlit, húðlit og hárgerð. Auk þessa útlitslega munar hefur okkur verið kennt að í hinum svokallaða líffræðilega mun milli kynþátta felist einnig persónueinkenni, eins og kynferði, íþróttafærni og hæfni í stærðfræði5. Þessi hugmynd, að kynþáttur sé líffræðileg staðreynd sem feli í sér bæði útlitslega og andlega þætti, gerir það að verkum að það verður auðvelt að sjá aðskilnað milli kynþátta í samfélaginu sem eðlilegan. En kynþáttur er, rétt eins og kyngervi, félagsleg afurð fremur en líffræðileg6.

Raunveruleg vísindi hafa löngum sannað að enginn líffræðilegur munur er á fólki af mismunandi kynþáttum7. Útlitsleg atriði falla auk þess ekki eftir beinum línum milli kynþátta, fólk getur verið með ýmsa augn-, hár- eða húðliti en samt verið álitið hvítt, og fólk af afrískum uppruna getur verið jafn ljóst á hörund og evrópsk manneskja sem er álitin hvít, en samt verið álitið svart og þar fram eftir götum. Genetískur munur á fólki milli kynþátta er jafn smávægilegur og á milli fólks af sama kynþætti með mismunandi augnlit, og þætti flestum fáránlegt að áætla að bláeygt fólk sé almennt betra í stærðfræði en fólk með græn augu. Sú trú að mikill lífræðilegur munur sé á milli kynþátta á sér djúpar rætur í menningu okkar og þrátt fyrir að það hafi verið afsannað erum við enn föst í þessari samfélagslega tilbúnu lygi, sem hyllir hvítum ofar öðrum. 

Til þess að komast til botns í hvers vegna það er þarf að líta til þeirra afla sem gerðu það að verkum að þessi trú varð landlæg og hvers vegna nú- og þáverandi valdakerfi hafði hagsmuni í því að búa hana til. Það þarf að skoða þær fjárhagslegu og félagslegu aðstæður sem lágu að baki þess að hinn hvíti maður fann upp kynþætti sér til ávinnings, og hvers vegna þessi gervivísindi manna frá 18. öld eru svo lífsseig8

Kynþáttur var fundinn upp til að réttlæta kúgun, þrælahald og nýlendustefnu9. Bandaríki Norður Ameríku voru stofnuð árið 1776 á þeirri grundvallarhugmynd að allir menn séu jafnir10. En á meðan hvítir herramenn af evrópskum uppruna rituðu undir þá stefnuyfirlýsingu síns nýskapaða lands vildi svo til að þeir áttu margir hverjir heilmikið af þrælum og bjuggu á landi sem þeir sölsuðu undir sig með skipulagðri útrýmingu á frumbyggjum álfunnar11. Til að passa að þessar staðreyndir sem gáfu þeim ókeypis vinnuafl, land og auð, stönguðust ekki á við þá hugmynd að allir menn í bandaríkjunum væru jafnir, lét Thomas Jefferson, sem sjálfur var þrælaeigandi og nauðgari, einn af stofnmeðlimum Bandaríkjanna, gera „vísindalegar“ rannsóknir á kynþáttunum svokölluðu12. Þessar rannsóknir komu hvítu mönnunum vel, enda var spurningin sem leitast var við að svara ekki hvort hvíti maðurinn hefði yfirburði yfir aðra kynþætti heldur, hvers vegna hvíti maðurinn hefði yfirburði yfir aðra kynþætti13. Þegar farið er af stað með svo leiðandi spurningu reynist auðvelt að sanna það sem lagt er upp með, þrátt fyrir að rökin væru uppspuni. Og enn þann dag í dag lifa þessar hugmyndir góðu lífi. 

Rasismi er ekki eingöngu þessi gamla hugmynd um yfirburði hins hvíta kynþáttar, heldur á hann sér rætur í þeirri hugmynd að það sé í raun til eitthvað sem heitir hinn hvíti kynþáttur og að við séum ólíkar tegundir af fólki14. Einnig ber að nefna að áhugavert er hvaða litir hafa verið gefnir kynþáttunum, því eins og glöggir menn sjá er svart fólk ekki svart, heldur fremur brúnt og hvítt fólk ekki hvítt heldur frekar ferskjulitað eða bleikleitt. Snemma voru neikvæðar og jákvæðar hugmyndir tengdar hugtökunum, ekki eingöngu þegar kom að kynþætti heldur einnig bókstaflega öllu. Svart er neikvætt og hvítt jákvætt15

Í gegnum tíðina með þessum hugmyndum og gervivísindum sem byrjuðu með nýlendustefnu og þrælahaldi hefur kynþáttur svo orðið til, ekki sem náttúrulegt fyrirbæri heldur félagslegt16. Því núna, þrátt fyrir að enginn líffræðilegur munur sé á hinum svokölluðu kynþáttum, hefur samfélagsgerðin verið sköpuð þannig að hún er hagstæð hvítu fólki ofar öllum öðrum. Michael Eric Dyson segir í inngangi sínum að bókinni White Fragility eftir Robin DiAngelo „Því sannarlega er hvítleiki uppspuni rétt eins og aðrir kynþættir, það sem í akademískri orðræðu er kallað samfélagsleg afurð, samfélagslega samþykkt mýta sem hefur sjáanlega áhrif, ekki vegna þess að hann sé til heldur vegna áhrifana sem hann hefur skapað. En hvítleiki gerir meira en aðrir kynþættir, hann er samfélagslegt flokkunartæki sem virkar hvað best þegar tilvist hans er hafnað.“17

Hvað getur þú gert, hvíti lesandi?

Nú er eingöngu eðlilegt að vilja gera eitthvað, en hvað getur þú gert? Best er að byrja á að viðurkenna vanmátt okkar. Við báðum ekki um að tróna á toppi fæðukeðju hins hvíta valdakerfis en þar erum við samt stödd. Okkur langaði ekki að drekka í okkur rasisma með móðurmjólkinni en það gerðum við nú samt. Svo hvað er næsta skref?

  • Góð byrjun er að lesa þessa grein og hugsa um kynþætti sem uppspuna gerðan til að skapa stigveldi.
  • Lestu White Fragility eftir Robin DiAngelo.
  • Lestu Why I‘m No Longer Talking to White People About Race eftir Reni Eddo-Lodge. 
  • Fræddu hvíta fólkið í lífi þínu, taktu þátt í að kenna öðrum það sem þú hefur lært.
  • Ekki halda að þetta sé bara bandarískt vandamál, þetta á erindi við okkur öll.
  • Fylgdu samfélagsmiðlum svarts baráttufólks, til dæmis Ericku Hart og Rachel Cargle.
  • Fræddu sjálfan þig. Ekki pína svart fólk til að kenna þér, lærðu sjálfur. Hlustaðu af virðingu og með opnum huga.
  • Gagnrýndu „Kasjúal“ rasisma. Mótmæltu þeim sem neita vandanum. 
  • Ef þú tilheyrir sjálfur minnihlutahópi, notfærðu þér þína lifuðu reynslu til að finna til með öðrum minnihlutahópum.
  • Neitaðu að taka þátt í að upphalda valdakerfi sem brýtur okkur öll niður. 


#  #

Tayla Hassan
@taylahassan
1st of June 2020Call a story a thousand deaths
Mothers weep for the sons that
never grew up
Your white tears are not enough
We’ve weaved enough rivers
with them
You’ve drowned enough of our
sons in it
Turned the water pitch black
Your reflection is all that is left.
Could you face it if the shadows
of their smiles crept through the
pitch black waters?
See your tears could never water
down the truth
The river is black
Black as the moon
Your history is black
So I ask you to hold back those tears
In respect of the mothers
In respect of the graves you built
your country on.

@lve.sunshine

Þegar við fögnuðum fimmtu útgáfu Flóru og rúmu ári af starfsemi flutti ég ræðu á útgáfuhófinu. Hún var einhvern veginn svona:

Ég velti stundum fyrir mér afhverju Flóra varð til. Það sem meira er, afhverju hún hélt áfram að vera til og hvaða það veldur því að ég og allir sem taka þátt í sköpun þessa rýmis hafa gefið vinnuna sína nú í nærri 2 ár. 

Þegar ég stofnaði Flóru hafði ég margar háleitar hugmyndir. Mig langaði fyrst og fremst að framleiða femínískt efni og vinna þannig að meira jafnrétti í fjölmiðlaflóru Íslands. Skapa vettvang fyrir ólíka samfélagshópa, öruggt rými fyrir einlægni og fyrir fyrstu skref, og samfélag sem deildi þessum femíníska hugsunarhætti og markmiðum.

Þetta allt gerði ég auðvitað ekki. Þetta sköpuðum við öll saman og erum enn að. 

Flóra, þar sem hugrekki, einlægni, auðmýkt og metnaður drýpur af hverjum staf og pennastriki. Konsept sem erfitt er að ná utanum í einum frasa eða slagorði. Flóra er flókin stærð eins og samfélagið sjálft, og þannig viljum við vera. Þar sem sögur, skoðanir og upplifanir eru sagðar af okkur, konum og hópum samfélagsins sem minna rými fá í fjölmiðlum. Þar sem dagskrárvaldið er okkar. 

Í mínum huga skiptir þetta rými öllu máli. Sérstaklega fyrir þá ástæðu að það er ekki hægt að breyta ríkjandi menningu nema leggja eitthvað nýtt til. Breyta reglunum og samtímis hugmyndinni um hvað er verðmætt, hvað er velgengni. Verðmætið í hverjum einstakling og hverri stund sem lögð eru í verkefni af þessu tagi eru það verðmætasta sem til er fyrir sköpun jafnréttis í menningu okkar. 

—————-

Ég hef margsinnis verið spurð hvernig Flóra afli tekna, hver næstu skref séu. Hvað er planið? 

Satt best að segja er framtíðin óráðin, Flóra er til á meðan það er til fólk sem vill skrifa og skapa. Á meðan það er fólk sem vill lesa. Ég hef ótal sinnum spurt mig hinnar hjartakremjandi, og óþolandi spurningar „hvað myndi ég gera ef ég væri maður?“ Ég, með sárt egó fer í vörn og spyr sjálfa mig í huganum, „má ekki bara taka hægar vel ígrundaðar ákvarðanir? Má ekki hafa líka bara gaman? Þarf alltaf að sigra heiminn á einni nóttu?“ Tíminn mun leiða það í ljós. Mér þykir persónulega komið gott af því að mæla hagnað og velgengni í ársfjórðungum, reyndar finnst mér við eiga að mæla allt í 100 árum. En þannig virkar þetta víst ekki. 

Þar sem ég bý, í úthverfi í Kaupmannahafnar, er mikið um einyrkja og lítil fyrirtæki. Þau hafa mörg hver límmiða í glugganum þar sem stendur „ef þú vilt að við séum til á morgun, styrktu okkur í dag“. Sem er kannski bara allt sem ég vildi sagt hafa. 

Hugtakið eitruð karlmennska er fyrirbæri sem hefur síðustu ár orðið að einskonar suð-hugtaki sem heyrist oft í umræðunni og í fjölmiðlum. Almenningur heyrir hugtakið og túlkar það út frá eigin heimsmynd svo úr verður spírall ólíkra „staðreynda“ og skoðana. Margir karlmenn hafa tekið því sem gagnrýni á sína karlmennsku. Að karlmenn séu eitraðir. Árás á karlmenn sem tegund. Líkt og orðið femínismi er eitruð karlmennska misskilið hugtak í umræðunni. 

Flestir sem tefla fram hugtakinu eru að vitna í hugmyndir samfélagsins um karlmennsku, sem kemur í veg fyrir að karlkyns einstaklingar geti háttað lífi sínu eins og þeir vilja. Þá er auðvitað ekki átt við að það sé ómögulegt fyrir þá að hátta lífi sínu eins og þeir vilja. Heldur kostar það niðurlægingu, stríðni eða útskúfun ef þeir kjósa að fylgja hjartanu sínu ef það stangast á við viðteknar hugmyndir um hvað karlmenn eiga að vera eða gera. Almennt er hugtakið skilgreint sem hegðanamynstur sem karlmenn halda þeir þurfi að samræma sig með til þess að vera alvöru karlmenn. Einfalt og augljóst dæmi eitraðar karlmennsku er þegar þeirri viðteknu mýtu er leyft að lifa að drengir megi ekki gráta eða að það þyki ekki karlmannlegt að gráta eða sýna tilfinningar sínar. Ef enginn upprætir mýtuna verður til menning þar sem drengir og karlmenn halda aftur af tárum sínum og byrgja vanlíðan sína inni – sem getur svo valdið því vandamáli seinna meir að þeir eiga erfitt með að þekkja tilfinningar sínar, takast á við erfiðar tilfinningar eða leita sér hjálpar. Óuppgerðar, stórar, erfiðar tilfinningar eru svo oft uppspretta ofbeldis, hvort sem er andlegs eða líkamlegs, sjálfskaða, þunglyndis og annarra sjúkdóma og samfélagslegra vandamála. Þetta á vissulega við um fólk af öllum kynjum, en pæliði samt í butterfly effectinu sem á sér stað. 

Nú eru femínistar ekki einsleitur hópur og margir ósammála því að eitthvað tengt karlmönnum skuli falla undir baráttumál femínismans. Það er allgjört skilgreiningarmál hvað femínismi þýðir fyrir hvert og eitt, sem auðveldar okkur svo auðvitað alls ekki að skilja femínisma, en það er svo sem efni í annan pistil. 

En því er vert að spyrja, hvað varðar það femínisma að vera að spá í eitraðri karlmennsku? Hvað kemur það jafnrétti kynjanna við, dreifingu valds í samfélaginu eða að veita konum sömu tækifæri og menn fá? 

Í mínum huga er svarið: mjög margt, en leyf mér að útskýra. 

Í minni femínísku útópíu eru við öll smá meira og öll smá minna. Konur svolítið minni ráðskonur með hluti á hornum sér heimafyrir, menn aðeins (mikið) minna að taka ákvarðanir fyrir samfélagið. Konur aðeins (mikið) meira að taka ákvarðanir samfélagsins og menn aðeins meira að ala upp börn. Menn aðeins minna að bora og konur aðeins meira að bora. Hlutverk væru ekki kynjahlutverk heldur persónuleg hlutverk því þú hefur ánægju af viðkomandi hlutverki. Áhugamál væru sömuleiðis ekki ákvörðuð út frá kyni og ekki lærð persónueinkenni heldur. Við getum verið af hvaða kyni sem er, og það hefði engin áhrif á aðrar meðvitaðar eða ómeðvitaðar ákvarðanir lífs okkar, nema kanski nærbuxna- eða túrtappaval. Nú kann einhver að spyrja sig hvort samfélög séu ekki einmitt svona, og jú, þau er það að einhverju leyti. En þó að inn á milli leynist fólk sem samfélagið hefur ekki náð að móta að þessu leyti, hafa viðteknar skoðanir samfélags mótandi áhrif fyrir heildina, um það hvað er æskilegt og hvað er eftirsóknarvert. Afhverju er til dæmis svona viðtekin skoðun að menn og strákar gangi almennt ekki í bleikum fötum? Ég veit það eru til menn og strákar sem að ganga í bleikum fötum en það verður að viðurkennast að viðtekna skoðunin er sú að drengir skulu ekki settir í bleikt. Gleymum því ekki að bleikur er ekki pólitík, bleikur er litur. Sama má segja að að menn og drengir skuli; harka af sér erfiðleika, ekki vera auðmjúkir og leita sér hjálpar, séu sterkir, gráti ekki, fái ekki átröskun, séu ekki þolendur, eigi síðasta orðið, viti alltaf betur, séu ekki lágvaxnir, drekki ekki Baileys, geti ekki leikið sér með dúkkur, vilji ekki vera í kjól og svona mætti lengi telja. Fyrir áhugasama, skoðið #karlmennskan á Twitter – þar er hafsjór af raunverulegum dæmum. 

Einfalda svarið er, að femínistar ættu að berjast fyrir útrýmingu eitraðar karlmennsku, samhliða öðrum baráttumálum, vegna þess að kvaldir, tilfinningabældir menn beita ofbeldi – og það ofbeldi bitnar oftar en ekki á konum og börnum. Hér er einstakt tækifæri til þess að ráðast á rót risastórs vandamáls samfélagsins sem hefur mikil áhrif á konur um allan heim. Manneskjur sem þekkja tilfinningar sínar, þora að tala um þær, fá að vera þau sjálf, eru virt fyrir það sem þau velja að klæðast, segja eða vera, eru ólíklegri til þess að taka út vanlíðan sína á öðru fólki. Menn sem finnast þeir ekki alltaf þurfa að stjórna bara til þess að hafa valdið, því vald er einkennistákn karlmennskunnar, gætu gefið einstaklingum af öðrum kynjum frekara rými til að taka stjórnina. 

Niðurstaða þessarar óvísindalegu rannsóknar er því að útrýming eitraðar karlmennsku leiðir af sér færri ofbeldismenn og meiri dreifingu valds. Allir græða, málið leyst, next. 


#  #  #  #  #

Ritstjórn Flóru
10. mars 2020Á sunnudaginn síðastliðinn var Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Við í ritstjórn Flóru fögnuðum deginum í þremur mismunandi löndum


Í Kaupmannahöfn var býsna margt um að vera. Brostnar vonir Elinóru um að sjá pallborðsumræður tileinkaðar femínisma minnihlutahópa, þar sem mun færri komust að en vildu.

Kvöldinu hennar var því varið á baráttusamkomu kvenna þar sem m.a. sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Helga Hauksdóttir steig í pontu og ræddi jafnréttismál og kvennakórinn eldaði mat fyrir viðstadda.  Þegar dagur var að kvöldi kominn og Elinóra kyssti börnin sín góða nótt eftir annasaman dag, spurði sonur hennar „mamma, afhverju vorum við pabbi einu strákarnir í dag?“

Í Rotterdam í Hollandi komu druslur saman og kröfðust lífs án ofbeldis og misréttis. Áhersla skipuleggjenda hollensku druslugöngunnar (e. Slutwalk) var á hópa sem hefur verið þrýst út á jaðarinn og voru pallborðsumræður í lok göngunnar þar sem öryggi minnihlutahópa var rætt af fólki úr minnihlutahópum. Kraftmikill og tilfinningaþrunginn dagur þar sem Eva lærði heilmargt.


#  #  #  #

Rebekka Sif Stefánsdóttir
@rebekkasifmusic
14. september 2019velti fyrir mér vá
yfirvofandi vofu
hún fylgir mér

felur sig
í skugga mínum

nærir sig
á huga mínum

springur út
í iðrum mínum

nær heltaki
á raddböndum
slítur vefi
kúrir svo við kjarna

kallar
gólar
gengur
berserksgang

gengur
frá
mér


Mynd: Eva Sigurðardóttir

Ég trúi ekki að skiptinemadvölin sé á enda. Fimm mánaða ævintýri sem flaug hjá á ljóshraða. 

Tyrkland er ótrúlegt land. Draumur og kaós. 

Ég líð um. Ég vissi ekki við hverju ég ætti að búast og trúi því varla hversu mögnuð upplifun þetta hefur verið.

Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir tækifærið. fyrir fólkið. fyrir lærdóminn. 


Óvissan sem varð að hversdagslífi

og fjarlæg plön sem urðu að veruleika.


Göturnar sem voru áður framandi – orðnar heimili mitt og það á örskammri stundu..

Fólksfjöldinn sem ég áður kveið orðinn hversdagslegur og huggandi.

Endalaust magn fólks sem starði – starir enn og starir meira.


Ruglingslegar almenningssamgöngur og óþreyjufullir bílstjórar, bílferðir án bílbeltis og gatnakerfi sem ég er farin að þekkja þrátt fyrir að  „meika engann sens“. 

Endalaus straumur fólks sem fer yfir á rauðum, og þar á meðal ég.

Götukettir og hundar sem eiga sig sjálfir.
Góðhjarta fólk sem klappar, klórar og knúsar. Góðhjarta fólk sem fæðir og næðir.

Matarmenning sem á hug minn og hjarta.
og maga, garnir, ristil.

Tveir kossar – tvö faðmlög.
Ástfangin pör í hverju horni og milli horna. Leiðast. Í sleik.

Heldra fólk að drekka çay og horfa á mannmergðina.
Spjallar um daginn og veginn (án þess að ég viti nokkuð um innihald spjallsins verandi algjörlega ófær um að skilja tungumálið – nema hæ, bæ, takk og guð verði með þér)


Mér hefur sjaldan fundist ég jafn örugg.
Ég er ekki hrædd. Hér passar fólk upp á mig og ég upp á það.
Mest það samt upp á mig


Menning og saga í andrúmsloftinu.
Hús að hruni komin og götulistaverk í öllum skúmaskotum.

Pólitískur áróður.
Meiri pólitískur áróður.
Enn meiri pólitískur áróður.

Bjöguð enska og alls engin enska
Merhaba, Tesekkür ederim. Iyi akșamlar.


Allir þekkja alla og enginn þekkir ekki neinn
Hvað finnst þér? Ætlaru að koma aftur?


Fögnuður. Söknuður.

Hjartað mitt er nú þegar fullt af söknuði.
Aldrei hefur staður orðið að heimili á svona skömmum tíma.
Aldrei hefur fólk gripið eins hratt um hjarta mitt
og aldrei hefur lífið orðið eins mikið mitt eigið líf án áreynslu.

Þetta hefur verið ein besta upplifun lífs mín með hæðum og lægðum. 

Tyrkland, land sem varð að heimili. 

Istanbúl, borg sem varð að stað sem ég mæli með að allir heimsæki.


Ég hef komið inn á tyrknesku gestrisnina áður – en ég get ekki minnst nógu oft á allt þetta fólk sem tók á móti mér og kom fram við mig eins og drottningu. Sama hversu mikið þetta fólk á í sig og á, þá er það tilbúið að deila því öllu með mér. 

og því finnst ekkert sjálfsagðara.


Ég skil ekki viðhorf Evrópubúa til Tyrkja og Tyrklands. Fjölmiðlar menga og brengla ímynd landsins sem veldur því að fólk er hrætt. Fjölmiðlar mata almenning með röngum upplýsingum og ala á hræðsluáróðri og fordómum. Ábyrgð fjölmiðla er mikil; sýnið allar hliðar, fjallið um þjóð ekki bara pólitík. Og kæri almenningur lesið ykkur til um framandi menningu og beitið gagnrýnni hugsun á fréttir og umfjöllun.   


Hver hefði haldið að ég myndi opnast og breytast svona mikið á örfáum mánuðum. Allt þetta fólk sem braut niður veggi og kenndi mér svo margt.

Stútfull af innblæstri og vonandi örlítið betri manneskja þökk sé öllu því góða fólki sem ég kynntist kveð ég Tyrkland með söknuði – og eins tilhlökkun að heimsækja land og þjóð aftur. Því fyrr því betra.

Sjáumst seinna Tyrkland.


#  #  #

Perla Hafþórsdóttir
@perlahafmakeup
29. maí 2019Það er freistandi að kroppa í hrúðrið á gróandi sári
og þó ég viti að með því að kroppa kemur líklega ör,
þá get ég ekki annað en leyft mér að það, fyrst smá
og svo örlítið meira
þar til aftur glyttir í opið sárið
og svolítið blóð vætlar volgt niður holdið,
skilur eftir sig slóð
og minnir mig seinna á allt sem við áttum

aldrei sameiginlegt.

Er brjóstamjólk vegan?

Ekki vera svona.

Hvað meinaru?

Týpan sem er alltaf að reyna að véfengja veganisma

Er ég að gera það?

Er það ekki?

Ég veit það ekki, hef bara verið að velta þessu fyrir mér.

Auðvitað er brjóstamjólk vegan, konurnar sem gefa á brjóst gera það af fúsum og frjálsum vilja.

Er það?

Já, auðvitað. Eða nei okei, það eru örugglega hægt að gera sér í hugarlund að konur séu einhvers staðar þvingaðar til brjóstagjafar, en svona undir venjulegum kringumstæðum, já, þá er brjóstamjólk vegan.

Ég veit það ekki.

Hvað meinaru?

Ég upplifði það bara alls ekki alltaf þannig.

Hvernig?

Að ég væri að gefa á brjóst af fúsum og frjálsum vilja. Og þótt ég væri að gera það af fúsum og frjálsum vilja, þá var það samt sársaukafullt. Og glatað, stundum.

Æ kommon, ekki þetta forréttindabull.

Nei okei, ég veit, en ég meina það samt. Það var ógeðslega sárt fyrir mig, bæði það að gefa á brjóst, og líka það þegar hún tók svo ekki brjóstið og ég þurfti að gefast upp. Einhvern veginn náði brjóstagjöfin að særa mig á svo marga vegu.

En þá gastu að minnsta kosti bara gefið henni svona mjólk úr pela.

Já, en það er samt ekki það einfalt sko. Þá var ég allt í einu búin að missa af því að vera kona. Ég var bara svona hálfkona. Með brjóst sem virkuðu ekki. Ekki á þennan feminíska empowering hátt. Fannst ég einhvern veginn tapa fyrir feðraveldinu, skiluru. Brjóstin mín virkuðu ekki til að gera það sem þau eiga að gera, og þjóna því bara körlum núna. Og það fannst mér enn glataðra, að fá ekki einu sinni að vera fá að vera með mömmubrjóst, bara svona kynlífsbrjóst.

Ertu kannski að setja of mikla merkingu í brjóstagjöfina?

Kannski, ég veit það ekki, en fullt af fólki lét eins og ég væri bara að beila á þessu, að ég væri ekki að leggja mig fram við móðurhlutverkið. Komu fram við mig eins og latan ungling. Það var frekar glatað. Og svo er líka svo glatað að hitta bumbuhópinn minn, og allar sitja með börnin sín á brjósti og ég þarf að blanda dufti út í vatn. Þær einhvern veginn ógeðslega tengdar náttúrunni og ég í hlutverki efnafræðings. Þótt það sé auðvitað ekkert þannig. En samt.

Já, ég skil þig. En þú ert samt auðvitað bara að gera það sem er best fyrir hana.

Auðvitað, en svo var ég líka alltaf að drepast þessar þrjár vikur sem ég var með hana á brjósti. Ekki bara því það var ógeðslega sárt, það er svo miklu meira við brjóstagjöfina sem ég þoldi ekki.

Eins og hvað?

Æ, bara. Þú veist, það er geggjað yndislegt að eiga barn, en á sama tíma varð líkaminn minn og móðurhlutverkið einhvern veginn ósýnilegt fangelsi. Á meðan hann var alltaf heima og geðveikt meðvitaður um að vera virkur pabbi frá fyrsta degi, þá hafði hann samt möguleikann á því að fara. Bara, fara, skiluru. Einn. Þótt hann gerði það aldrei. Hann fór aldrei út án okkar. En hann gat það. Ég gat það aldrei. Ég gat ekki farið neitt. Þótt mig hafi ekki endilega langað að fara eitthvað geggjað mikið. En bara það að hafa ekki þennan valmöguleika var svo erfitt og íþyngjandi.

En ég meina, þú hlýtur nú að hafa getað farið út.

Já, jú, örugglega sko. En ég hafði það bara ekki í mér. Ég var þá þegar ógeðslega léleg að gefa á brjóst, og hún alltaf að drepast úr hungri og þyngdist ekki nóg og þannig. Svo ég hafði ekki samviskuna í það að fara bara. Þetta er bara svo glatað, skiluru. Það er svo ógeðslega glatað hvernig náttúran virkar. Ég er án djóks komin á þann stað – sem bara, þú veist, kona, eða femínisti, eða eitthvað – að við munum aldrei ná jafnrétti kynjanna ef konur eru skyldugar til að ganga með börnin og karlar hafa ekki möguleikann á því. Án djóks.

Já, en svona er bara náttúran.

Já, ég veit, en þetta er ekkert bara náttúran. Þetta er einhvern veginn í öllu, alls staðar. Við fórum til dæmis tvær upp á bókasafn um daginn, og hún var að skríða um barnasvæðið og leika við strák á svipuðum aldri og hún, nema hún var alltaf að flækjast í pilsinu á kjólnum sem hún var í, og var alveg að verða brjáluð – spólaði og spólaði og datt ítrekað fram fyrir sig á andlitið. Þetta var bara svo fáránlegt. Skiluru hvert ég er að fara? Þetta var bara eitthvað svo brjálað myndmál sem birtist okkur á bókasafninu. Mig langaði bara að standa upp og öskra „ÞETTA ER NÁKVÆMLEGA MÁLIГ, en ég held að það sé ekkert sérlega vel tekið í öskur á bóksafni, þótt það sé á barnasvæðinu. En skiluru hvert ég er að fara?

Já, jú jú, ég hef nú alveg pælt í þessum hlutum sjálf.

Ég veit, en bara það að verða mamma bætti einhverju svona hnausþykku lagi af sligandi vonbrigðum og ómöguleika við mína persónulegu feminísku baráttu. Ég bara nenni varla að vera til lengur, feðraveldið er svo ógeðslega þungur baggi á lífi mínu. Og lífinu hennar. Og lífinu hans. Ekki það að mig langi að hætta að vera femínisti og bara gefast upp, alls ekki skiluru, ég bara nenni ekki að hugsa um feðraveldið lengur, ég nenni ekki að vera af einhverju kyni lengur. Mig langar bara að stökkva út í sjó og synda eins lengi og ég get þangað til ég kem að einhverju skeri og byggja mér þar lítið skýli og deyja þar eftir svona tvær vikur. Tvær vikur án feðraveldisins væru örugglega betri en næstu 60 ár með því í þessu glataða, meingallaða samfélagi. Skiluru hvað ég á við?

Já. Ég held það að minnsta kosti. Og ég skil allt sem þú ert að segja. En ég er samt ennþá á því að brjóstamjólk sé vegan.

Já. Hún er það alveg. Ég er bara að vera með leiðindi.

Lífið í Istanbúl er áframhaldandi ringulreiða og veisla.

Gamlir menn blessa mig og ákalla Allah á götum úti
Ungir menn adda mér á instagram og senda mér skilaboð

Sólin skín og húðin roðnar.

Ég kann að telja á tyrknesku og panta mér kaffi.

Skólaskírteinið er loksins tilbúið, tveimur mánuðum seinna en áætlað var, en ég þarf hins vegar ekki á því að halda, verandi eini skiptineminn á mínu skólasvæði og geng í gegnum öryggisleitina án þess að sýna eitt né neitt – nema bros og ljóst hárið.


Ég sit á götuhorni við uppáhaldskaffihúsið mitt (eitt af mjög mörgum) og horfi og hlusta.


Bænakall úr næstu mosku

Lítið barn að öskra á mömmu sína

Skransali dregur timburvagn á eftir sér og hrópar eitthvað óskiljanlegt á nokkurra sekúndna fresti

Ég hrekk upp við bassann í tónlist þegar hvítur BMW keyrir framhjá með hvolp hálfan út um gluggann

Eldri kona vaggar framhjá og skammar mig fyrir að vera berleggja

Önnur dáist að ljósa hárinu mínu

Hópur af krökkum hefur hátt. Mana hvert annað að klifra yfir grindverk og hoppa hærra

Sonur afgreiðslukonunnar leikur sér með spiderman fígúru og truflar móður sína reglulega í vinnunni

Eldri maður gengur fram hjá með tvo stóra hunda í eftirdragi

Ég klappa tveimur kisum og stappa í takt við jazzaða útgáfu af Gangster paradise

Trukkur skreyttur tveimur jakkafataklæddum mönnum með rauð bindi blastar poppuðu lagi og hvetur fólk til að gefa blóð

Hópur af unglingsstrákum helst í hendur og gantast á leiðinni heim úr skólanum

Ung fjölskylda labbar framhjá, mamman með bleikt hár og tvo snúða, bert á milli, í buffalo skóm – 10 ára dóttir hennar líka


Síðustu vikur hafa einkennst af gleðskap og dansi með öðrum skiptinemum í borginni. Þess á milli mæti ég í skólann, borða tyrkneskan morgunmat og slaka á í sólinni. Mér finnst ótrúlegt að ég hafi verið hér í þrjá mánuði og að ég eigi bara tvo mánuði eftir.


Skapstyggir strætóbílstjórar í óskipulagðri umferð og hópar að dansa halai í görðum hafa sett mark sitt á dvöl mína hér sem og allt góða fólkið sem ég hef kynnst. Ég á núna þrjár tyrkneskar systur og þrjá meðleigjendur sem ég var svo heppin að fá inn í líf mitt þegar ég flutti í nýju íbúðina. Fólk er svo frábært. Svo er Ramadan í fullum gangi með tilheyrandi samkomum og ógrynni af góðum mat þegar fólk brýtur föstuna á kvöldin.


Það er eitthvað svo fallegt við að vakna fyrir fjögur um morgun með meðleigjendunum og borða og hlæja saman fyrir föstu.

Það er eitthvað svo fallegt við að útskýra fyrir forvitnu afgreiðslufólki hvaðan ég er og hvað í andskotanum ég er að gera í Tyrklandi.

Það er eitthvað svo fallegt að koma heim eftir partý og heyra fyrsta bænakall dagsins.

Það er eitthvað svo fallegt við að skoða magnaða sögulega staði eins og Hagia Sophia en taka meira eftir öllum fyndnu túristunum sem pósa og taka myndir villt og galið innan um mörg hundruð ára arkitektúr og list.

Æ og bara svo margt annað.


Iyi Akşamlar

Þangað til næst.

Veðrið var milt, nýfarið að örla á vorinu. Sólin skein á tærbláum himni eftir næturfrostið. Hún bjó í húsi með grænu bárujárnsþaki. Það stóð þétt upp við önnur hús, annað með rauðu þaki og hitt með stálgráu. Öll voru húsin hvítmáluð að utan. Hennar hús var með bláum gluggakörmum. Hún stóð við gluggann í stofunni og horfði út á götuna. Kaffibollinn í höndum hennar hlýjaði köldum fingurunum. Hún hafði alltaf verið handköld. Afi hennar sagði að þá hlyti hún að vera með hlýtt hjarta. Henni þótti vænt um þessi orð og minntist þess oft þegar hún bölvaði köldum fingrunum. Hrokkið hárið bylgjaðist niður á hvíta skyrtuna. Hún fékk sér sopa af kaffinu og dæsti. Henni leið vel. En samt ekki. Það var eitthvað sem var að angra hana en hún gat ekki sett fingurinn á það. Henni fannst eitthvað vanta og leið eins og hún saknaði einhvers. Hún horfði gegnum gluggann á fólkið ganga fram hjá húsinu og ímyndaði sér hvernig það sæji hana utanfrá. Rammaða inn í bláan glugga með kaffibollann í höndunum.

Hún hafði vaknað snemma um morguninn og farið í sund. Hún elskaði að synda og finna vatnið streyma um sig þegar hún tók sundtökin fimlega. Henni leið vel í vatninu. Þar var ekkert sem að vænti neins af henni. Ekkert sem krafði hana svara eða aðgerða. Bara hún og vatnið.

Tómið innra með henni stækkaði með hverjum deginum. Ef hún gerði ekkert var það ekki nóg og samviskubitið nagaði hana. Ef hún gerði eitthvað var það ekki nógu mikið. Ef hún gerði of mikið fannst henni það illa gert. Hún vissi ekki hvað hún átti að gera og flaut því bara áfram. Reyndi að rekast ekki á hindranirnar sem stóðu í vegi hennar. Hugsaði með sér að þetta myndi reddast á endanum.

Hún kláraði úr kaffibollanum og gekk með hann inn í eldhúsið. Íbúðin var pínulítil en hún var nógu stór fyrir hana. Hún þurfti ekki mikið. Stundum leið henni eins og hún væri mús í holu og stundum fannst henni hún vera í stórum helli. Hvað sem því leið var hún ánægð. En samt ekki. Hún reyndi að segja sjálfri sér að allt væri í lagi þegar það var það ekki. Sýnast vera með allt á hreinu þegar hún var það ekki. Setja upp grímu sem faldi holuna. Hún skolaði úr bollanum og lagði hann í uppþvottagrindina. Það tók því ekki að vaska hann upp, hún myndi hvort eð er nota hann aftur seinna. Hún settist í sófann með fartölvuna og sá spegilmynd sína í svörtum skjánum. Hvað var þetta á bringunni? Hafði hún sullað á sig kaffi? Hún reyndi að þurrka það af en kaldir fingurnir gripu í tómt. Hún stirnaði upp og þreifaði betur. Stökk svo upp úr sófanum og kíkti í spegil sem hékk á veggnum í anddyrinu. Kaldir fingurnir þreifuðu á bringunni sem reis og hneig með örum andardrætti hennar. Það var gat á bringunni. Á stærð við tíkall. Titrandi strauk hún yfir það og stakk fingrinum varlega inn. Það var engin fyrirstaða, bara kolsvart gat inn í bringuna. Hún vissi ekki hvað hún átti að gera. Kannski fara til læknis? Eða setja plástur á þetta? Hún hélt áfram að strjúka yfir gatið og var orðin rólegri yfir þessarri uppgötvun. Hún ákvað að fara í þykka peysu yfir hvíta skyrtuna og sjá til með þetta. Það myndi alla vega ekki lofta um gatið. Hún settist aftur í sófann. Í óðagotinu hafði hún staðið upp með tölvuna ennþá í fanginu þannig að hún datt í gólfið. Hún tók hana upp og sá að þvert yfir skjáinn var sprunga. Hún prófaði samt að kveikja á tölvunni og henni til mikils léttis virkaði hún ennþá. Hún gat alveg unnið í henni þó að sprungan væri á skjánum.

Gatið stækkaði hægt og rólega á bringunni næstu daga en hún tók ekki eftir því. Passaði sig bara að fara í þykka peysu yfir svo að ekki gustaði um það. Hún áréð að það væri ekki gott að fara í sund með svona gat á sér. Það gæti flætt inn um það. Samt saknaði hún þess að synda og finna fyrir vatninu. Sprungan á tölvuskjánum stækkaði líka hægt og rólega en hún aðlagaði sig að því og vann í kringum hana. Upptökin virtust vera á miðjum skjánum og litlar sprungur sigu hægt í allar áttir út frá því.

Alltaf fann hún samt fyrir því að hún væri búin að týna einhverju. Að það væri eitthvað sem hana vantaði. Eitthvað sem myndi kannski fylla holuna innra með henni. Þegar hún var að tannbursta sig nokkrum kvöldum seinna sá hún að spegillinn á baðherberginu var með sprungu sem hún hafði ekki tekið eftir áður. Örlítil sprungan var eins og hár á speglinum og hún reyndi að þurrka það af. Við það stækkaði sprungan og hljóp yfir þveran spegilinn. Henni brá við og horfði á spegilmyndina sína. Það vantaði á hana bringuna frá hálsi niður að geirvörtum og út á axlirnar. Í staðinn var botnlaust svarthol. Hún strauk yfir brúnirnar á gatinu. Kaldir fingurnir kölluðu fram gæsahúð sem strekkti á húðinni og gatið stækkaði ögn. Hún kláraði að tannbursta sig og fór svo upp í rúm. Vegna þess hversu lítil íbúðin var stóð rúmið hennar í stofunni við hliðina á sófanum. Götulýsingin fyrir utan varpaði appelsínugulri birtu inn um gluggann. Hún lá lengi andvaka og bylti sér. Enn var eitthvað að angra hana. Eitthvað að naga hana að innan. Eitthvað sem vantaði. Hún lagðist á bakið og horfði upp í loftið. Þetta var skrítið? Hún hafði ekki tekið eftir þessu áður. Í loftinu voru sprungur sem komu út frá loftljósinu sem hékk neðan úr því fyrir miðri stofunni. Sprungurnar liðuðust í allar áttir og sumar náðu að veggjunum. Hana verkjaði allt í einu í bringuna og ætlaði að nudda hana. En höndin greip í tómt og sökk inn í holuna upp að olnboga. Hún kippti henni út. Fingur hennar urðu svartir og hún sá þá molna í sundur. Duftið sáldraðist yfir sængina hennar og hún dustaði það niður á gólf með heilu hendinni.

Hún var hætt að geta notað tölvuna. Skjárinn var orðinn mölbrotinn og hún sá ekki lengur hvað hún var að gera. Spegillinn á baðinu hafði líka brotnað og hrunið niður af veggnum ofan í vaskinn. Henni fannst það reyndar fínt. Þá þurfti hún ekki að horfa á svartholið sem blasti við henni. Hún var líka búin að venjast því að nota bara aðra hendina. Stúfurinn á hinni hendinni var svartur á endanum eins og brunnin spýta. Það var allt í lagi. En samt ekki.

Hún ákvað að fara í sund því hún þráði að vera í vatninu. Hún fór í apótek og keypti stærsta sáraplástur sem afgreiðslukonan gat fundið. Hún vandaði sig við að líma hann yfir bringuna þannig að vatnið myndi ekki komast þangað inn á meðan hún synti. Hún hlakkaði til að finna vatnið á húðinni. Hægt og rólega dýfði hún sér ofan í heitt vatnið og passaði að plásturinn væri á sínum stað. Henni leið vel. En samt ekki. Hún ákvað að synda nokkrar ferðir til að finna vatnið streyma almennilega um sig. Spyrnti sér frá bakkanum og fann hvernig henni leið strax svolítið betur. Hún gleymdi gatinu. Gleymdi holunni. Gleymdi sprungunni. Bara hún og vatnið. En sundtökin urðu sífellt þyngri. Það var eitthvað sem að íþyngdi henni með hverri spyrnunni. Hún reyndi að ná andanum til að kalla á hjálp en sökk dýpra og dýpra.

Plásturinn hafði losnað og vatnið streymdi inn í bringuna. Hún sökk til botns. Hún hefði drukknað ef sundlaugarvörðurinn hefði ekki stungið sér til sunds og dregið hana með erfiðleikum upp úr lauginni. Hann ýtti henni upp á bakkann með aðstoð sundlaugagesta sem höfðu þust að. Hún gat andað en lá samt eins og negld við bakkann. Einn sundlaugargestanna, eldri maður með silfurgrátt hár, benti á að ef til vill þyrfti að velta henni á hliðina til að losa vatnið úr bringunni. Sundlaugarvörðurinn sá glitta í svartholið undan flaksandi plástrinum og hún fann að hún skammaðist sín. Hann tók plásturinn af bringunni og allir hjálpuðust við að velta henni á hliðina. Vatnið fossaði út um holuna og hún tók andköf þegar hjarta hennar flaut út með vatninu. Kona á miðjum aldri rétti út hendina og greip hjartað um leið og það flaut hjá. Þau sáu hvernig rauk upp af því í köldu loftinu. Konan rétti henni hjartað. Hún tók við því með köldu fingrunum. Það var hlýtt. Alveg eins og afi hennar hafði sagt.

Hún þakkaði öllum fyrir aðstoðina og gekk með hjartað í sundlaugarklefann. Hún klæddi sig og fór heim. Hún vissi ekki alveg hvað hún ætti að gera við hjartað þannig að hún vafði það inn í rakt handklæðið til að halda því heitu. Þegar hún kom heim sá hún að loftið hafði hrunið niður í stofuna hennar. Steypumolarnir og grænt bárujárnið lágu út um allt og gat var upp í bláan himininn. Hún ruddi brakinu af rúminu sínu, náði í handklæðið með hjartanu og lagðist með það í rúmið. Hún lá á bakinu og horfði upp í bláan himinninn. Hann var svo tær. Svo blár. Hún tók upp hjartað með köldu fingrunum og hélt því uppi. Studdi við það með svarta stúfinum. Það bar við himininn.

Og þá var eins og hún skildi. Hún skildi allt. Hún vissi hvað hún þyrfti að gera. Hún fékk tár í augun þannig að allt varð óskýrt. Hjartað og himininn blönduðust saman. Hún hélt hjartanu beint yfir svartholinu og lét það falla ofaní það. Hún fann léttinn streyma um sig þegar svartholið gleypti hjartað. Hún horfði á svarta stúfinn í gegnum tárin og sá hendina myndast aftur, með kalda fingur eins og hún hefur alltaf verið með. Hún fann gatið í bringunni skreppa saman og lokast. Tárin streymdu niður á koddann hennar. Hún skildi.

Niður í gegnum gatið á græna bárujárnsþakinu sást hún liggja í rúminu. Milli rauðu og stálgráu þakanna. Undir tærbláum himninum þar sem sólin þíddi burt veturinn. Það örlaði á vorinu.

Núna var allt í lagi. En samt ekki. En samt, alveg nóg.Mynd: Eva Sigurðardóttir


#  #

Perla Hafþórsdóttir
@perlahafmakeup
17. apríl 2019Þú öskrar,

ÁI ÞETTA ER VONT!

Þú spyrð,

Afhverju ég

Þú segir,

Ég mun aldrei aftur upplifa hamingju!

Tárin streyma úr endalausri uppsprettu augnhvarmanna og þú leggst niður í gólfið.

Hjálpiði mér!

Geriði það hjálpiði mér!

En samkenndin dugar ekki, faðmlögin virka ekki, orð okkar gangnslaus.

Þú verður að bíða, þar til fiðrildin missa máttinn og leysast upp.

Istanbúl er mögnuð og það hlýnar með hverjum degi. Það er svo mikið líf í borginni og alltaf eitthvað í gangi.

Borgin er mjög fótógenísk og er myndaalbúmið í símanum mínum stútfullt af myndum af borginni - ég hef þó tekið eftir ákveðnu þema í myndunum hjá mér - og það eru kisurnar. Það eru kisur út um allt og ekki annað hægt en að elska þær og mynda þær.

Finnst að svona ættu allar borgir að vera, stútfullar af yndislegum hundum og köttum sem vilja bara ást og frið

þetta er mín tímalausa tilkynning um hamingju,
ég ætla að hafa það gott,
hafa það – soldið næs.
hætta að fljóta með,
nema það sé samleiðis mér.

þetta verður skuldbindingin mín
mitt móderníska manifesto
og ég ætla að gera það fyrir mig,
og allar aðrar sem gátu það ekki sjálfar

og ég ætla að fylgja því eftir
því það verður samleiðis mér.
og ég ætla að öskra það af húsþökunum
að nú hafi ég það næs,
sé hætt að semja þýðingarlaus þynnkuljóð,
að þú-ið sé aftur orðið tómt
og að nú sé þessi stelpa bara ég.Mynd: Eva Sigurðardóttir


#  #  #  #  #  #

Lára Sigurðardóttir
12. apríl 2019Ég grét þegar að ég kom heim. Ég settist á rúmið mitt grátandi og horfði yfir herbergið sem var mjög lítið og undir súð, svo ég horfði í rauninni á súðina.

Þetta ár var ég búin að ganga þessa leið svona fimm sinnum í viku.

Upp Hraunteiginn, til vinstri upp Gullteig, framhjá Laugarnesskóla og leikskólanum Hofi, svo aftur til vinstri og niður Hofteiginn, svo til hægri niður innkeyrsluna eða stíginn (þetta var bakhús).

Ég gekk alltaf sömu megin og ég fór aldrei aðra leið, aldrei gegnum skólalóðina eða eitthvað slíkt. Arna var sérstaklega þolinmóð gagnvart þessari sérvisku minni, þessum vana sem ég hef að gera hlutina alltaf nákvæmlega eins. Sérstaklega þegar um er að ræða gönguferðir eða leiðir. Ég fer alltaf sömu leiðina.

Þegar að ég var að æfa fótbolta með Þrótti tíu ára gömul fór ég alltaf samferða Örnu. Æfingasvæðið var ekki í hverfinu okkar, Laugardalnum, heldur ská á móti Holtagörðum, beint á móti Jóa Fel bakaríi, í Sundunum. Í mínum huga var þetta eins og að fara til annars lands. Ég man að þetta var um sumarið og við hjóluðum alltaf á æfingu. Ég man líka að ég þekkti Örnu ekkert sérstaklega vel þá, við vorum ekki nánar vinkonur á þessum tíma. Við hjóluðum alltaf sömu leiðina. Alltaf sömu leiðina. En í eitt skiptið þá var Arna búin að finna aðra fljótari leið og ég komst í pínu uppnám. Ég man að ég gat hreinlega ekki hugsað mér að fara aðra leið og skildi ekki afhverju í ósköpunum við gætum ekki bara farið leiðina sem að við fórum alltaf. Sömu leiðina. Leiðina okkar. Ég stappaði niður fótunum og byrjaði næstum því að gráta. Arna sagði rólega að við myndum þá bara fara leiðina okkar, sömu leiðina og alltaf, jafnvel þótt hún væri lengri. Ég gleymi þessu ekki. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég hugsaði hversu sérvitur ég væri og vanaföst. Ég skammaðist mín. Ég áttaði mig líka á því hvað Arna væri skilningsrík, jafnvel án þess að hún vissi hvað þetta skipti mig miklu máli.

Kvöldið sem ég sat grátandi á rúminu mínu og horfði yfir herbergið, á súðina, var ég tuttugu og eins. Ég var að koma frá Örnu. Arna var á leiðinni til Perú og ég var sjálf á leiðinni til Danmerkur nokkrum mánuðum seinna. Ég vissi að þegar að Arna kæmi heim frá Perú yrði ég farin. Ég vissi að allt myndi breytast, að allt væri þegar breytt.

Við vorum fleiri vinkonurnar sem vorum svo oft heima hjá Örnu. Þetta ár var ég samt oftast bara ein heima hjá Örnu. Við vorum allar farnar eitthvert á þessum tímapunkti. Til annars lands, ekki bara í Sundin. Sumar voru aftur komnar til baka en voru samt á leiðinni eitthvert annað. Að verða fullorðnar heitir það víst. Að eignast elskhuga, læra eitthvað nýtt, flytja úr hverfinu, flytja lengst í burtu, finna aðra leið, að fara aðra leið.

Það sem ég vissi að myndi aldrei verða eins var að við myndum aldrei bara vera heima hjá Örnu aftur. Hvorki ég ein eða með hinum. Að bara vera var að tala, leggja sig, lesa, hlæja, horfa á eitthvað, hlusta á tónlist, segja frá, gráta, bíða eftir símtali, borða nammi, horfa á Örnu brjóta saman þvott – taka til – fara í gegnum pappíra. Það sem ég vissi var að engin manneskja, eins og Arna, sem var búin að þekkja mig í svona mörg ár var í Danmörku. Engin manneskja sem vissi hvað ég væri sérvitur en skildi mig samt.

Kvöldið sem ég sat á rúminu mínu og grét saknaði ég þess sem var og kveið því sem koma skyldi.

Þetta kvöld gekk ég þessa leið heim, upp stíginn eða innkeyrsluna (þetta var bakhús), til vinstri, upp Hofteiginn, til hægri niður Gullteig, framhjá leikskólanum Hofi, framhjá Laugarnesskóla, aftur til hægri inn Hraunteiginn.


Mynd: Eva Sigurðardóttir


#  #  #  #

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir
11. apríl 2019Hár hennar fellur í stríðum straumum
Niður herðarnar, eftir andlitinu
Sveigir upp að kjálkalínu
eins og lokkar í fjallshlíðum sem skapa áfasta mynd í landslagi þjóðar
Það er heiðbjart ekkert rok engin rigning eins óvanalegt og það gerist
Samt liggur vandi heimsins á herðum hennar
Áhyggjur af heimi
þungi yfir tilveru

Áður en hún fór út í morgun passaði hún að brókin væri symmetrísk
Engar línur féllu á húð eða sæust á rassvasa
Að hárið væri í bylgjum eins og óstírlátt hafið, eins og snjóstraumarnir í Fjallinu
Broshrukkur velkomnar en allt annað forboðið í óraunhæfum kröfum sem fengnar voru í arf
Aldrei pils bara buxur uppháar klíp í kinnar til að fríska, svo út í vinnu númer eitt

Hún hefur áhyggjur af heimi og framtíð
Hvernig kröfurnar hafa skapað eilífan vítahring
Fjallið sést í skrifstofuglugganum en það er fjarlægt, ekki eitt með henni
Það hefur lent í markaðssetningu eins og allt annað
orðið að tákni, að ímynd
eins og hún


Mynd: Díana Sjöfn


#  #  #

Harpa Rún Kristjánsdóttir
@harparun90
10. apríl 2019Nýbökuð
við miðjarðarhafssólargráður

nýstigin
úr síðustu flugferð
fallinnar upphrópunar

finn ég til svolítils
samviskubits
gagnvart grágæsunum

sem greiddu uppsett verð
það sama og alltaf
fyrir flugið þessa leið

koma heim
í grimman apríl
þakinn skafrenningi
og snjó.

Langar ofurlítið
að elta þær uppi
og biðjast afsökunar

á Íslandi.


Mynd: Eva Sigurðardóttir


#  #  #

Perla Hafþórsdóttir
@perlahafmakeup
8. apríl 2019Svartur alklæðnaður, sólgleraugu og sígarettur, einkenningbúningur töffaranna. Allt saman sjónblekking. Vegna þess að í raun og veru eru þau að fela óöryggið í augunum, brotnar sjálfsmyndirnar og félagskvíðann sem bindur þau saman.

mig dreymdi einu sinni.

og í drauminum átti ég barn.

mitt barn.

og það fékk freknurnar mínar

og rauðbirkna hárið mitt

og grænu augun mín

og allt það góða sem ég hef nokkurn tíma átt.

og barnið mitt stækkaði aldrei

en vitkaðist bara og vitkaðist

þangað til vitið þess hafði vaxið mér yfir höfuð.

og ég hélt á litla, vitra barninu mínu,

sem fékk freknurnar mínar

og rauðbirkna hárið mitt

og grænu augun mín

og allt það góða sem ég hef nokkurn tíma átt.

og litla, vitra barnið mitt horfði í augun mín.

grænt í grænt.

tók með litlu lófunum sínum um vangana mína og hvarf.

og ég sat eftir.

og freknurnar sem voru eins mínar

voru eins og duft í kjöltunni minni.

og ég vissi að ég ætti að gráta

en ég gerði það ekki

því þetta var ekki sorglegt fyrir konu eins og mig,

sem á sama tíma er hrædd við að eiga barnið

og hrædd um að geta aldrei átt barnið.


Mynd: Eva Sigurðardóttir

Það er eitthvað voða notalegt við það að heyra í nágrönnunum.


Á fótum kl hálf fjögur á aðfaranótt mánudags.

Að ryksuga á þriðjudagsmorgni.

Börn að leik á efri hæðinni og fréttirnar í gangi.

Falskt píanó og æfingar samhliða ljósaskiptunum.


Píanóleikur nágrannans minnir mig á aumingja Kristínu og Steina sem þurftu að hlusta á mig æfa mig á píanóið á hverjum degi (ish) í 12 ár.
Tónstigar og Czerny æfingar. Tunglsónatan og Für Elise. Aftur og aftur og aftur og aftur.

Ó, svo spilaði bróðir minn á trompet á tímabili.Sólin kyssir á mér nef og enni og ég þarf að píra á mér augun
það er svalt en mér er sama.
sólin.

Ég æfi mig að klæða sólina af mér, stenst freistinguna um að afklæðast og tana líkt og sönnum Íslendingi sæmir.

Sólin gerir ekki annað en að staðfesta þá trú mína að andleg heilsa mín stjórnast alfarið af veðurfari og hitastigi.

Ég er orðin frek á góða veðrið og tek því mjög persónulega ef hitastigið fer undir 15 gráður – ég er orðin mjög stressuð fyrir næstu dögum því það á að kólna smá.Mannmergð
Mannlíf
Mannþröng
Mannhaf

Fjölmenni


Ég hef tekið eftir því að mikill meirihluti þeirra sem ég sé á götum úti, í búðum og á veitingastöðum eru karlkyns. Karlar út um allt. Þeir afgreiða þig, þjónusta þig og mæta þér á götum úti. Þrír strákar fyrir hverja stelpu.

Og ég næ ekki utan um þá hugsun að í Istanbúl einni búi um 60 sinnum fleiri en á öllu Íslandi.

Tuttugu milljónir. Og ég er ein af þeim.

Mér finnst ég aldrei sjá sama fólkið. Svo ánægjulegt.

Sú hugsun er svolítið einmanaleg, og stundum er hættulegt hvað ég kann vel við einveruna. En ég hef kynnst frábæru fólki og ég er alls ekki einmana,

og þó. Stundum er athyglin sem ég fæ svolítið einmanaleg.Staða kvenna hefur verið mér hugleikin síðustu vikur. Það að vinna að femínísku verkefni eins og Flóru á stað eins og Istanbúl er mjög áhugavert. Á sama tíma og útgáfuhóf Flóru var haldið, þar sem femínismi réð ríkjum, beitti lögreglan í Istanbúl táragasi gegn þeim sem mætti á kvennamótmælin.

Það er eins og innbyggt í karakter kvenna að gera ráð fyrir „herramennsku“ karla – t.d. að reikna með að karlar opni hurðar fyrir þær og borgi fyrir þær. Þær láta á sig fá þegar talað er niður til þeirra og strákar eru ágengir. Þeir bjóða stelpum grimmt á deit en taka ekki mark á neitunum og halda áfram að spjalla. Kannski þarf ég bara að læra að vera skýrari.

Mér finnst ég sjá mynstur í því fólki sem ég kynnist – strákar sem hafa frumkvæði að því að kynnast mér og opnar stelpur sem trúa því að hjónaband og börn séu ekki eina leiðin í lífinu – leiðin sem margar konur taka í Tyrklandi, vinna, eignast kærasta, giftast honum, hætta að vinna, eignast börn og sjá um börn og heimili á meðan karlinn sér fyrir fjölskyldunni. Karlar hafa völdin. Þrisvar hef ég verið fyrir aftan par – karl og konu – á göngu og þegar ég nálgast grípur hann í hana og dregur hana frá svo ég komist framúr. Ég þekki reyndar eina stelpu sem getur ekki beðið eftir að gifta sig og hætta að vinna til að sjá um heimilið.

Mér finnst staða kvenna verða skýrari með tímanum en ég á enn langt í land með að skilja hver hún er í raun og veru. Mér finnst ekkert að því að velja það að vera heimavinnandi húsmóðir en ég set spurningamerki við ástæður „valsins“ því ég trúi því ekki að allar þessar konur ákveða að hætta að vinna af sjálfsdáðum, jafnvel eftir 5 ára háskólanám og góðan árangur í starfi. Þetta er þó að breytast og eru færri og færri konur sem hætta að vinna svona snemma.


Ég á erfitt með að staðsetja mig sem femínista innan samfélagsins hérna og veit ekki hversu mikið pláss ég get tekið.


Mér finnst ég þurfa að læra að vera kynþokkafull í fasi og framkomu – eins og allar smágerðu stelpurnar sem dansa á skemmtistöðum, hljóðlátar svífandi um göturnar og „kvenlegar“ að drekka kaffi í kaffiteríunni í skólanum.

Mér finnst ég þurfa segja eitthvað þegar ég upplifi sexisma en eins finnst mér ég ekki í þeirri stöðu að skilja allar hliðar og mín rödd ekki mikilvæg í samanburði við rödd kvenna héðan.

Mér finnst ég algjör tussa að höndla ekki karlrembulætin í vinahópi meðleigjanda minna og stóð á mínu og rökræddi um femínisma við þá eftir að þeir gerðu lítið úr vinkonu minni og gáfu til kynna að það tæki því ekki að hún færi í læknisfræði því hún þyrfti að hætta snemma og sjá um börnin – og þeim var alvara.

Mér finnst ég að mörgu leiti öruggari hér en annars staðar því hér eru konur taldar veikara kynið og margir karlar sem finna hjá sér þörf til að vernda mig og aðrar konur.

Mér finnst ég þurfa að kafa djúpt í menninguna til að skilja almennilega stöðu kynjanna – því stundum virðist hún fullkomin og góð – en stundum mjög íhaldssöm og gamaldags.


__


Don’t be shy, I’ll give you free chai.

Hello, hey. Terrace, terrace. We have terrace.

Good price only for you!

Áreiti afgreiðslumanna er mismikið og er það mismunandi milli daga hversu mikið þeir pirra mig. Ég er svo augljóslega útlendingur og þeir spotta mig úr mikilli fjarlægð og munu gera það áfram. Það er líklegast best fyrir geðheilsu mína að venjast þessu sem fyrst. Mamma og pabbi voru í heimsókn um helgina og sáu þeir sér gott til glóðarinnar og tókust á um að fiska okkur inn á veitingastaði og kaffihús. Þrír (túristar) fyrir einn. Eins kom Úlfur snillavinur minn í heimsókn og við fórum á skemmtistað sem spilaði tyrkneska 90’s tónlist – eina lagið sem ég þekkti allt kvöldið var tyrkneska eurovisionlagið sem vann árið 2003 .Það var óskaplega gott að fá fólk í heimsókn og túristast aðeins í borginni sem ég kalla heimilið mitt. Kynnast henni betur og njóta lífsins – það er svo sannarlega auðvelt í Istanbúl. Spennandi viðburðir og tónlist út um allt, góður matur á hverju horni og saga og kúltúr í loftinu sem ég anda að mér. Brunch-kona eins og ég er heldur betur í góðum málum í landi þar sem íbúar eru með doktorsgráðu í morgunmat og brunch-menningin í hávegum höfð.


Mér líður rosaleg vel hérna. Ég er búin að finna mín uppáhalds kaffihús þar sem ég hef eytt ófáum klukkustundum að vinna og eins er ég (loksins) búin að kaupa mér nýtt lak og tvo þykkblöðunga.

Nú taka við tvær miðannavikur í skólanum (held ég hehhh) ef þetta er rétt skilið hjá mér að það verði einhverskonar miðannamat – kemur í ljós…


Heyrðu – svo fann ég draumahúsið mitt á lítilli paradísareyju fyrir utan Istanbúl – þar sem eru engir bílar og allir ferðast á hjólum og hestum. Hlakka til að fá ykkur í heimsókn..


#  #  #

Perla Hafþórsdóttir
@perlahafmakeup
20. mars 2019Bíttu á jaxlinn, ekki gráta

Og þú beist á jaxlinn og hélst inni tárunum

Og þau söfnuðust saman

Og mynduðu stóra stíflu innra með þér

Og þú beist aftur á jaxlinn

Og tárin hrönnuðust upp

Og stíflan stækkaði

Og það varð til stöðuvatn innra með þér

Og þú beist fastar á jaxlinn

Og stöðuvatnið varð að söltum sjó

Og tilfinningarnar syntu stefnulaust um í hafinu

Og þú kunnir ekkert annað en að öskra

Og þú öskraðir hátt

Og öskrið barst í gegnum himininn

Og heyrðist út um allar trissur

Og þér fannst þú ekki lengur finna fyrir gleði

Og þér fannst þú ekki geta elskað

Og þú upplifðir hvorki sorg né vonbrigði

Og þér fannst þú ekki finna fyrir neinu


Þú varst dofinn

Þú sást enga liti, greindir ekki einu sinni muninn á svörtu og hvítu allt rann saman allt var grátt aðeins grátt


Þar til einn daginn

Þegar stíflan brast

Og þú grést þangað til öll tárin voru uppurin

Og þá fyrst fannstu fyrir létti

Og þá fyrst fannstu fyrir gleði

Og þá fyrst gastu elskað

Og þú elskaðir af öllu hjarta


Og nú þegar þú brosir

meinaru það.


#  #  #  #  #

Perla Hafþórsdóttir
@perlahafmakeup
19. mars 2019I

Þú misstir allan sjarma þegar ég fann út hvað þú hétir og fletti þér upp á facebook.


II

Þögnin þín er stöðugt suð í eyrunum á mér.

Ósögð orðin bergmála í hausnum á mér.

Setningarnar sem þú misstir út úr þér hringsólast í kring um mig. Samhengislausar, merkingarlausar, mála þær óreiðukenndar myndir inn í augnlokin.

Stundum í amstri dagsins heyri ég ekki lengur í suðinu og þegar ég opna augun hverfa myndirnar fyrir hversdeginum.

En þegar ég leggst á koddann heldur þú fyrir mér vöku og fylgir mér loks í draumana.


Mynd: Eva Sigurðardóttir

ég skar af mér höndina
svo þú fengir pláss.
ég sleit hárið mitt af
eitt, og eitt í einu
því þig klæjaði undan því.

ég plokkaði úr mér augun
svo ég sæi ekki gallana.
ég afneitaði mér hamingju
með glöðu geði
því þín var í fyrirrúmi.

en það var ekki nóg.
þú þurftir meira pláss,
minna hár,
heyrnarleysi á gallanna
og allt sem ég átti.
Harpa Rún Kristjánsdóttir // Wincie Jóhannsdóttir
@harparun90
13. mars 2019Married off
to an old man
no love match
for me.
Sold away
to a distant place
far from my kinspeople
a housewife among strangers.
     The waves break
the current roars
the river flows on
to the sea.

A domestic, helpless
to resist the power
of the farm-owner
behind hay stacks and bed-curtains.
Or a slave
knowledgeable but known to few
a foreign face
a name that sticks in one´s throat.
But all cats are gray in the dark.
     The waves break
the current roars
the river flows on
to the sea.

Right from the start
the responsibility was yours
since however things went
you were left with the sin.
Unless of course
the fruit was torn from your womb
by God or men
the pain was the same.
     The waves break
the current roars
the river flows on
to the sea.

Eyes can not hide
a woman´s love
but closed eyes
give nothing away.
When appealed to,
dominating voices
fall still
flood innocence in shame.
     The waves break
the current roars
the river flows on
to the sea.

Through the murmur of the stream
I hear forgotten voices
for the stones are strings
and the water is memory´s harp.
I fill my palm and drink
and promise never to forget you.

Sleep soundly, dear sisters,
in the Drowning Pool.

Ensk þýðing: Wincie Jóhannsdóttir
Mynd: Pálmi Bjarnason og Sigrún Kristjánsdóttir


#  #  #  #  #  #

Eva Huld
12. mars 2019Ég er tilfinningasprengja
ég er kona
já svona
vertu sexý vertu hljóð
vertu alfarið góð
komdu nær er hann færir sig fjær.

Ég er Eva ég er Adam
Ég má allan skalann
Ég er sjálf hóran í Babelón.

Ég er feit
ég er stór
Ég er hafsjór
þú ert flór.

Ég græt en ég læt
ei valta yfir mig.

Af rifi er ég komin
og rifin skal ég verða
margbrotin, þrotin en
rís alltaf aftur upp.

Ég er kona
ég mun
jarða þig
lifandi
tifandi, af hræðslu.

Það er mín blessun og mín bölvun
að berjast
og
stand‘alltaf aftur upp
fyrir dætur þessa
alsnægtar lands.

Ykkar tími er liðinn
ég er skriðin
undan feldnum, sem þú
hrúgaðir á mig
er orðin sterk
undan þrýstingnum
og neita
alfarið að beita
og mig skreita
með, þínum skoðunum

Ég fékk boðun um að horfa upp og klifra hátt
upp á axlir allra þeirra sem á undan hafa farið
María Magdalenda og
Sóley Tómasdóttir, með áfallastreitu eftir stríðið
undan þunganum af því að neita
að leggjast flöt
vera, sexý, vera hljóð
vera tól
feðraveldisins.

Alveg geldir eftir aldagamla velmegun
aldrei nóg, hvað næst
ég er
orðin focking æst
við viljum meira, stærrri draum
annarskonar félagstaum.
Þar sem laun endurspegla mig en ekki hann.

Þrælslund sem situr eins og valdið vill
andar inn og út
spillt
ég er villt
ég er þyrnir í
þínu
lata auga
passa illa í þennan,
rotna ramma
reynd‘að gjamma frá þér allt vit
ég er komin til að vera
vittu til
ég vil
meiri jöfnuð
já, farðu frá já, ég vil
ekki meiða
þú ert bleyða röngu megin í
mannkynssögunni

Reynd‘að þekkja reynd‘að skilja
minn vilja
þú mátt
enn víkja
ég vil
ekki ýta en
þú veltir ekki frá þér gosinu.

Eins og Hekla mun ég sprengja
þetta kerfi
minn tími er kominn
Jóhanna Sig
vittu til.

Kynjakerfið er brotið
það var rotið,
glerþakið alsbert, illa hert
Við viljum ekki leika
eftir ykkar lúnu reglum og neglum
fyrir gluggana, þett´er búið spil
ekkert kynjabil,
runnið niður milli þils og veggjar
ég sprengdi upp, alla hæðina.

Fyrirtíðarspenna?
ég mun brenna
þetta kerfi til kaldra kola
hætt´að vola
allt er falt, fallvalt
ískalt, tussa.

Ég er tík
ég er drusla
þú getur ekki
tuskað mig til
ég er kona

Vanfær um að taka mark á
þvaðrinu í þér
þett‘er löngu orðið focking leim
hætt‘að reyna
að treina
dauðastríð

farðu heim.

Myndir: Eva Sigurðardóttir


#  #  #  #  #

Harpa Rún Kristjánsdóttir
@harparun90
1. mars 2019Gefin
gömlum manni
ekkert girndarráð
fyrir mig.
Seld
í afskekkta sveit
fjarri öllum mínum,
húsmóðir meðal ókunnugra.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Ofurseld
yfirráðum
hollra húsbænda
utan við garð og milli fjala.
Eða ambátt
fjölkunnug en fáum kunn
útlitið framandi
nafnið situr fast í málbeinum manna.
En í myrkri eru allir kettir gráir.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Frá upphafi
er ábyrgðin þín
því hvernig sem fer
situr þú uppi með syndina.
Nema þá aðeins
að ávöxturinn sé rifinn úr skauti þér
af guði eða mönnum
sárið er það sama.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Eigi leyna augu
ef ann kona
en lokuð augu
láta ekkert uppi.
Skipandi raddirnar
þegja
þegar til er ætlast
gegnbleyta sakleysið í skömm.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Gegnum árniðinn
greini ég gleymdar raddir
því steinarnir eru strengir
og vatnið er harpa minninganna.
Ég ber það í lófann og bergi á
og lofa að gleyma ykkur aldrei.

Sofið rótt, elsku systur,
í Drekkingarhyl.

Mynd: Pálmi Bjarnason og Sigrún Kristjánsdóttir


#  #  #

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir
@jonakristjana
28. febrúar 2019Það eru þrjúhundruð skref út í bakaríið
ég kaupi alltaf það sama
karamellusnúð og kókómjólk

lykt af hestaskít leggur yfir götuna
þegar ég beygi fyrir hornið
hellist myrkrið yfir

svartur bíll keyrir framhjá
með lík af skáldi
innanborðs


#  #  #  #

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir
@jonakristjana
27. febrúar 2019Á sunnudögum
sat hún við borðið
og leysti krossgátuna

Jafnvel þegar hún þekkti ekki lengur
börnin sín
sat hún með dagblað og penna
mátaði orð við auða reiti

Tveggja stafa orð
yfir guð
orð yfir sól
orð yfir ryk

Þegar hún dó
lá eftir óleyst gáta
sem enginn getur ráðið

Kunnum bara orðin
sem svífa þvers og kruss
fyrir utan gluggann

guð

sól

ryk

Mynd: Eva Sigurðardóttir

herbergið sem ég bý í er fjólublátt. lakið á tvíbreiðu rúminu er svart og birtan frá eina ljósinu í herberginu er eins og í mátunarklefa í Kringlunni.

Svefnsófinn er þakinn nærfötum því ég finn ekki pláss í fataskápnum – ég drattast til að brjóta þau saman og troða þeim inn um leið og ég er búin að ákveða að flytja þaðan í lok vikunnar.

Strákurinn sem leigir út herbergið og býr í íbúðinni heilsar mér, í þau fáu skipti sem ég sé hann,: „hiiiiiiii eeeeeeva“ og talar eins og það sé búið að stilla talið á helmingshraða.

Hann notar ekki eldhúsið nema til að geyma drasl, engin skápahurð er í lagi og hann á enga gaffla en tvær skeiðar.

Ég má nota eina stillingu á þvottavélinni og þarf að passa að snúa hurðarhúninum á herberginu mínu þegar ég opna og loka – „otherwise it breaks off and I just fixed it“.

Ég kann ekki að kveikja ljósið á ganginum, þar er alltaf dimmt og dregið fyrir alla glugga í stofunni. Þegar ég spyr hann hvernig ég kveiki svarar hann: „whyy do youuu neeeed liight?“

Síðustu daga hef ég verið í smá dvala. Lítið gert annað en að sofa, horfa á netflix og fresta því að byrja daglegt líf í nýju landi.

er myrkur smitandi?

__

Ég fer út og fæ mér kaffi

     þykist vinna.

Ég fer út og fer á klassíska píanó tónleika

     vissuði að píanó er piyano á tyrknesku.

Ég fer út og á Tom Odell tónleika með vinkonu minni,

     hún elskar Tom Odell.

Ég fer út og mæti í skólann en hann er varla byrjaður  

     eða ég misskil kerfið.

Ég fer út og fer að dansa með vinkonum mínum

     meiri metnaður – minna áfengi

Ég held að ég eigi að mæta kl 10 í skólann en er ekki viss

Ég mæti á slaginu (ok smá seint kl 10.25) en veit ekki hvort ég eigi að vera þar. Ég fæ mér kaffi í kaffiteríunni, klappa kisum og hlusta á listnema koma og fara.

Það eru nokkrar hænur á vappinu, ég horfi á fólk horfa á mig,

*ding* Ég þarf ekki að vera her í dag en fínt að ég mæti 10 á morgun og kynnist skólanum aðeins betur.

svo er það bjúrókrasíudeit.

Sól, umferð og bílflaut

fólk og fátækt

tyrkneski fáninn og strákur að pissa hinu megin við götuna

smáatriðin óumflýjanleg

gangstéttin hvorki gangstétt né gata

hálfur steypuveggur, tíu sprungur og klifurjurt meðfram plaströri.

konur með slæðu á höfðinu

ég með slæðu um hálsinn

tveir eldri menn við lítið hringborð á miðri götu.

menn – menn – menn – ein kona – menn – menn – tvær konur – menn – menn – menn

fjölskylda á götunni

gömul kona að selja blóm

ég heyri bílflaut á tíu sekúndna fresti og umferðin er hröð.

tyrkneski fáninn, rústir og litlir kofar.

þvottur hangir til þerris og þvottur verður að hurðum.

grindur fyrir gluggum og kisur að kúra

í gluggum, á rafmagnskössum, í blómabeðum.

glókollur í vafasömu hverfi – stysta leiðin á google maps

verkamenn reka upp stór augu

Fyrsta catcall dvalarinnar og rúnkhljóð í þokkabót – túlkið það eins og þið viljið

Er of ljóshærð, of hávaxin og of hvít.

Fólk ávarpar mig á ensku eða frönsku.

Ertu þýsk?

Ég get ekki fallið í fjöldann – orðið ósýnileg.

Er eitt af blikk skiltunum.

lýjandi. þreytandi. erfitt.

Ertu módel, þú ættir að vera módel, yrðir gott módel, vá – afhverju ertu ekki módel.

__

Í gær flutt ég í nýtt herbergi í nýrri íbúð.

Með meðleigjendum, ekki myrkraverum.

Ég læddist meðfram veggjum á leiðinni út úr gömlu íbúðinni eins og myrkrinu sæmir og stefni á að senda verðandi fyrrverandi meðleigjanda skilaboð í vikunni og láta hann vita að myrkrið sé hans.

Það er drykkjarhæft vatn í eldhúsinu. Rýmið ber ummerki þess að hér sé eldað og þrifið og í skápum og skúffum eru pottar, pönnur, hnífar OG gafflar.

Ég fann sojamjólk í búðinni sem ég set í hilluna mína í ísskápnum og ég elda mér kvöldmat (í fyrsta skiptið í Istanbúl)

Ferðataskan er hálftóm á gólfinu og rúmið nýumbúið, lakið er appelsínugult.

     Ég verð að kaupa mér plöntu. Og lak.

Birtan er, líkt og í fjólubláa herberginu, eins og í mátunarklefa,

     ég ætla að kaupa mér lampa.

Ég er hins vegar með stóran glugga og franskar svalir –

     hugsið ykkur, morgunkaffi og sól á svölunum. Í Istanbúl.

Ég horfi á sjálfa mig í speglinum og sé ljóshærða, hávaxna og bláeygða stelpu, með kvef og byrjandi augnsýkingu.

Í dag ætla ég að hætta að vera ljóshærða, hávaxna og bláeygða stelpan sem nennir ekki athyglinni og verða í staðin ljóshærða, hávaxna og bláeygða stelpan sem er drull.

Þangað til næst.

Ég kynntist sjálfri mér á vindsæng,
veltandi um Miðjarðarhafið.
Tárin runnu niður vangana.
Vínið sagði til sín og opnaði hjartað,
opnaði sálina
sem geislaði mót sólinni.
Hæ hér er ég.
Gaman að kynnast þér.
Passaðu vel upp á mig.
Ég er til fyrir mig.
Ég þarf að passa upp á mig.
Ég er ég.

Ég: Hæ, mig langar að kynna þig fyrir manneskju.
Eg: Ok.
Ég: Hún er stundum svolítið brothætt.
Eg: Ok.
Ég: Þú þarft að hugsa vel um hana. Gefa henni góðan mat og passa að henni líði vel.
Eg: Ok.
Ég: Hún á það til að hugsa illa um sig, gráta að minnsta tilefni og hún heldur að allt sé ömurlegt. Það gerist svona sirka einu sinni í mánuði.
Eg: Og hvað á ég að gera þá?
Ég: Þá áttu að vera henni innan handar. Henni finnst gott að fá súkkulaði og knús. Passaðu að það sé nóg af því til staðar.
Eg: Ok, og hvað fleira?
Ég: Hana langar að rækta listrænu hliðina í sér. Passaðu að hún sinni því inn á milli.
Eg: Ég skal passa það. Hver er svo þessi manneskja?
Ég: Það ert þú sjálf!
Eg: Ha? Nei ég hef það fínt.
Ég: Þú heldur það kannski en þú þarft að passa upp á þig sjálfa jafn vel og þú passar upp alla í kringum þig.
Eg: Ó, er það?
Ég: Já, þú þarft fyrst að setja á þig súrefnisgrímuna áður en þú setur hana á aðra.
Eg: Ha?
Ég: Svona eins og í flugvélum. Fyrst að passa upp á þig áður en þú ferð að hugsa um aðra.
Eg: Já, ok ég skil.
Ég: Og ætlaru að passa upp á þetta?
Eg: Já eins og ég get. Ég ætla að gera mitt besta!

Ég er lent.
Ég man ekki eftir því að hafa tekið ákvörðun um að koma hingað. Er bara allt í einu mætt og veit ekki alveg við hverju ég á að búast – nema því að ég þurfi að fara varlega, passa mig á öllu og öllum, undirbúa mig fyrir áreitið og sjokkið og vara mig á ágengum karlmönnunum.

— — —

Ég þykist reykja tvær sígarettur fyrir utan flugvöllinn og fylgist með fólki. Fólki að reykja, fólki að flýta sér, fólki með fjölskyldur og fólki á bílum.
Leigubílstjórar kalla og bjóða mér far. Ég neita og þarf smá rými til að hugsa, er það taxi eða metro.

Ég sest inn í leigubíl með batteríslausan síma og enga inneign. Ég sýni bílstjóranum heimilisfangið sem ég blessunarlega mundi eftir að skrifa niður í skissubókina mína. Hann brosir og spyr hvort ég hafi heimsótt Istanbúl áður og hvaðan ég sé. Hann kannast ekki við Ísland – glottir þegar ég segi að þar búi einungis um 300 þúsund manns.

Mér er óglatt eftir flugið, sígarettureykinn og af smá stressi. Ég reyni að hlaða símann með lélega hleðslutækinu mínu.

Bílstjórinn gefur mér brjóstsykur með kanillbragði og spjallar á bjagaðri ensku. Mér verður skyndilega mjög bumbult og ég finn ólguna í maganum – Ég fæ æluna upp í munn en kann ekki við að ýta í hann og biðja hann um að stoppa í allri umferðinni.

Ég kyngi ælunni, kúgast tvisvar í viðbót en eftir að hafa kyngt þrisvar róast maginn. Ég vona að bílstjórinn hafi ekki tekið eftir þessu, meðvirka ég vil ekki vera með vesen.

Hún stendur fyrir utan og talar við bílstjórann. Ég borga honum og veit ekki alveg hvernig mér á að líða.
Hún ber töskuna mína alla leið upp á þriðju hæð og þverneitar að leyfa mér að halda á henni sjálf.

Þær eru þrjár, brosmildar og gestrisnar. Ég hef aldrei hitt þær áður en þær bjóða mér inn á fína heimilið sitt – dekra mig í köku. (takk Úlfur fyrir að plögga þessu)

Vinkona mín, yfirmaður hennar og tveir synir í hádegismat. Við tölum um víkinga, fótboltamenn og eldfjöll. Sigþórsson er víst ömurlegur því hann kom til Tyrklands, fékk fullt af pening en spilaði ekkert. Svikari – þeirra orð, ekki mín.

Ég hlusta á þau tala á tyrknesku.
Hún pantar – þeir borga.

Ég sit á arkitektúrstofu í Istanbúl og drekk tyrkneskt kaffi og smakka turkish delight. My heart will go on með Celine Dion er í gangi. Yfirmaður vinkonu minnar segir henni að sýna mér bækur á skrifstofunni um myndlist því ég er listakona. Ég vel mér bók um Degas og skoða myndirnar – textinn á tyrknesku.

Ég vafra um – ég týnist. Ég drekk kaffi og eyði 12 þúsund króna símainneign á innan við hálftíma.

Ég fer á klúbb með stelpunum. Við erum mættar um tíu, með þeim fyrstu. Tveir bjórar og hip hop. Það sem stóð upp úr var lélegur plötusnúður og ég (bókstaflega).

Morgunverðarhlaðborð. Rölt í björtu.
Vinukonurnar hissa á því hvað ég tek fáar myndir. Er ekki þessi týpíski túristi – svo íslenskt að finnast það asnalegt.

Matur. matur. matur.
Hey körfuboltakona, þú færð afslátt
Matur. matur. matur.

Heitt vín og strákamál. Áttu kærasta?
Giftingaraldur og barneignir.

— — —

Ný íbúð – nýtt heimili – nýr skóli

Ég ákveð að rölta í skólann fyrsta daginn minn, það er sól. 40 mínútur segir google maps. Það sem ekki stóð var að gangan var öll upp í mót.

Mæti sveitt á fund með yfirmanni deildarinnar og hún er sein.

Hún talar og talar. Ég hlusta og hlusta.
Ég mun velja kúrsa út frá þeim kennurum sem tala ensku, þvert á deildir.

Það kemur í ljós að ég er eini erasmus nemandinn í þessari byggingu – veit ekki hvort mér finnist það gott eða slæmt, líklegast bæði.

Ég þarf að fara á skrifstofuna að redda nemakorti svo ég komist inn í gegnum security í skólanum vandræðalaust og hún ákveður að skutla mér – var örugglega í sjokki yfir því að ég hafi gengið í skólann en ekki tekið strætó.

Ég mæti á skrifstofuna og það fyrsta sem ég heyri: „I’ve seen you before, I know your face“. Ætli ljósa hárið mitt standi ekki smá út, sem og bláu augun, gegnsæ húðin og jú bara flest í mínu fari.

Spjalla við hann og þarf að mæta aftur seinna að klára alls konar til að fá kortið. Ég er svo léleg í svona praktísku bjúrókrasíudóti. Hlýtur að reddast (hehe).

Ég fer og hitti vinkonur mínar og þær sýna mér skólann sinn sem er í evrópska hluta borgarinnar. Önnur þeirra röltir svo með mér og sýnir mér nokkra af túristastöðum borgarinnar.

— — —

Fyrstu dagarnir hafa verið yfirþyrmandi og yndislegir. Það er svo ótrúlega margt að sjá og ég sé ekki fram á geta gert nema lítinn hluta af því sem mig langar á næstu mánuðum.

Það er allt morandi í fallegum byggingum, köttum, fólki, kaffihúsum og góðum mat.

Það fólk sem ég hef átt í samskiptum við eru öll af vilja gerð að aðstoða mig svo mér líði sem best. Ég hef lítið orðið vör við allar hætturnar sem eiga að vera á hverju götuhorni í borginni. Ég held að þessar áhyggjur séu stórlega ýktar og óþarfi.

Auðvitað þarf ég að passa mig, ég er kona, en þarf ég þess ekki alls staðar?

Ég mæli með Istanbúl og ég hlakka til að eyða næstu mánuðum hér – þið eruð öll velkomin í heimsókn!


#  #  #  #  #  #  #

-
10. febrúar 2019Það flæðir,
því mér blæðir blóði, peningum og tilfinningaflóði.

Það flæðir blóði, því ég er kona.
Ég er svona kona.
Ég er svona kona sem vælir þegar það flæðir.

Ég leitaði mér hjálpar og fékk ráð;
„Þeigiðu og láttu ekki eins og þú sért svona hrjáð!“
„Tyggðu verkjatöflur og áfram gakk“
Takk… takk..

Vissulega þakklát fyrir verkjatöflurnar,
Gæti ekki gengið, setið eða kúkað án þeirra.
En er virkilega ekki til betri lausn? Hvernig munu aukaverkanirnar hafa áhrif á mig seinna?

Hugsa stundum „hvað ef?“
„Hvað ef karlar færu á túr?“
Væri hlustað á þeirra þref?
Eða væri það afgreitt sem kerlingarstef?
Eða væri lausnin fundin?

Væru þeir með auka frídag?
Væri fólk almennt tillitssamara?
Og myndu túrvörur kosta pening?
Og myndu konur neita að sofa hjá þeim?

Farartæki, híbýli og verksmiðja.
Magnað einstakt eintak.
Hví hef ég eytt svona miklum tíma í að hata líkama minn.
Kvenlíkaminn skapar líf.
Af hverju ræktar samfélagið okkar hatur á líkama okkar.
Rakaðu af þér hárin, sýndu bara smá af brjóstunum þínum en ekki voga þér að sýna geirvörturnar, við viljum sjá móta fyrir þeim en ekki sjá þær, hvað þá með barni á.
Líkaminn minn er minn, ég fékk hann við fæðingu, sé um að rækta hann því enginn finnur fyrir vanrækslu hans nema ég.
Mig langar að elska líkama minn.
Ég er með sköp og ég get skapað.
Ég er skaparinn.

Greta Thunberg.

Ég er alltaf að tönnlast á þessu nafni þessa dagana, því ég vil að sem flestir viti hver hún er. Hvað hún stendur fyrir.

Greta Thunberg er 16 ára gömul, sænsk, og hefur haft meiri áhrif á loftslagsumræðuna síðastliðið ár en flestir sérfræðingar samanlagt. Ég dýrka þessa stelpu. Hún stendur frammi fyrir alþjóðasamfélaginu og spyr fyrir hönd framtíðarkynslóða af hverju í andskotanum við séum ekki að gera meira. Af hverju við séum ekki að gera neitt til að koma í veg fyrir loftslagsvána þegar við höfum haft allar upplýsingar um vandann í fleiri áratugi.

Greta Thunberg.

Hún hætti að mæta í skólann því hún sá ekki tilganginn. Af hverju að mennta sig og gera framtíðaráform þegar framtíðin er öll að fara til fjandans? Þess í stað hefur hún staðið fyrir utan sænska alþingið og krafið stjórnmálamenn svara. Hún hefur komið fram á loftslagsþingi sameinuðu þjóðanna og skammað ráðamenn. Spurt af hverju í andskotanum þeir séu ekki að gera meira. Var ég búin að nefna að hún er nýorðin 16 ára gömul? Það er þessi kraftur, þessi óbeislaða heift í garð aðgerðarleysis sem ég vildi að við gætum öll tekið okkur til fyrirmyndar. Það er nákvæmlega þetta sem mig langar að gera þegar ég finn loftslagskvíðann skríða meðfram hryggjarsúlunni og hríslast svo niður í tær eins og óþægilegur kuldahrollur sem ég get ekki hrist af mér sama hvað ég reyni.

En af hverju hika ég alltaf? Af hverju hristi ég alltaf af mér ónotin í stað þess að láta virkilega heyra í mér?

Ég veit það ekki. En meðan ég þegi og japla á loftslagskvíðanum með óbragð í munninum þá fagna ég tilveru Gretu Thunberg og leyfi mér að enda þetta þvaður á tilvitnun í hana sem kristallar þennan vanda okkar ágætlega. Góða helgi.

„Adults keep saying: “We owe it to the young people to give them hope.” But I don’t want your hope. I don’t want you to be hopeful. I want you to panic. I want you to feel the fear I feel every day. And then I want you to act.
I want you to act as you would in a crisis. I want you to act as if our house is on fire. Because it is.“

Mynd: Fabrice Coffrini fyrir AFP


#  #  #  #  #

Lára Sigurðardóttir
22. janúar 2019Hún vaknar en fer aftur að sofa. Hún vaknar aftur, eins og eftir að hafa sofið að eilífu. Henni finnst eins og að augun séu bólgin og það sjái hana enginn. Það fyrsta sem hún gerir er að hugsa og fara yfir alla draumana, suma stutta – aðra langa. Oftast skilur hún ekkert í þessu öllu en þeir fylgja henni restina af deginum.

Hún kveikir alltaf á útvarpinu frammi í eldhúsi áður en hún fer í sturtu þó svo hún heyri ekkert í því á baðherberginu. Hún fer í sturtu, vatnið er lengi að hitna og þrátt fyrir allt finnst henni orðið þægilegt að fá hálf volgt vatnið yfir sig. Í þetta skiptið syngur hún ekki í sturtunni og á meðan að hún þurrkar sér með handklæðinu hugsar hún einmitt um það, að hún hafi ekki verið að raula eitthvað lag í sturtunni.

Hún sýður egg, hitar vatn í hraðsuðukatli fyrir kaffið í pressukönnunni, sker nokkur jarðaber í bita og setur þau út á grautinn, ristar eina rúgbrauðssneið í ristavélinni, setur einn þriðja af agúrku á diskinn.

Hún svarar skilaboðum, skrifar innkaupalista, hringir í manninn sinn og segir honum að hún elski hann. Á meðan á öllu þessu stendur drekkur hún kaffið og borðar.

Hún hreyfir sig hljóðlega, eins og að hún vilji ekki vekja aðra. Það er samt enginn annar í íbúðinni.

Hún fer á klósettið og sér að það kemur enn smá blóð í nærbuxurnar, hún er greinilega ennþá á einhverskonar blæðingum. Hún skiptir um nærbuxur og fer reyndar líka í nýjar buxur þó svo að það hafi ekki komið blóð í gegn.

Hún fylgist með tímanum, hún vill ekki koma of seint.

Draumarnir verða skírari núna.

Henni langar eiginlega ekki út og hún var að vonast til þess að það væri aftur mikil rigning og grátt og dimmt svo að hún gæti falið sig í regnjakkanum.

Sólin skín.  

Hún labbar alla leiðina og finnst eins og að allir séu að horfa á hana eða taki eftir henni. Hún er vön þessu ástandi, það er eins og að hún sé með heyrnatappa og undir vatni í baðkari því hún finnur ekki fyrir umheiminum.

En þar er hún nú samt.

Sonur hennar er glaður að sjá hana þó svo að hann sýni það ekki neitt sérstaklega afgerandi.

Hann er tengingin hennar við umheiminn.

Stundum finnst henni hann vera byrði. En akkúrat núna brosir hún bara. Hún tók eftir því að hann gat auðveldlega labbað yfir þröskuldinn án þess að halda við dyrastafinn. Eftir smá puð sest hann loksins í kerruna og þau fara í átt að búðinni.

Hún man utan að fyrstu vöruna sem að hún hafði skrifað á innkaupalistann. Eftir að hafa tekið hana og bætt við tveimur vörum í körfuna sem að hún veit að voru ekki á listanum tekur hún innkaupalistann úr töskunni. Þau klára listann og fara í átt að kassanum. Sonur hennar situr enn í kerrunni og hún dregur litlu innkaupakörfuna á eftir þeim. Í röðinni á kassann er önnur móðir með tvo syni og þeir eru þreyttir og vilja dót og nammi og rífast og slást. Mamma þeirra er ennþá þreyttari. Hún hugsar þá hversu mikið meira vakandi hún er. Hún pakkar vörunum í pokann og setur neðst í kerruna. Svo  labbar hún út, það er erfitt að keyra kerruna sem er orðin töluvert þyngri af vörum og vera með einn fullan innkaupapoka í hendinni.

Sonur hennar byrjar að gráta í lyftunni á leiðinni upp í íbúðina. Hún tekur hann úr kerrunni og setur í staðinn innkaupapokann í sætið. Hún labbar með son sinn í fanginu og stýrir kerrunni með einni hendi allan ganginn og inn í íbúðina.

Hann hættir að gráta og þau fá sér ber og horfa á teiknimynd.

Hún hugsar að það sem að þau voru búin að ákveða að elda um kvöldið er það sem hana langar minnst til þess að borða. Hún nær í tölvuna og skoðar sushistaði, hvar sé best að panta og fá sent heim. Hún velur stað og velur matseðil með 30 stykkjum, plús edamame baunum. Hún pantar ekki oft mat og finnst eins og að hún þurfi að biðja um leyfi frá einhverjum. Hún hringir í manninn sinn og segir honum frá áformum sínum varðandi kvöldmatinn, honum líst vel á þetta. Maðurinn sem kemur með sushiið finnur ekki íbúðina, enda þarf að opna auka hurð við enda gangsins til að komast að henni og hún skilur hann vel. Sonur hennar fær skyr, brauð og gúrku stangir sem að hann dýfir í sojasósu. Maðurinn hennar kemur heim og bæði hún og sonur þeirra verða glöð yfir því að sjá hann.

Þau þurfa bæði á honum að halda.

Þegar að þau eru búin að borða vill hún hringja í mömmu sína. Enginn nennir að ganga frá eftir matinn. Hún saknar mömmu sinnar en nýtur þess að vera langt í burtu frá henni.

Maðurinn hennar svæfir soninn í svefnherberginu, hún gerir ekkert á meðan. Þau horfa saman á sjónvarpið, það er uppáhalds þátturinn hennar. Maðurinn hennar sofnar yfir sjónvarpinu. Sonur hennar grætur og hún fer inn og huggar hann. Gefur honum vatnssopa og faðmlag og situr í smá stund í stólnum við hliðina á rúminu svo að hann viti að hún sé nálægt honum. Svo fer hún út úr herberginu, maðurinn hennar er vaknaður og gengur frá í eldhúsinu og hún minnir hann á að allt plastið frá sushibökkunum sé endurvinnanlegt. Og þau hlæja að því að hún skipti sér alltaf pínu að því sem hann gerir.

Hún horfir á fólk dansa í byggingunni sem er á móti, hún segir manninum sínum hvað henni finnist skemmtilegt að horfa á aðra dansa. Honum finnst það líka skemmtilegt og þau brosa saman.  

Hún segir við manninn sinn að hún vilji fara upp í rúm að lesa. Hún segir samt líka að hún komi fram seinna að bursta tennur.

Henni finnst notalegt að vera bara ein í rúminu og helst sofna áður en maðurinn hennar kemur í rúmið. Rumska svo við það þegar að hann kemur í rúmið og kyssa hann og segja góða nótt.

Þegar að hún les ein í svefnherberginu heyrir hún líka í syninum anda, hann sefur í rúminu sínu sem er í sama herbergi, svo hún er í rauninni ekki ein.

En næstum því.

Hún fer aldrei fram að bursta tennur heldur vaknaði bara þegar að maðurinn hennar kom inn í herbergið og slökkti á lampanum hennar og kyssti hana góða nótt.


#  #  #  #  #

Lára Sigurðardóttir
21. janúar 2019Ég þarf að vera ein

Skola mig

Heyra ekki í neinum sem þekkir mig

Ímynda mér að ég sé einhver önnur

Ímynda mér hver ég er

Fara að kjarnanum og grafa allt upp

vera sátt

Hér er ég

Bullandi leyndarmál


#  #  #  #  #

Hólmfríður María Bjarnardóttir
21. janúar 2019Ég fer í hlaupaskóm á djammið í staðinn fyrir að fara í fínum skóm

Því þetta er bara svona

Ég skil glasið mitt aldrei eftir gæslulaust

Því þetta er bara svona

Ég þori ekki að vera í flegnum fötum og dæmi aðra ómeðvitað fyrir það

Því þetta er bara svona

Ég forðast að tjá mig of mikið

Því þetta er bara svona

Ég forðast að taka pláss

Því þetta er bara svona

Ég get ekki gert neitt rétt

Því þetta er bara svona

Ég get ekki alltaf tekið slaginn

Því þetta er bara svona

Og það er orðið frekar þreytt


#  #  #  #

Lára Sigurðardóttir
20. janúar 2019Ég missti ekki vitið

Ég lærði eitthvað

Leysti einhverja gátu

Ég veit ekki hver spurningin var

Ég brýt þessa minningu fallega saman

hún fer í silkipappír

Ég legg hana varlega í skúffuna með hinum tveimur

Ég loka, geng burt frá kommóðunni

sný mér við og sendi minningunum fingrakoss.

~~Varúð, pistlahöfundur var á túr við þessi skrif~~

Kæru klúbbfélagar, lífeðlisfræðingar og aðrir landsmenn

Ok. Ég held að við séum flest meðvituð um hvað blæðingar eru; að fara á túr, fá Rósu frænku í heimsókn, þessi tími mánaðarins, djöfullinn, andskotinn, „Ææ, ég er ekki ólétt“ eða „Fjúkk, ég er ekki ólétt“ og þar fram eftir götunum.

Jú, flestir sem eru með leg og á ákveðnu aldursbili fara mánaðarlega á blæðingar  þ.e. án inngrips í formi getnaðarvarna (yfirleitt hormónagetnaðarvarna með tilheyrandi aukaverkunum – stafurinn, pillan, hringurinn, lykkjan o.s.frv…)  Ég velti fyrir mér hvers vegna til eru einungis getnaðarvarnir, sem í flestum tilvikum eru framleiddar fyrir fólk með leg, með algengum aukaverkunum. Let’s face it, pillan er engin hollusta né aðrar hormónagetnaðarvarnir en samt þurfum við sem erum með leg að nota þessar varnir til þess að koma í veg fyrir óvelkominn getnað ― því flest viljum við stunda kynlíf en fæst búa til börn í öll þau skipti.

Hversu ótrúlega pirrandi að þér blæði reglulega svo ég tali nú ekki um helvítis túrverkina, andlegu sveiflurnar, sykurþörfina og vesenið í kringum það að koma í veg fyrir að það blæði í gegnum fötin þín og út um allar trissur. Það er t.d. mjög erfitt að þrífa blóð úr hvítu sófaáklæði. Svo væri líka frekar leiðinlegt að labba um með sístækkandi brúnrauðan blett í klofinu í hvert skipti sem man fer á túr.  Fyrsta skiptið sem ég fór á blæðingar, þá 13 ára, var tveimur mínútum áður en ég mætti í píanótíma. Aulinn ég þorði ekki að segja neitt við kennarann og kvaldist þessar 45 mínútur sem ég sat fyrir framan flygilinn á stól með ljósu áklæði, biðjandi til einhvers æðra að láta ekki blæða í gegn, mjög traumatizingVert er að minnast á það að píanóstóllinn slapp! Hringdi svo í hjúkrunarfræðinginn hana móður mína og hún sótti mig. Þessu var reddað og ég var mætt á réttum tíma í stærðfræðitíma, þar sem ég fékk hamingjuóskir með að vera komin í „klúbbinn“ frá tveimur vinkonum þegar ég hvíslaði þessu leyndarmáli að þeim. Að fara á túr var rosa tabú ― ég þorði varla að tala um túr þegar ég var unglingur (samt meira en flestar vinkonur mínar) og ég er nú ekkert sérstaklega gömul, en það hefur þó (vonandi) breyst síðan þá. Ég óska þess að unglingsstúlkur geti sagt sundkennaranum sínum að þær séu á túr, og treysti sér ekki að taka þátt, án þess að fara í kleinu.

Það er bölvað bras að fara á túr og mjög hamlandi ― ég fæ t.d. STURLAÐA túrverki og það virkar ekki fyrir mig að taka þessi hefðbundnu verkjalyf, íbúfen og/eða paratabs. Ég hef ælt úr verkjum, liðið út af vegna verkja og fengið það sterk verkjalyf að ég get ekki farið ein á klósettið (já getiði plís vorkennt mér) ― hversu hentugt að eiga foreldra sem báðir eru menntaðir hjúkrunarfræðingar? Gátu séð fagmannlega um sína á meðan ég þurfti að vera heima og gat ekki farið í skóla/vinnu/út úr húsi í fimm daga, mánaðarlega, vegna verkja.

Ég velti fyrir mér hvers vegna við erum ekki komin lengra varðandi rannsóknir og ráð gegn túrverkjum og blæðingum yfir höfuð. Endómetríósa er t.d. sjúkdómur sem fáir vita af og enn eru meira að segja til  læknar sem þekkja sjúkdóminn varla. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ósanngjarnt og ef þetta væri vandamál sem karlar hefðu þurft að takast á við í gegnum tíðina, þá þori ég að veðja að við værum komin lengra í rannsóknum á „þessum málum“ og þetta væri ekkert vandamál.

Svo er það samstilling blæðinga. Þegar tveir eða fleiri einstaklingar með leg búa saman, eiga þeir til að samstilla tíðahringinn og fara á túr á sama tíma (!!!). Við mamma vorum t.d. samstilltar þegar ég bjó hjá foreldrum mínum og einnig hef ég yfirleitt stillt mig inn á tíðahring leg-meðleigjenda minna eða þær inn á minn tíðahring. Mér finnst þetta svo sjúklega áhugavert og enginn veit nákvæmlega hvers vegna og hvernig þetta gerist. Það eru til einhverjar kenningar um þetta ― las einhvern tímann að samstillingin væri tengd ferómónum (lyktarhormónum) og með því að finna lykt frá öðrum leg-einstaklingum breyttist hormónaflæðið í líkamanum og þ.a.l. tíðahringurinn. Ætli leg-einstaklingum sé t.d. skipt í ALPHA-leg og BETA-leg? Hver okkar, af mér og meðleigjendum mínum, ætli stjórni tíðahringnum og hver okkar aðlagaði sig að hinum? Mér finnst þetta mjög forvitnilegt en ég er því miður hvorki líffræðingur, læknir né vísindakona og biðla því til þeirra sem vinna innan lífeðlisfræðigeirans að auka femíníska hugsun og rannsaka til jafns einstaklinga með og án legs  og komast til botns í þessu máli.

Og fyrst ég er nú að þessu ― getum við lækkað verð á túrvörum? T.d. dömubindum og túrtöppum? Svo mæli ég líka með því að nota túrnærbuxur og álfabikarinn, snilld sem ætti að gefa öllum ungum leg-einstaklingum í grunnskólum landsins ― mun umhverfisvænna, ódýrara og þægilegra (að mínu mati).

Hvet ykkur allavegana til að prófa, kæru klúbbfélagar.

Myndir: Eva Sigurðardóttir


#

Ritstjórn Flóru
20. janúar 2019