til baka

#  #


30. nóvember 2018Það eiga sér stað mistök á öllum vinnustöðum. Einhver gleymir að senda mikilvæga skýrslu, slökkva ljósin, loka glugga eða setja uppþvottavélina í gang. Það getur komið upp misskilningur um allskonar hluti, s.s. fundartíma, verkaskiptingu eða ákvarðanir. Mistök geta vissulega verið afdrifarík og misskilningur getur valdið leiðindum, en í langflestum tilfellum er tekið á svona málum á fumlausan og vandræðalítinn hátt. Það er ekkert vandræðalegt við að minna fólk á að loka gluggum og það er allt í lagi að ræða verkaskiptingu ef fólk heldur að um misskilning hafi verið að ræða. 

Kynbundið misrétti á sér líka stað á öllum vinnustöðum. Það birtist með ólíkum hætti, t.d. með óviðeigandi talsmáta, niðurlægjandi bröndurum eða jafnvel líkamlegri áreitni og ofbeldi. Sumstaðar endurspeglar verkaskiptingin staðalmyndir kynjanna frekar en færni hlutaðeigandi einstaklinga, og ómeðvituð en lærð kynhlutverk geta haft umtalsverð áhrif á samskiptamynstur og samvinnu. Af einhverjum ástæðum eru viðbrögð við slíku ekki jafnfumlaus og þegar annars konar mistök eiga sér stað. 

Hvað veldur? Hvers vegna get ég umhugsunarlaust minnt samstarfsmann minn á eitthvað sem hann gleymdi en ekki brugðist við kynferðislegri áreitni af hans hálfu? Hvers vegna getur yfirmanneskja auðveldlega sent út fjöldapóst til að minna á að slökkva ljósin en á erfitt með það sama vegna tvíræðra brandara, jafnvel þótt ítrekaðar kvartanir hafi borist um slíkt? 

Hvar liggja mörkin milli þess sem má gagnrýna og þess sem ekki má gagnrýna?

Við þessu er svo sem ekki til neitt einfalt svar, en viðteknar venjur og norm eru án efa stór hluti skýringarinnar. Það er sjálfsagt og eðlilegt að slökkva ljósin að vinnudegi loknum. Við erum öll sammála um það og ætlum fólki ekki neitt illt þótt eitthvað gleymist. Þrátt fyrir vitundarvakningu undanfarinna ára erum við ekki komin jafnlangt þegar kemur að jafnréttismálum. Því miður er ekki hægt að segja að við séum öll sammála um að niðurlægjandi brandarar eða athugasemdir séu óviðeigandi, né heldur að við séum sammála um orsakir og afleiðingar þeirra. Þess vegna er svo óskaplega erfitt að bregðast við. 

Ég þarf að vera fjandi kjörkuð til að bregðast við kynferðislegri áreitni. Það er næstum ómögulegt að segja viðkomandi að gera svo vel að hætta. 

Gerandinn myndi ólíklega viðurkenna óviðeigandi hegðun, biðjast afsökunar og bæta sig eins og hann myndi gera ef hann hefði gleymt að loka glugga. Þess í stað myndi hann líklega saka mig um ofurviðkvæmni, húmorsleysi eða illgirni í hans garð og fókusinn myndi mjög fljótlega færast frá hans gjörðum yfir á mína upplifun. Ég þyrfti að útskýra af hverju mér þætti hans framkoma óviðeigandi. Ákveði ég að bregðast við, þarf ég því að vera blíð og róleg og tilbúin til að rökræða athugasemd mína. Enda hefur reynslan kennt mér og öðrum konum að fátt þykir verra en hömlulausar konur sem ærast yfir smáatriðum. 

Ákvörðun um viðbrögð snýst ekki bara um mig og gerandann. Ef ég bregst við er ég nefnilega að sækja í átök og eyðileggja annars góða stemningu. Viðbrögðin geta sett pressu á annað samstarfsfólk að taka afstöðu með eða á móti, afstöðu sem flestu fólki þykir erfitt að taka og hefur lítinn áhuga á að flækjast inn í. Jafnvel þótt fólki misbjóði hegðun gerandans nennir það almennt ekki þeim átökum sem fylgja í kjölfarið; rökræðunum um réttmæti athæfisins og viðbragðanna. Með því að bregðast við get ég því skapað mér óvinsældir á vinnustaðnum, ekki aðeins hjá gerandanum, heldur einnig öðru samstarfsfólki. 

Í stað þess að bregðast sjálf við gæti ég leitað til yfirmanneskju minnar. Það er ekki heldur vandræðalaust, því þar með er ég að afhjúpa eigin veikleika og velta vandanum yfir á hana í stað þess að taka sjálf á málum. Hennar staða er auk þess ekkert betri en mín, hún myndi þurfa að taka sömu rökræður og ég um viðkvæmni, húmorsleysi og illgirni og þess utan að réttlæta af hverju hún taki mark á mínum orðum en ekki hans. 

Aftur verður að teljast afar ólíklegt að gerandinn viðurkenni óviðeigandi hegðan, biðjist afsökunar og leggi sig fram um að bæta sig, eins og hann myndi gera ef hann hefði gleymt að loka glugga. 

Auðvitað ætti þetta ekki að vera svona. Þótt kvenfyrirlitning eigi sér ótal birtingarmyndir eru atvikin sjaldnast byggð á meðvituðum ákvörðunum eða illvilja. Þær eru félagsleg afurð samfélags þar sem karlar og konur standa ekki jafnfætis, þar sem við göngumst upp í hlutverkum sem hæfa staðalmyndum okkar félagslega úthlutaða kyns, þar sem hið karllæga er metið ofar hinu kvenlæga. Þessar birtingarmyndir eru afurð samfélags þar sem fólk af öllum kynjum tekur ómeðvitað frekar undir með körlum, þar sem nöfn kvenna eru síður lögð á minnið, þar sem karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta stjórnunarstaða og konur sjá um þrif, þjónustu og umönnun. Við ættum að sjálfsögðu að geta bent á það sem miður fer í fullri vinsemd og ábendingum sem varða kynjajafnrétti ætti að vera tekið jafnalvarlega og öðrum athugasemdum. 

Núverandi ástand og þær hömlur sem koma í veg fyrir að við ræðum óviðeigandi framkomu gegna mikilvægu varnarhlutverki fyrir samfélag misréttis. Það er nefnilega ómögulegt að breyta því sem ekki má ræða. 

Við lokum ekki glugga nema við vitum að hann sé opinn og við tökum ekki á misrétti sem við vitum ekki af.

Það er hægt að uppræta kynbundið misrétti á vinnustöðum. Fyrsta skrefið er að taka mark á athugasemdum sem berast og fagna þannig gagnrýninni hugsun starfsfólks sem leyfir okkur í sameiningu að efast um gildandi kynhlutverk. Stjórnendur þurfa að vera tilbúnir að endurskoða verðmætamat, kynjaða verkaskiptingu og þau tækifæri sem veitt eru á vinnustaðnum. Gerendur kynferðislegrar áreitni verða að taka ábendingum um slíkt af alvöru. Á góðum vinnustað er fólk metið að verðleikum, það kemur vel fram hvert við annað og það passar í sameiningu upp á þessi gildi, rétt eins og að slökkva ljós og loka gluggum. 


#  #


29. nóvember 2018Ég mjakast áfram í miðri mannþvögu í átt að lestinni. Götusalar arka hjá og þylja upp vöruframboð sitt eins og óperusöngvarar. Blaðasölumenn halda dagblaðinu á lofti og flytja morgunfréttirnar fyrir gesti og gangandi. Í kringum mig er líklega fleira fólk en íbúar Reykjavíkur til samans, enda eru rúmlega fjórar milljónir manna sem nota neðanjarðarlestina á degi hverjum.

Þegar mannþvagan hefur leitt mig að brautarpallinum staðnæmist ég í langri biðröð og virði fyrir mér samferðafólk mitt þennan morguninn.

Í kringum mig eru konur, einungis, af öllum stærðum og gerðum. Sumar eru klæddar í dragt, aðrar í skólabúning, enn aðrar eru í hversdagsklæðum, konur með börn, konur að lesa bækur, konur að mála sig og konur að flýta sér.

Hvergi er karlmann að sjá. Umferðarlögreglan sér til þess, þar sem hún stendur við appelsínugult hlið með áletruninni „Solo para mujeres y menores de 12 años,” „aðeins fyrir konur og börn yngri en 12 ára,” „aðgangur bannaður fyrir karlmenn og drengi 12 ára og eldri.“

Biðröðin við brautarpallinn mjakast hægt og rólega áfram og þegar lestin loksins kemur taka samferðakonur mínar sér stöðu og spyrna sér svo inn í lestarvagninn af öllum krafti líkt og langhlauparar á Ólympíuleikum. Líkami minn sogast inn í lestina og ég dreg inn andann þar sem ég stend þéttar upp við kynsystur mínar en þægilegt þykir.

Þegar ég kemst á áfangastað liggur leið mín aftur upp á yfirborðið, í sameiginlegt samfélag karla og kvenna í Mexíkóborg.

AÐSKILNAÐUR LAUSN VIÐ OFBELDI

Ofbeldi og áreitni gagnvart konum í almenningssamgöngum er algengt vandamál víða um heim. 

Samkvæmt rannsókn sem gerð var af Alheimsbankanum fyrir um ári síðan á áreitni gagnvart konum í almenningssamgöngum er ástandið einna verst í Mexíkóborg, þar sem 64 prósent kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu kynferðislegu ofbeldi í almenningssamgöngum.

Vandamálið er jafnframt alvarlegt á Vesturlöndum þar sem rúmlega helmingur kvenna finna fyrir óöryggi eða ótta í almenningssamgöngum.

Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að bregðast við vandamálinu, líkt og í Mexíkó þar sem sérstakir vagnar eru fyrir konur, en kynin eru einnig aðskilin í almenningssamgöngum í Brasilíu, Egyptalandi, Indónesíu, Íran og Japan. Auk þess var lagt til að slíkt kerfi yrði tekið upp í Bretlandi fyrir rúmu ári síðan en tillagan hlaut gríðarlega gagnrýni þar sem gagnrýnisraddir bentu á að slíkar ráðstafanir ráðist ekki á rót vandans og fríi ofbeldismenn allri ábyrgð.

„EKKI TAKA FLEIRI KONUR”

Raunveruleikinn í Mexíkóborg er súrrealískur. Dagarnir óútreiknanlegir. Ég hef búið í um tvö ár í Mexíkóborg og eitt sinn þegar ég var á rölti á Reforma, einni fjölförnustu götu borgarinnar, mætti ég til dæmis gæludýrinu Anastasíu, grísnum, sem var að leika sér við lemúrinn Símon frá Madagaskar.

Í Mexíkóborg getur maður verið hvaða týpa sem er, pönkari, gothari eða jafnvel skandinavískur hipster og fundið sína senu í borginni. Það getur verið æðislegt að vera ungur í borginni, listasenan lifandi, háskólalífið spennandi og úrvalið af áhugamálum mikið.

Dagarnir eru óútreiknanlegir. Ég þarf að hafa varann á, passa mig á karlmönnum og helst ekki vera í stuttu pilsi. Í Mexíkó, landinu öllu, getur verið hættulegt að vera kona þar sem ofbeldi og áreitni gagnvart konum er allt of algengt. Á hverjum degi hverfur kona í Mexíkó, ástríðuglæpir eru algengir en talið er að þrjár konur séu myrtar daglega af elskhuga sínum.

Í staðinn fyrir #metoo byltinguna sem á sér stað á Vesturlöndum berjast konur í Mexíkó fyrir ,,Ni una más”, ,,ekki eina í viðbót”. ,,Ekki taka fleiri konur frá okkur”, segja þær.

ENDURHEIMTA LÍKAMA MEРSJÁLFSVÖRN

Einu sinni var ég á göngu um miðborgina og rambaði inn á La Gozadera, kaffihús og menningarhús, sem gefur feminískri menningu pláss. Fyrir utan kaffihúsið stóð glímukeppni yfir, svokallað lucha libre, mexíkósk glímulist. Keppendurnir voru konur og áhorfendurnir konur. Keppendurnir voru grimmar og fyndnar og áhorfendur veltust um af hlátri.

Inni á kaffihúsinu stóð yfir listsýning um kynfæri kvenna og kaffið sem var selt var keypt af kaffiekrum sem störfuðu eftir jafnréttisstefnu. Á einum veggnum voru auglýsingar fyrir ýmis félagsstörf og námskeið sem fram fóru í menningarhúsinu. Þar á meðal var auglýst námskeið í hnefaleikum og sjálfsvörn:

„Komdu að æfa með okkur og njóttu þess að læra sjálfsvörn og aðferðir til að endurheimta líkama þinn. 40 pesóar hver tími.”

Næsta dag mætti ég á námskeiðið og lærði að verja mig í skemmtilegum félagsskap ólíkra kvenna. Markmið námskeiðsins var ekki síst að gefa konum færi á að öðlast öryggi og þann styrk sem þarf til að ganga úti á götu áhyggjulaus, útskýrði þjálfarinn fyrir hópnum. Við lærðum aðferðir til að verjast ofbeldimönnum og hvernig væri best berjast á móti sterkum karlmanni.

Eftir tvo klukkutíma af sjálfsvarnartækni fór ég dauðþreytt í neðanjarðarlestina og velti fyrir mér hvort ég væri fullfær um að ganga áhyggjulaus um götur borgarinnar.

Þegar ég gekk inn í lestarvagninn var ég svo djúpt sokkin í hugsanir mínar að ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég hefði gengið inn í karlahluta lestarinnar. Ég leit í kringum mig og án þess að vera sérstaklega hrædd við hitt kynið fann ég hvernig ég varð samt hokin í baki og horfði niður á tær.

Varnarleysið algjört. 

Á innan við mínútu hafði ég málað samferðamenn mína sem ofbeldismenn og sjálfa mig sem fórnarlamb. Svo staðnæmdust augu mín hjá eldri manni með grátt hár sem gæti allt eins verið afi minn sem stóð með táningsstrák á aldri við litla bróður minn.

AÐSKILNAÐUR Í STAРSAMEININGAR

Það er erfitt að ímynda sér aðskilnað karla og kvenna í íslensku samfélagi. Skemmtistaðir fyrir karla væru vinstra megin við Laugaveginn og konurnar færu hægra megin. Vesturbæjarlaugin yrði karlalaug og Sundhöllin kvennalaug.

En í samfélögum þar sem vandamálið er jafnstórt og raun ber vitni í Mexíkóborg er erfitt að sjá fyrir endann á því og sjálfsbjargarviðleitni tekur við.

Þegar jafnréttisbaráttan snýst um að lifa af, líkt og í Mexíkó, getur verið erfitt að takast á við rót vandans.

Og jafnvel þó svo lausnir, líkt og að aðskilja konur og karla í almenningssamgöngum, virki frá degi til dags geta þær haft öfug áhrif til langs tíma og tvístrað samfélaginu í stað þess að sameina það. 


#  #  #  #  #


17. september 2018Þegar nemandi útskrifast úr grunnskóla er hægt að gera ráð fyrir því að hann hafi hlotið fullnægjandi kennslu í fögum á borð við ensku, íslensku og stærðfræði. Í gegnum grunnskólagöngu hans er gert ráð fyrir því að hvert fag fái nægilegt vægi í stundatöflu nemandans svo nemandinn mæti hæfniskröfum námsskrár við útskrift. Nemandinn mun koma til með að nýta sér þá þekkingu sem honum var fengin í grunnskóla í ýmislegt nytsamlegt á lífsleiðinni og að öllum líkindum mun nemandinn sækja í frekara framhaldsnám. Það er þó ýmislegt annað sem þarf að lærast á lífsleiðinni sem ekki er lögð eins rík áhersla á í skóla. Þegar nemandi útskrifast úr grunnskóla er nefnilega einnig hægt að gera ráð fyrir því að hann hafi hlotið ófullnægjandi kynfræðslu.

Kynfræðsla snýr að mestu að kynjuðum líkamleika. Hún kennir nemendum um líkama og þróun þeirra að því leyti sem þeir eru kynjaðir. Kynfræðslan snertir þess að auki á kynsjúkdómum, auk réttrar notkunar getnaðarvarna. Það hefur títt verið talað um að gera kynfræðslunni frekari skil innan menntakerfisins en nú er gert og margar herferðir hafa komið og farið sem barist hafa fyrir markvissari kynfræðslu í grunnskólum.

Í þeim herferðum sem hafa vikið að kynfræðslu reynist megininntak herferðanna oftar en ekki snúast að endurmati á kynfræðslu í skólum landsins. Herferðirnar krefjast þess að kynfræðsla hefjist fyrr á grunnskólastigi og einnig að kynfræðikennsla líti handan hins kynjaða líkamleika. Til þess að hægt sé að tala um fullnægjandi nám í kynfræðslu þyrfti nefnilega að taka mið af öðrum þáttum en aðeins þeim líkamlegu; kenna þyrfti grundvallaratriði heilbrigðra samskipta hvað viðkemur „kyn-lífi“ sem slíku.

„ÉG VISSI BARA EKKI BETUR“

Venjan virðist vera sú að nemendur hljóti kynfræðslu í 6. og 9. bekk. Þótt til sé uppskrift að markvissri kynfræðslu frá 1. til 10. bekkjar fyrir skólahjúkrunarfræðinga í grunnskólum þá er þeirri uppskrift sjaldnast fylgt. Gera má því ráð fyrir því að útskrifaður grunnskælingur hafi hlotið að meðaltali um tvær til þrjár klukkustundir af kynfræðslu. Það væri ólíklegt að foreldri eða forráðamaður samþykkti að barn þeirra fengi einungis örfáar klukkustundir til þess að ná færni í öðrum fögum svo sem stærðfræði eða íslensku. 

Merki þess að kynfræðsla sé hvorki nógu markviss né hefjist nægilega snemma eru því miður auðfundin. 

Árlega koma ungir gerendur fram sem brotið hafa á öðrum einfaldlega ,,því þeir vissu ekki betur“

og algengt er að þolendur kynferðisofbeldis beri ekki kennsl á ofbeldið sem átti sér stað fyrr en mikið seinna. Ungmenni sem hafa útskrifast úr grunnskóla, menntaskóla og jafnvel háskóla ganga um með óljósa hugmynd um hugtök á borð við samþykki, ofbeldi, mörk og virðingu — og það er óásættanlegt. 

Það að fyllileg fræðsla á þessum hugtökum sé ekki veitt skipulega innan menntakerfisins veldur því að ungmenni leita sjálf á aðrar lendur sér til þekkingaröflunar, svo sem í gegnum sjónvarpsþætti, kvikmyndir, netspjöll eða klám. Allir þessir miðlar, ef svo má kalla, skapa brenglaða ímynd af heilbrigðum samskiptum. Löðrungurinn sem kærastan veitir kærasta sínum í vinsælum sjónvarpsþætti er talinn tákna ástríðu, stjórnun kærastans á kærustunni þykir sýna ást hans í garð hennar, jafnvel þótt hún megi þar með ekki hitta vini sína, og klámið sýnir að óþarfi sé að fá samþykki fyrir kynlífi, að hlutgerving og kúgun kvenna sé eðlileg og að það sé jafnvel eitthvað sem konur þrá.

Það er bæði ósanngjarnt og raunar stórhættulegt að viðhalda menntakerfi sem veitir nemendum sínum ekki almennilegt tækifæri til þess að ala með sér gagnrýna hugsun gagnvart þeirri nauðungarmenningu sem ríkir. Hér er vert að benda á hversu hjálplegt væri að flétta kynjafræði saman við kynfræðslu nemenda. Inngangsþekking á kynjafræði getur veitt nemendum góða byrjunarinnsýn í heim samskipta og samþykkis með því að skoða líkama í ljósi hlutverkanna sem við spilum.

BÖRNIN ÞÍN FARA AÐ SKOÐA KLÁM FYRR EN ÞÚ HELDUR

Sumir foreldrar og forráðamenn hafa lýst áhyggjum yfir því að kynfræðsla hefjist fyrr á skólagöngu barna sinna þar sem þau sum hver telja að slík kennsla sé ekki við hæfi á ungum aldri. Svo þessum áhyggjum sé svarað verður að skiljast að börn verða óhjákvæmilega snemma forvitin um kynlíf, og jafnvel þótt þau sæki ekki sjálf í frekari upplýsingar því tengdu er engu að síður líklegt að barnið komist óvart í tæri við klámfengið efni. Þá er langtum betra að börnunum sé tryggð heilbrigð og nákvæm fræðsla innan skólakerfisins en að þau verði fyrir áhrifum af öðrum eitraðri miðlum. 

Rannsóknir sýna að íslenskir strákar séu að meðaltali um ellefu ára þegar þeir byrja að horfa á klám. Út frá þeim niðurstöðum einum saman er deginum ljósara að efla þarf fræðslu og gagnrýna hugsun gagnvart klámi í kynfræðslu. Það er nefnilega hægt að ræða klám við nemendur með því að leggja áherslu á virðingu, mörk og samþykki við börn á yngri stigum, svo að nemandinn geti metið skaðsemi kláms með gagnrýninni hugsun þegar það mætir honum. Slík fræðsla mun einungis bæta mat nemendans á því samfélagi sem hann tilheyrir, sem og á honum sjálfum.

GEFUM KYNFRÆÐSLU MEIRA VÆGI

Krafan um markvissari kynfræðslu sem hefst fyrr á skólastigi kemur til vegna óska um að okkur eigi að líða betur. Kerfið hefur sýnt í verki að það hefur verið glórulaust þegar viðkemur því að meta hvaða vitneskju sé gott að hafa í farteskinu. Uppvaxtarár okkar skipta sköpum þegar kemur að því að þróa með okkur samskiptahæfileika sem og virðingu gagnvart okkur sjálfum og öðrum. 

Það er því ólíðandi að ætlast til þess að nemendur ,,finni bara út úr þessu“ þegar slíkt viðhorf getur leitt til afbrota. 

Það er nefnilega auðvelt að meðtaka þá brengluðu mynd af samskiptum og kynlífi sem finnst í kringum okkur og halda sig við hana um ókomin ár. Það er auðvelt að brjóta á einhverjum sem þér er annt um, einfaldlega því enginn útskýrði fyrir þér mikilvægi samþykkis.

Kynfræðsla ætti að hafa jafn mikið vægi í skóla og hvert annað fag, þá sérstaklega þar sem kynfræðslan hefur tök á því að leiðbeina nemendum í átt að heilbrigðum samskiptum, eitthvað sem er svo gífurlega mikilvægt í okkar nærumhverfi. Það dugir ekki að setja einungis fáeinar klukkustundir til hliðar fyrir fræðslu heldur á kynfræðsla að vera fag sem skipulögð vinna er lögð í — það þarf að sigta kynfræðslu inn í hausinn á nemendum líkt og við látum nemendur margendurtaka sagnir í ensku til að festa þær í minni. Við þurfum að ráðast á rót vandans og gefa þann tíma og starfskraft sem þarf svo nemendur geti útskrifast með sanngjarna og fullnægjandi fræðslu. Það hlýtur að vera hverjum ljóst að það sé ósanngjarnt að nemandi þurfi að vera heppinn til þess að hljóta ákjósanlega kynfræðslu.