til baka

#  #  #


29. nóvember 2018Hæ! 

Ég heiti Margrét. Þú mátt samt alveg kalla mig Mars, sumir vinir mínir gera það.

Æ, málið er að ég nota fornafnið hán (sem beygist eins og lán) og fólki finnst oft auðveldara að nota það með Mars þar sem Margrét er svo kvenlægt nafn.

Sjáðu til, ég er ekki hán, hán er bara fornafn. Ég er nefnilega kynsegin.

Svona hljóma flest fyrstu kynni mín þessa dagana. Ég var að byrja í háskólanum og á hverjum degi sest ég niður með einhverjum sem ég hef aldrei talað við. Áður en varir er gullna spurningin borin upp:

„Hvað heitir þú?“

Og ég byrja strax að greina þig, velta því fyrir mér hversu upplýst/ur þú sért, hversu langa ræðu ég þurfi að taka til þess að telja þér trú um að ég sé fyrir víst ekki kona.

Til þess að sanna tilverurétt minn. Eða hvort þú munir hvort eð er ekki breyta neinu heldur hafa þetta bara eftir þínu höfði. 

Besta leiðin mín í gegnum heiminn núna er að gefa mig út í bitastærðum. Eins og Kit Kat án barnaþrælkunar. Nógu stórt til þess að vera freistandi, til þess að fólk vilji taka bita. Samt ekki það stórt að þú fáir leið á bragðinu strax. Ég búta mig niður svo tilvera mín verði auðmeltanleg fyrir hin almenna borgara. Svo engum blöskri og enginn verði svo örvinglaður að viðkomandi fái sér aldrei aftur Kit Kat þegar þau leita að sæti á Háskólatorgi.

Málið er að með því að vera ég sjálft þá er ég ósjálfrátt og óumflýjanlega orðið pílagrímur. Ég er trúboði hinsegin trúarbragðsins. Trúleysingjar horfa á mig fullir efasemda og hugsa „Þú hefur afvegaleiðst litla barn,“ og vilja ólmir beygja mig til baka. „Það er hættuleg myndlíking að líkja þessu við pílagrímsför, fólk gæti misskilið,“ segir frænka með áhyggjuróm í röddinni.

Stundum langar mig að ganga með YouTube-link í vasanum og geta slengt honum á sjónhimnu fólks í hvert sinn sem einhver lítur á mig ráðvilltum augum þegar ég segist vera svangt. Eða tattúera HÁN THEY/THEM á ennið mitt. 

Þessar pælingar koma þó bara þegar ég er fullkomlega búið á því. Sem er stundum. Enda ósköp streituvaldandi að fá alltaf hraðan hjartslátt þegar maður segir til nafns.

Inntakið í þessu er samt sem áður ekki að hætta að spyrja til nafns. Það er mikilvægur partur af nýjum kynnum. Inntakið, kæri lesandi, er að opinn hugur getur opnað heilu nammibúðirnar. Bara með því að segja: „Já, er það? Segðu mér meir.“

Eftir að ég skrifaði þennan pistil fór ég yfir hann nokkrum sinnum til þess að hljóma ekki of hvasst og ágengt. Til þess gera hann auðmeltanlegan. Til þess að hafa hann í bitastærðum. Kannski meira eins og Mackintosh en Kit Kat. Virkar vel er það ekki? Að líkja sálarörðugleikum sínum við súkkulaði?

Nú getur þú velt því fyrir þér í skammdeginu hvaða parta af þér þú hefur einfaldað í bitastærðir. Og hvaða bita þú þiggur af öðrum. Pældu í því hvernig fólk er í raun nammipokar fullir af allskonar gómsætum hlutum og hvað við gætum öll notið hvors annars betur ef við værum bara tilbúin að smakka.

 — Mars 


#  #  #  #  #  #


15. september 2018Allt sem þú
ert 

var einu sinni
mitt. 

Kom frá mér
til þín. 

Blóð,
rjómi,
kossar. 

Allt sem ég
gat ekki orðið, 

ég mun grafa göng,
brjóta þök,
steypa af kolli,
hringja símtöl,
vaka um nætur,
rista mig á hol,
aftur,
og aftur,
og aftur, 

til að þú getir orðið
nákvæmlega
hvað
sem
er. Þetta ljóð orti ég til dóttur minnar stuttu eftir að hún kom í heiminn. Tilfinningin sem ég lýsi ― tilfinningin að horfa á barnið sitt og þrá ekkert heitar en að það fái rými og frelsi til að blómstra ― er líklega sú sem ég brennur ennþá heitast innra með mér, 18 mánuðum síðar. Eftir því sem dóttir mín hefur orðið eldri og ég fengið tíma til að ofhugsa hlutina þá hefur þetta verkefni vaxið mér í augum. En það er víst fullseint að hætta við núna. 

Við fórum í ljósmyndaverslun um daginn, ég og stelpan mín. Það var mars og stórhríð úti, henni var pakkað í kerrupoka þannig að hausinn einn stóð upp úr og á honum var lambhúshetta. Hún situr í kerrunni í makindum sínum, skríkir og pirrast til skiptist, á meðan ég tala við starfsmann. Í röðinni á eftir mér er kona sem sér að dóttir mín er pirruð og af borgaralegri skyldu sinni byrjar að fíflast í henni, sem var kærkomið. Þegar ég fer að ferðbúast byrjum við konan í röðinni að spjalla, og svo segir hún mér hvað henni þyki strákurinn minn glaður og flottur. Ég ákveð að vera ekkert að gera stórmál úr því, þessu með kynið skiljiði, og tek undir með henni og segi að hún sé alltaf svona skemmtileg og hress í skapinu.

Þegar konan áttar sig á því að hún hafi dregið ranga ályktun um kyngervi barnsins á þeim forsendum sem henni voru gefnar (brosandi haus með gráa lambhúshettu), biður hún mig innilegrar fyrirgefningar, og leiðréttir sig: ,,Mikið er hún þá fín og sæt.“ 

Á leiðinni heim hefði ég ekki haggast í versta stormi ― svo þungir voru þankar mínir eftir þessi stuttu og hversdagslegu orðaskipti sem ég átti við konuna. Það eina sem þurfti til að þess að barnið mitt færi úr því að vera séð sem „glatt og flott“, aktífur einstaklingur, yfir í „fínt og sætt“, orð sem mætti til dæmis nota til að lýsa borðskreytingum, var einungis það að fyrst var hún álitin strákur en svo var hún („nú ó, fyrirgefðu mér“) stelpa. 

Samtalið sem ég átti í ljósmyndabúðinni birtist mér sem foreldri daglega á einn eða annan hátt, og er langt síðan ég gerði eitthvað veður úr misskilningi sem þessum. Ég geri mér grein fyrir því að það er eðlilegt að vilja þreifa fyrir (ekki bókstaflega, díses) kyngervi fólks til þess að geta átt í samskiptum við það, eða tala um það. 

Eðlilegt, já, en ekki endilega nauðsynlegt, og leyfi ég mér að ganga svo langt að segja það skaðlegt ― skaðlegt því að fólk geti alist upp frjálst til að vera nákvæmlega eins og það vill vera. 

Eðlilegt, því tungumálið okkar reiðir sig á kyn þeirra sem við tölum við eða um. Það er þannig sem íslenskan er uppbyggð, og því áfellist ég konuna ekki, né nokkurn annan sem vill vita kyngervi barnsins míns til að geta átt í eðlilegum og flæðandi samræðum. Ekki nauðsynleg krafa til tungumáls samt. Þetta er hins vegar ekki það sem er til umræðu í dag. Kannski seinna. 

Eðlilegt, því við höfum ólíkar væntingar til fólks út frá því af hvaða kyni það er. Strákar eru glaðir og flottir, stelpur eru fínar og sætar. Skaðlegt, einmitt af þeirri ástæðu. 

Það eru auðvitað óteljandi atriði sem móta okkur, og móta þar með drauma okkar og þrár, og spilla mögulega þessu frelsi. Margt af því er nauðsynlegt og erfitt að koma í veg fyrir, til dæmis það að ég þurfi að aðlaga mínar væntingar til lífsins að þeim staðreyndum að ég er fædd á Íslandi. Sum eru hins vegar ónauðsynleg. 

Allt frá því að við fæðumst, og jafnvel fyrr, verðum við fyrir áhrifum fyrirframgefinna hugmynda samfélagsins um kynin. Fólk sem fylgist með sér að óneitanlega er komið öðruvísi fram við börn út frá kyngervi.

Við notum ólík orð til að lýsa kynjunum, klæðum þau í ólík föt til að merkja þau (svo ekki komi upp samskonar misskilningur eins og sá sem varð í ljósmyndabúðinni), við spyrjum stráka hvort þeir ætli að verða atvinnumenn í fótbolta, undirbúum stelpur betur undir foreldrahlutverkið o.s.frv. Þið vitið hvert ég er að fara. Þessi framkoma er ekki byggð á neinu öðru en félagslegum eiginleikum sem við eignum ólíku kyngervi, og er tilefnislaus að öllu leyti nema fyrir þær sakir að vera fléttuð inn í menningu okkar sem leggur ofuráherslu á kyn fólks. Kynbundnar væntingar móta okkur og takmarka þar með það sem við leggjum fyrir okkur. Þegar við tölum um að fólk hafi frelsi til að blómstra ― vera og gera það sem það vill ― þá þurfum við að sjá til þess að þessir mótandi þættir séu sem opnastir. Þetta gildir að sjálfsögðu um börn, og einna helst um þau. 

Börn læra sjálf kynjaðar staðalímyndir mjög snemma en það er ekki fyrr en miklu seinna sem krakkar fara að geta greint lærðar steríótýpur frá staðreyndum. Börn læra fljótt að staðalímynd okkar af hjúkrunarfræðingi er kona en fatta seinna að þrátt fyrir það þá geti karlmenn auðvitað alveg verið hjúkrunarfræðingar. Þau læra að stelpur eigi að vera sætar og að strákar eigi að vera harðir af sér en þau læra ekki að það eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Og þegar þau læra það þá gæti það verið fullseint í rassinn gripið. Þá eru strákarnir bara betri í fótbolta. Þá eru stelpurnar bara með betri einkunnir.

Við sem uppalendur (og þorpsbúar) þurfum að vera vakandi og leiðrétta þessar hugsanavillur hjá börnunum okkar, en aðallega hjá sjálfum okkur. 

Ég ætla ekki að stinga upp á því að við tökum höndum saman og klæðum stráka í bleikt og hvetjum stelpur til að dreyma um að verða verkfræðilegir eðlisfræðingar. Eiginlega bara akkúrat ekki. Ég segi: gerum ekkert. Berum engar kynbundnar væntingar til barnanna okkar. Það þýðir þó ekki að sitja fullkomlega aðgerðalaus í þessum efnum og ætlast til að kynbundnar væntingar þyrrkist út. Þá taka ríkjandi gildi völdin og allt fer í vaskinn aftur.

Við þurfum meðvitað, og af gífurlegri vandvirkni, að gera ekkert.