til baka

#  #


30. nóvember 2018„Bregðist við núna, fá­bján­ar“ — Mbl.is
„Final call to save the world from ‘climate catastrophe“ — BBC News
„We have 12 years to limit climate change catastrophe, warns UN“ — The Guardian

Ég verð að viðurkenna að fyrstu drögin að þessum pistli voru frekar afdráttarlaus. Ég var búin að telja upp allar þær vonlausu ástæður fyrir því að við sem samfélag myndum aldrei ná að tækla loftslagsvandann. Við værum svo háð eigin neyslumynstri, stórfyrirtækin myndu aldrei sjá sér í hag að draga úr kolefnislosun, stjórnvöld væru ekki nógu ákveðin til að hrista upp í almenningi… þið skiljið hvert ég er að fara. En svo fór ég að spá. Gagnast einhverjum raunverulega að lesa heilan pistil um hvað þetta sé allt vonlaust? Væri ekki frekar öflugra vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar að reyna að halda bjartsýninni á lofti, því sem við getum gert? 

Jú, vissulega birti IPCC sína árlegu skýrslu núna í október sem minnti okkur á hve alvarlegur vandinn er. Hann er geigvænlegur. Rosalegur. Og við þurfum að taka drastískar ákvarðanir. Ákvarðanir sem munu breyta lífsstíl okkar til muna. 

Í millitíðinni, á meðan ég læt mig dreyma um að stjórnvöld hysji upp um sig buxurnar; lagt verði blátt bann við kjötneyslu, íslenskir bændur hefji allir grænmetisrækt og stóru olíufyrirtækin taki sig saman í andlitinu og hætti þessu rugli, þá get ég rifjað upp hvað ég get gert.

Nú er ég ekki að færa ábyrgðina á neytandann, hinn almenna borgara. Ekki misskilja mig. En samt… við verðum að gera eitthvað. Það er nefnilega mjög auðvelt að fallast hendur á meðan fólkið í kringum okkur virðist ekki gera neitt, en það er ekki eina leiðin. Loftslagskvíðinn má ekki gleypa okkur, af því þá fyrst er baráttan töpuð. Að því sögðu er nefnilega ein grein sem poppar reglulega upp í hausnum á mér, en hún kemur einmitt inn á þetta, hvernig öll smáu skrefin telja. Hvernig við eigum ekki að láta aðgerðarleysi almennings hamla okkur. 

Fyrir síðustu jól birti Guðni Elísson stutta grein á Vísi þar sem hann hampaði mikilvægi þess að gefa vatnsdælur í jólagjöf, þessa sönnu gjöf frá Unicef. Það myndi ekki aðeins auka lífskjör fólks í fátækari heimshlutum sem fengju vatnsdælu í sitt litla þorp, heldur myndi það hafa keðjuverkandi áhrif. Aukin lífskjör fyrir þessi litlu þorp þýddu aukin lífskjör kvenna sem þýddi að þær fengju menntun og myndu þar af leiðandi vera líklegri til að eignast færri börn. Og þaðværi eitt af því umhverfisvænasta sem hægt væri að gera. Að eignast færri börn. 

Aukin kvenréttindi þýða því umhverfisvænni lífshættir. Þarna sláum við svo sannarlega tvær flugur í einu höggi. Jafnvel fleiri! Allir vinna! En af hverju finnum við okkur alltaf knúin til að slá fleiri en eina flugu í hverju höggi? 

Jú, í nútímasamfélagi erum við alltaf að kappkosta við að gera sem mest á sem stystum tíma. „Pantaðu matinn á netinu og pikkaðu hann upp á leiðinni heim úr vinnunni.“ „Hlustaðu á nýjustu hljóðbókina meðan þú klárar skrefafjölda dagsins, og náðu helst að plokka rusl í leiðinni.“ 

Samkvæmt rannsókn frá 2015 er fólk líklegra til að aðhafast eitthvað í loftslagsbaráttunni ef það sér einhvern viðbótarávinning (e. co-benefits) af gjörðum sínum. Hér er átt við að það er ekki nóg að ætlast til þess að fólk gjörbreyti lifnaðarháttum sínum eingöngu loftslagsbreytinganna vegna. Þær virðast oft vera of vítt hugtak, of stór biti að kyngja. Þess í stað er fólk líklegra til aðgerða ef af þeim fæst um leið einhver beinn, áþreifanlegur ávinningur. Takast á við loftslagsbreytingar OG bæta efnahagskerfið? Minnka mengun? Bæta kjör kvenna í fátækari heimshlutum? Ok, GEGGJAÐ. Þessa tengingu skildi Guðni Elísson þegar hann skrifaði greinina um vatnsdælur fyrir síðustu jól. Win–win. Og það er kannski þetta sem við ættum að vera duglegri að gera. Jú, við getum einnig hugað að grænni jólum, eins og ég sá marga Facebook vini mína deila grein um í október, en jólagjöfin sjálf getur einmitt verið hluti af þessu. Ég þekki það nefnilega alveg af eigin raun hvernig loftslagskvíðinn getur heltekið mig við tilhugsunina um hina kapítalísku klikkun sem jólin geta verið. Allar jólagjafirnar, pappírinn, skreytingarnar, maturinn. Ég fæ kaldan svita við tilhugsunina. En það hægir á kvíðanum þegar ég man að ég þarf ekki að taka þátt í þessu af fullum krafti. 

Ég skulda jólunum ekki neitt. 

Feminismi og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum geta haldist í hendur. Ég hef heyrt marga halda því fram að um leið og þú virkilega fattar hve alvarlegur loftslagsvandinn er að þá ættirðu ekki að hugsa um neitt annað en loftslagsbreytingar, þær ættu að eiga hug þinn allan. 

En það er engum hollt að sökkva sér í fen loftslagskvíðans. Við getum það ekki. Þess í stað getum við haldið áfram að gera okkar besta í loftslagsbaráttunni, og ef við getum fléttað kvenréttindum inn í þá baráttu segi ég bara snilld. Takk og bless. Lengi lifi og allt það. 

Þessi pistill er ekki áfellisdómur sem slíkur, heldur raunsæ áminning um það sem hægt er að gera í loftslagsmálunum á meðan stóru aðgerðirnar láta á sér standa. Ég finn sjálf fyrir þessari þörf til að réttlæta gjörðir mínar í einu og öllu og það er góð tilhugsun að leggist fólk í púkk um eina vatnsdælu í jólagjöf geti það haft svona víðtæk áhrif. Að ein vatnsdæla geti ekki aðeins brotið niður hömlur kvenna í fátækari heimshlutum og gert þeim kleift að öðlast menntun, heldur hafi það bein áhrif á sjálfa mig. Þá er ég ekki að yfirfæra vandann á einhvern annan, gera ráð fyrir því að loftslagsbreytingar séu að gerast annars staðar og ég þurfi ekki að pæla í þessu. Þvert á móti er ég meðvitað að finna leiðir til að takast á við loftslagsvandann og bæta réttindi kvenna. Er það ekki eitthvað? 

Ekki láta loftslagskvíðann hamla ykkur. Litlu skrefin, krakkar. Þau telja.


#  #  #


13. september 2018Það er magnað hvað móðurhlutverkið breytir manni hratt. Ég hafði alveg einhverjar hugmyndir um það áður en ég átti, hvers konar móðir ég þóttist ætla að vera og hvernig uppeldinu skyldi háttað. Þetta voru miklar pælingar. Ég las mikið um foreldrahlutverkið, umönnun ungabarna, næringu þeirra og svefn milli þess sem ég skrifaði MA-ritgerð í menningarfræði við Háskóla Íslands. Ég komst að því að ég væri ólétt stuttu áður en ég byrjaði að skrifa og var ákveðin í að klára ritgerðina áður en barnið kæmi. Ritgerð fyrst, barn svo. Það er hálf ótrúlegt að hugsa til þess hvernig mér tókst að halda þessum viðfangsefnum aðskildum þegar litið er til þess sem ég var að skrifa um í ritgerðinni; loftslagsbreytingar, eða nánar tiltekið, sinnuleysi okkar Vesturlandabúa gagnvart loftslagsbreytingum. Það er þessi tilhneiging okkar til að vera meðvituð um vandann, en líta samt undan. Við getum ekki innlimað þessar upplýsingar inn í okkar daglega líf og neitum um leið að axla ábyrgð. Þetta rakti ég samviskusamlega í ritgerðinni, þar sem ég greindi íslenska fjölmiðlaumræðu um loftslagsbreytingar og færði rök fyrir því að því hagsælli sem efnahagur þjóðarinnar er, því líklegri erum við til að gefa okkur tíma til að tala um loftslagsbreytingar, lofa öllu fögru, en gera þeim mun minna. Við tölum kannski meira um vandann, en hann er annars staðar, of stór til að meðtaka sem eitthvað sem gæti virkilega haft áhrif á okkur.

Þetta greindi ég, tók saman niðurstöður og rakti á meðan litli bumbubúinn óx og dafnaði. Aldrei hvarflaði að mér að leiða hugann að því hvað tæki við fyrir þetta litla líf eftir minn tíma. Ég var orðin þrusugóð í að draga fram hræsni stjórnmálamanna, fyrirtækja og fjölmiðla þegar kom að þessari þrúgandi þögn sem hverfist utan um loftslagsbreytingar í daglegu tali, en hvað um mína eigin hræsni? Eins og við vitum flest eru loftslagsbreytingar mest áríðandi vandi heimsins í dag. Fyrir því höfum við ógrynni af sönnunum, og nægir í því samhengi að benda á reglulegar skýrslur Sameinuðu þjóðanna, IPCC, sem ótal vísinda- og menntafólk hefur komið að. Tölurnar ljúga ekki.

Ýkt veðurskilyrðisúrnun sjávarbráðnun jökla og hafíss og breytt veðurfar ljúga ekki. En samt gerum við ekki neitt. Ég geri ekki neitt.

Ég kom nýju lífi inn í þennan heim í vor og þegar ég hugsa til þess hvað ég og mín kynslóð hyggjumst skilja eftir fyrir þá næstu þá fallast mér hendur. Ég get ekki tengt þær upplýsingar sem ég hef um loftslagsbreytingar við framtíð sonar míns. Hann er í dag rúmlega fjögurra mánaða, dafnar með hverjum deginum og er nýbyrjaður að fara að sofa á skikkanlegum tíma, hjala og æfa sig í að snúa sér af bakinu og á hliðina. Og ég er heltekin af hverju litla augnabliki, heltekin af honum og hvernig ég get bætt mig í þessu móðurhlutverki. Mér finnst ég alltaf geta gert betur.

Þetta er tilfinning sem ég hef heyrt aðrar mæður kalla mömmusamviskubitið, mammviskubitið. Þessi tilfinning að ég hefði nú alveg getað gert eitthvað öðruvísi í uppeldinu.

Æ, samviskubitið ef ég dirfist að fara í burtu frá honum í meira en tvo tíma. En æ, samviskubitið ef ég ven hann á að ég sé til staðar á öllum tímum sólarhringsins, alltaf, alls staðar, tilbúin þegar hann vaknar og til taks þegar hann þarf að sofna.

Samviskubitið ef ég dirfist að gefa honum þurrmjólk því ég nenni ekki að pumpa. Samviskubitið þegar ég stekk frá og legg það á föður hans að gefa honum pela einu sinni og einu sinni. Samviskubitið yfir því að fá samviskubit yfir því að skilja feðgana eftir, þeir eigi nú alveg að geta séð um sig sjálfir. Ég sver, það er alltaf eitthvað.

Þegar bætist svo við umhverfissamviskubitið, þá fyrst byrja ég að naga á mér neglurnar. Að koma barni á legg er ekki sérlega umhverfisvænt þegar við tökum tillit til allra smáatriðanna sem fara í uppihald barna. Pappírsbleyjur til dæmis. Heilu gámafarmarnir af fötum sem við keppumst við að koma börnunum í áður en þau stækka upp úr þeim við tólf vikna aldurinn. Plastleikföngin, pappagrisjurnar, dótið og pelarnir. Í nánast hysterískri þörf til að veita syni mínum allt hið besta hef ég sjálf gerst sek um að líta undan loftslagsvandanum. Ég þykist vera umhverfisvæn en úff, þetta er fljótt að telja.

Mömmusamviskubitið er furðulegt fyrirbæri en það er enn furðulegra að sjá hvernig það hefur tekið fyrir hendurnar á umhverfishugsjónum mínum. Nú er ég svo upptekin af litlu hlutunum í uppeldinu að ég hef gleymt að skoða heildarmyndina, rétt eins og við eigum til að gera þegar við tölum um loftslagsbreytingar. Við erum fljót að afskrifa þær sem vandamál annars staðar og einbeitum okkur svo að litlu hlutunum sem friðþægja samvisku okkar um stund. En það er ekki nóg að segjast hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, við þurfum að taka skýra afstöðu, og það núna. En það er kannski vandinn. Við miklum það svo fyrir okkur að það verður auðveldara að bægja frá okkur áhyggjunum og við leyfum athygli okkar að renna óskiptri inn í hversdagsamstrið.

Rétt eins og ég þarf að minna mig á að hvert skref í uppeldinu er vegferð í átt að heilsteyptri manneskju sem getur tekist á við heiminn án afskipta móður sinnar, þá verðum við að minna okkur á að hvert skref sem við tökum í umhverfisvernd er gott skref.

Við megum ekki láta deigan síga þó að vandinn sé mikill. Jú, eftir barnsburð hef ég sjálf gerst sek um loftslagssinnuleysið sem ég sá alls staðar í kringum mig meðan ég skrifaði þessa blessuðu MA-ritgerð en í stað þess að gefast upp fyrir því þá verð ég að axla ábyrgð. Það gagnast mér lítið að fá samviskubit yfir því að ala upp barn sem þarf að takast á við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Hann er fæddur, kominn til að vera, og mitt hlutverk er að gera mitt besta, ekki aðeins til að draga úr eigin kolefnisspori, heldur til að gera syni mínum kleift að takast á við heim þar sem loftslagsbreytingar verða sífellt meira aðkallandi vandi. Það er allavega mitt framlag, einn dag í einu.

Greta Thunberg.

Ég er alltaf að tönnlast á þessu nafni þessa dagana, því ég vil að sem flestir viti hver hún er. Hvað hún stendur fyrir.

Greta Thunberg er 16 ára gömul, sænsk, og hefur haft meiri áhrif á loftslagsumræðuna síðastliðið ár en flestir sérfræðingar samanlagt. Ég dýrka þessa stelpu. Hún stendur frammi fyrir alþjóðasamfélaginu og spyr fyrir hönd framtíðarkynslóða af hverju í andskotanum við séum ekki að gera meira. Af hverju við séum ekki að gera neitt til að koma í veg fyrir loftslagsvána þegar við höfum haft allar upplýsingar um vandann í fleiri áratugi.

Greta Thunberg.

Hún hætti að mæta í skólann því hún sá ekki tilganginn. Af hverju að mennta sig og gera framtíðaráform þegar framtíðin er öll að fara til fjandans? Þess í stað hefur hún staðið fyrir utan sænska alþingið og krafið stjórnmálamenn svara. Hún hefur komið fram á loftslagsþingi sameinuðu þjóðanna og skammað ráðamenn. Spurt af hverju í andskotanum þeir séu ekki að gera meira. Var ég búin að nefna að hún er nýorðin 16 ára gömul? Það er þessi kraftur, þessi óbeislaða heift í garð aðgerðarleysis sem ég vildi að við gætum öll tekið okkur til fyrirmyndar. Það er nákvæmlega þetta sem mig langar að gera þegar ég finn loftslagskvíðann skríða meðfram hryggjarsúlunni og hríslast svo niður í tær eins og óþægilegur kuldahrollur sem ég get ekki hrist af mér sama hvað ég reyni.

En af hverju hika ég alltaf? Af hverju hristi ég alltaf af mér ónotin í stað þess að láta virkilega heyra í mér?

Ég veit það ekki. En meðan ég þegi og japla á loftslagskvíðanum með óbragð í munninum þá fagna ég tilveru Gretu Thunberg og leyfi mér að enda þetta þvaður á tilvitnun í hana sem kristallar þennan vanda okkar ágætlega. Góða helgi.

„Adults keep saying: “We owe it to the young people to give them hope.” But I don’t want your hope. I don’t want you to be hopeful. I want you to panic. I want you to feel the fear I feel every day. And then I want you to act.
I want you to act as you would in a crisis. I want you to act as if our house is on fire. Because it is.“

Mynd: Fabrice Coffrini fyrir AFP