til baka

#  #  #  #  #


17. september 2018Þegar nemandi útskrifast úr grunnskóla er hægt að gera ráð fyrir því að hann hafi hlotið fullnægjandi kennslu í fögum á borð við ensku, íslensku og stærðfræði. Í gegnum grunnskólagöngu hans er gert ráð fyrir því að hvert fag fái nægilegt vægi í stundatöflu nemandans svo nemandinn mæti hæfniskröfum námsskrár við útskrift. Nemandinn mun koma til með að nýta sér þá þekkingu sem honum var fengin í grunnskóla í ýmislegt nytsamlegt á lífsleiðinni og að öllum líkindum mun nemandinn sækja í frekara framhaldsnám. Það er þó ýmislegt annað sem þarf að lærast á lífsleiðinni sem ekki er lögð eins rík áhersla á í skóla. Þegar nemandi útskrifast úr grunnskóla er nefnilega einnig hægt að gera ráð fyrir því að hann hafi hlotið ófullnægjandi kynfræðslu.

Kynfræðsla snýr að mestu að kynjuðum líkamleika. Hún kennir nemendum um líkama og þróun þeirra að því leyti sem þeir eru kynjaðir. Kynfræðslan snertir þess að auki á kynsjúkdómum, auk réttrar notkunar getnaðarvarna. Það hefur títt verið talað um að gera kynfræðslunni frekari skil innan menntakerfisins en nú er gert og margar herferðir hafa komið og farið sem barist hafa fyrir markvissari kynfræðslu í grunnskólum.

Í þeim herferðum sem hafa vikið að kynfræðslu reynist megininntak herferðanna oftar en ekki snúast að endurmati á kynfræðslu í skólum landsins. Herferðirnar krefjast þess að kynfræðsla hefjist fyrr á grunnskólastigi og einnig að kynfræðikennsla líti handan hins kynjaða líkamleika. Til þess að hægt sé að tala um fullnægjandi nám í kynfræðslu þyrfti nefnilega að taka mið af öðrum þáttum en aðeins þeim líkamlegu; kenna þyrfti grundvallaratriði heilbrigðra samskipta hvað viðkemur „kyn-lífi“ sem slíku.

„ÉG VISSI BARA EKKI BETUR“

Venjan virðist vera sú að nemendur hljóti kynfræðslu í 6. og 9. bekk. Þótt til sé uppskrift að markvissri kynfræðslu frá 1. til 10. bekkjar fyrir skólahjúkrunarfræðinga í grunnskólum þá er þeirri uppskrift sjaldnast fylgt. Gera má því ráð fyrir því að útskrifaður grunnskælingur hafi hlotið að meðaltali um tvær til þrjár klukkustundir af kynfræðslu. Það væri ólíklegt að foreldri eða forráðamaður samþykkti að barn þeirra fengi einungis örfáar klukkustundir til þess að ná færni í öðrum fögum svo sem stærðfræði eða íslensku. 

Merki þess að kynfræðsla sé hvorki nógu markviss né hefjist nægilega snemma eru því miður auðfundin. 

Árlega koma ungir gerendur fram sem brotið hafa á öðrum einfaldlega ,,því þeir vissu ekki betur“

og algengt er að þolendur kynferðisofbeldis beri ekki kennsl á ofbeldið sem átti sér stað fyrr en mikið seinna. Ungmenni sem hafa útskrifast úr grunnskóla, menntaskóla og jafnvel háskóla ganga um með óljósa hugmynd um hugtök á borð við samþykki, ofbeldi, mörk og virðingu — og það er óásættanlegt. 

Það að fyllileg fræðsla á þessum hugtökum sé ekki veitt skipulega innan menntakerfisins veldur því að ungmenni leita sjálf á aðrar lendur sér til þekkingaröflunar, svo sem í gegnum sjónvarpsþætti, kvikmyndir, netspjöll eða klám. Allir þessir miðlar, ef svo má kalla, skapa brenglaða ímynd af heilbrigðum samskiptum. Löðrungurinn sem kærastan veitir kærasta sínum í vinsælum sjónvarpsþætti er talinn tákna ástríðu, stjórnun kærastans á kærustunni þykir sýna ást hans í garð hennar, jafnvel þótt hún megi þar með ekki hitta vini sína, og klámið sýnir að óþarfi sé að fá samþykki fyrir kynlífi, að hlutgerving og kúgun kvenna sé eðlileg og að það sé jafnvel eitthvað sem konur þrá.

Það er bæði ósanngjarnt og raunar stórhættulegt að viðhalda menntakerfi sem veitir nemendum sínum ekki almennilegt tækifæri til þess að ala með sér gagnrýna hugsun gagnvart þeirri nauðungarmenningu sem ríkir. Hér er vert að benda á hversu hjálplegt væri að flétta kynjafræði saman við kynfræðslu nemenda. Inngangsþekking á kynjafræði getur veitt nemendum góða byrjunarinnsýn í heim samskipta og samþykkis með því að skoða líkama í ljósi hlutverkanna sem við spilum.

BÖRNIN ÞÍN FARA AÐ SKOÐA KLÁM FYRR EN ÞÚ HELDUR

Sumir foreldrar og forráðamenn hafa lýst áhyggjum yfir því að kynfræðsla hefjist fyrr á skólagöngu barna sinna þar sem þau sum hver telja að slík kennsla sé ekki við hæfi á ungum aldri. Svo þessum áhyggjum sé svarað verður að skiljast að börn verða óhjákvæmilega snemma forvitin um kynlíf, og jafnvel þótt þau sæki ekki sjálf í frekari upplýsingar því tengdu er engu að síður líklegt að barnið komist óvart í tæri við klámfengið efni. Þá er langtum betra að börnunum sé tryggð heilbrigð og nákvæm fræðsla innan skólakerfisins en að þau verði fyrir áhrifum af öðrum eitraðri miðlum. 

Rannsóknir sýna að íslenskir strákar séu að meðaltali um ellefu ára þegar þeir byrja að horfa á klám. Út frá þeim niðurstöðum einum saman er deginum ljósara að efla þarf fræðslu og gagnrýna hugsun gagnvart klámi í kynfræðslu. Það er nefnilega hægt að ræða klám við nemendur með því að leggja áherslu á virðingu, mörk og samþykki við börn á yngri stigum, svo að nemandinn geti metið skaðsemi kláms með gagnrýninni hugsun þegar það mætir honum. Slík fræðsla mun einungis bæta mat nemendans á því samfélagi sem hann tilheyrir, sem og á honum sjálfum.

GEFUM KYNFRÆÐSLU MEIRA VÆGI

Krafan um markvissari kynfræðslu sem hefst fyrr á skólastigi kemur til vegna óska um að okkur eigi að líða betur. Kerfið hefur sýnt í verki að það hefur verið glórulaust þegar viðkemur því að meta hvaða vitneskju sé gott að hafa í farteskinu. Uppvaxtarár okkar skipta sköpum þegar kemur að því að þróa með okkur samskiptahæfileika sem og virðingu gagnvart okkur sjálfum og öðrum. 

Það er því ólíðandi að ætlast til þess að nemendur ,,finni bara út úr þessu“ þegar slíkt viðhorf getur leitt til afbrota. 

Það er nefnilega auðvelt að meðtaka þá brengluðu mynd af samskiptum og kynlífi sem finnst í kringum okkur og halda sig við hana um ókomin ár. Það er auðvelt að brjóta á einhverjum sem þér er annt um, einfaldlega því enginn útskýrði fyrir þér mikilvægi samþykkis.

Kynfræðsla ætti að hafa jafn mikið vægi í skóla og hvert annað fag, þá sérstaklega þar sem kynfræðslan hefur tök á því að leiðbeina nemendum í átt að heilbrigðum samskiptum, eitthvað sem er svo gífurlega mikilvægt í okkar nærumhverfi. Það dugir ekki að setja einungis fáeinar klukkustundir til hliðar fyrir fræðslu heldur á kynfræðsla að vera fag sem skipulögð vinna er lögð í — það þarf að sigta kynfræðslu inn í hausinn á nemendum líkt og við látum nemendur margendurtaka sagnir í ensku til að festa þær í minni. Við þurfum að ráðast á rót vandans og gefa þann tíma og starfskraft sem þarf svo nemendur geti útskrifast með sanngjarna og fullnægjandi fræðslu. Það hlýtur að vera hverjum ljóst að það sé ósanngjarnt að nemandi þurfi að vera heppinn til þess að hljóta ákjósanlega kynfræðslu. 


#  #  #  #  #  #


15. september 2018Allt sem þú
ert 

var einu sinni
mitt. 

Kom frá mér
til þín. 

Blóð,
rjómi,
kossar. 

Allt sem ég
gat ekki orðið, 

ég mun grafa göng,
brjóta þök,
steypa af kolli,
hringja símtöl,
vaka um nætur,
rista mig á hol,
aftur,
og aftur,
og aftur, 

til að þú getir orðið
nákvæmlega
hvað
sem
er. Þetta ljóð orti ég til dóttur minnar stuttu eftir að hún kom í heiminn. Tilfinningin sem ég lýsi ― tilfinningin að horfa á barnið sitt og þrá ekkert heitar en að það fái rými og frelsi til að blómstra ― er líklega sú sem ég brennur ennþá heitast innra með mér, 18 mánuðum síðar. Eftir því sem dóttir mín hefur orðið eldri og ég fengið tíma til að ofhugsa hlutina þá hefur þetta verkefni vaxið mér í augum. En það er víst fullseint að hætta við núna. 

Við fórum í ljósmyndaverslun um daginn, ég og stelpan mín. Það var mars og stórhríð úti, henni var pakkað í kerrupoka þannig að hausinn einn stóð upp úr og á honum var lambhúshetta. Hún situr í kerrunni í makindum sínum, skríkir og pirrast til skiptist, á meðan ég tala við starfsmann. Í röðinni á eftir mér er kona sem sér að dóttir mín er pirruð og af borgaralegri skyldu sinni byrjar að fíflast í henni, sem var kærkomið. Þegar ég fer að ferðbúast byrjum við konan í röðinni að spjalla, og svo segir hún mér hvað henni þyki strákurinn minn glaður og flottur. Ég ákveð að vera ekkert að gera stórmál úr því, þessu með kynið skiljiði, og tek undir með henni og segi að hún sé alltaf svona skemmtileg og hress í skapinu.

Þegar konan áttar sig á því að hún hafi dregið ranga ályktun um kyngervi barnsins á þeim forsendum sem henni voru gefnar (brosandi haus með gráa lambhúshettu), biður hún mig innilegrar fyrirgefningar, og leiðréttir sig: ,,Mikið er hún þá fín og sæt.“ 

Á leiðinni heim hefði ég ekki haggast í versta stormi ― svo þungir voru þankar mínir eftir þessi stuttu og hversdagslegu orðaskipti sem ég átti við konuna. Það eina sem þurfti til að þess að barnið mitt færi úr því að vera séð sem „glatt og flott“, aktífur einstaklingur, yfir í „fínt og sætt“, orð sem mætti til dæmis nota til að lýsa borðskreytingum, var einungis það að fyrst var hún álitin strákur en svo var hún („nú ó, fyrirgefðu mér“) stelpa. 

Samtalið sem ég átti í ljósmyndabúðinni birtist mér sem foreldri daglega á einn eða annan hátt, og er langt síðan ég gerði eitthvað veður úr misskilningi sem þessum. Ég geri mér grein fyrir því að það er eðlilegt að vilja þreifa fyrir (ekki bókstaflega, díses) kyngervi fólks til þess að geta átt í samskiptum við það, eða tala um það. 

Eðlilegt, já, en ekki endilega nauðsynlegt, og leyfi ég mér að ganga svo langt að segja það skaðlegt ― skaðlegt því að fólk geti alist upp frjálst til að vera nákvæmlega eins og það vill vera. 

Eðlilegt, því tungumálið okkar reiðir sig á kyn þeirra sem við tölum við eða um. Það er þannig sem íslenskan er uppbyggð, og því áfellist ég konuna ekki, né nokkurn annan sem vill vita kyngervi barnsins míns til að geta átt í eðlilegum og flæðandi samræðum. Ekki nauðsynleg krafa til tungumáls samt. Þetta er hins vegar ekki það sem er til umræðu í dag. Kannski seinna. 

Eðlilegt, því við höfum ólíkar væntingar til fólks út frá því af hvaða kyni það er. Strákar eru glaðir og flottir, stelpur eru fínar og sætar. Skaðlegt, einmitt af þeirri ástæðu. 

Það eru auðvitað óteljandi atriði sem móta okkur, og móta þar með drauma okkar og þrár, og spilla mögulega þessu frelsi. Margt af því er nauðsynlegt og erfitt að koma í veg fyrir, til dæmis það að ég þurfi að aðlaga mínar væntingar til lífsins að þeim staðreyndum að ég er fædd á Íslandi. Sum eru hins vegar ónauðsynleg. 

Allt frá því að við fæðumst, og jafnvel fyrr, verðum við fyrir áhrifum fyrirframgefinna hugmynda samfélagsins um kynin. Fólk sem fylgist með sér að óneitanlega er komið öðruvísi fram við börn út frá kyngervi.

Við notum ólík orð til að lýsa kynjunum, klæðum þau í ólík föt til að merkja þau (svo ekki komi upp samskonar misskilningur eins og sá sem varð í ljósmyndabúðinni), við spyrjum stráka hvort þeir ætli að verða atvinnumenn í fótbolta, undirbúum stelpur betur undir foreldrahlutverkið o.s.frv. Þið vitið hvert ég er að fara. Þessi framkoma er ekki byggð á neinu öðru en félagslegum eiginleikum sem við eignum ólíku kyngervi, og er tilefnislaus að öllu leyti nema fyrir þær sakir að vera fléttuð inn í menningu okkar sem leggur ofuráherslu á kyn fólks. Kynbundnar væntingar móta okkur og takmarka þar með það sem við leggjum fyrir okkur. Þegar við tölum um að fólk hafi frelsi til að blómstra ― vera og gera það sem það vill ― þá þurfum við að sjá til þess að þessir mótandi þættir séu sem opnastir. Þetta gildir að sjálfsögðu um börn, og einna helst um þau. 

Börn læra sjálf kynjaðar staðalímyndir mjög snemma en það er ekki fyrr en miklu seinna sem krakkar fara að geta greint lærðar steríótýpur frá staðreyndum. Börn læra fljótt að staðalímynd okkar af hjúkrunarfræðingi er kona en fatta seinna að þrátt fyrir það þá geti karlmenn auðvitað alveg verið hjúkrunarfræðingar. Þau læra að stelpur eigi að vera sætar og að strákar eigi að vera harðir af sér en þau læra ekki að það eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Og þegar þau læra það þá gæti það verið fullseint í rassinn gripið. Þá eru strákarnir bara betri í fótbolta. Þá eru stelpurnar bara með betri einkunnir.

Við sem uppalendur (og þorpsbúar) þurfum að vera vakandi og leiðrétta þessar hugsanavillur hjá börnunum okkar, en aðallega hjá sjálfum okkur. 

Ég ætla ekki að stinga upp á því að við tökum höndum saman og klæðum stráka í bleikt og hvetjum stelpur til að dreyma um að verða verkfræðilegir eðlisfræðingar. Eiginlega bara akkúrat ekki. Ég segi: gerum ekkert. Berum engar kynbundnar væntingar til barnanna okkar. Það þýðir þó ekki að sitja fullkomlega aðgerðalaus í þessum efnum og ætlast til að kynbundnar væntingar þyrrkist út. Þá taka ríkjandi gildi völdin og allt fer í vaskinn aftur.

Við þurfum meðvitað, og af gífurlegri vandvirkni, að gera ekkert. 


#  #  #


13. september 2018Það er magnað hvað móðurhlutverkið breytir manni hratt. Ég hafði alveg einhverjar hugmyndir um það áður en ég átti, hvers konar móðir ég þóttist ætla að vera og hvernig uppeldinu skyldi háttað. Þetta voru miklar pælingar. Ég las mikið um foreldrahlutverkið, umönnun ungabarna, næringu þeirra og svefn milli þess sem ég skrifaði MA-ritgerð í menningarfræði við Háskóla Íslands. Ég komst að því að ég væri ólétt stuttu áður en ég byrjaði að skrifa og var ákveðin í að klára ritgerðina áður en barnið kæmi. Ritgerð fyrst, barn svo. Það er hálf ótrúlegt að hugsa til þess hvernig mér tókst að halda þessum viðfangsefnum aðskildum þegar litið er til þess sem ég var að skrifa um í ritgerðinni; loftslagsbreytingar, eða nánar tiltekið, sinnuleysi okkar Vesturlandabúa gagnvart loftslagsbreytingum. Það er þessi tilhneiging okkar til að vera meðvituð um vandann, en líta samt undan. Við getum ekki innlimað þessar upplýsingar inn í okkar daglega líf og neitum um leið að axla ábyrgð. Þetta rakti ég samviskusamlega í ritgerðinni, þar sem ég greindi íslenska fjölmiðlaumræðu um loftslagsbreytingar og færði rök fyrir því að því hagsælli sem efnahagur þjóðarinnar er, því líklegri erum við til að gefa okkur tíma til að tala um loftslagsbreytingar, lofa öllu fögru, en gera þeim mun minna. Við tölum kannski meira um vandann, en hann er annars staðar, of stór til að meðtaka sem eitthvað sem gæti virkilega haft áhrif á okkur.

Þetta greindi ég, tók saman niðurstöður og rakti á meðan litli bumbubúinn óx og dafnaði. Aldrei hvarflaði að mér að leiða hugann að því hvað tæki við fyrir þetta litla líf eftir minn tíma. Ég var orðin þrusugóð í að draga fram hræsni stjórnmálamanna, fyrirtækja og fjölmiðla þegar kom að þessari þrúgandi þögn sem hverfist utan um loftslagsbreytingar í daglegu tali, en hvað um mína eigin hræsni? Eins og við vitum flest eru loftslagsbreytingar mest áríðandi vandi heimsins í dag. Fyrir því höfum við ógrynni af sönnunum, og nægir í því samhengi að benda á reglulegar skýrslur Sameinuðu þjóðanna, IPCC, sem ótal vísinda- og menntafólk hefur komið að. Tölurnar ljúga ekki.

Ýkt veðurskilyrðisúrnun sjávarbráðnun jökla og hafíss og breytt veðurfar ljúga ekki. En samt gerum við ekki neitt. Ég geri ekki neitt.

Ég kom nýju lífi inn í þennan heim í vor og þegar ég hugsa til þess hvað ég og mín kynslóð hyggjumst skilja eftir fyrir þá næstu þá fallast mér hendur. Ég get ekki tengt þær upplýsingar sem ég hef um loftslagsbreytingar við framtíð sonar míns. Hann er í dag rúmlega fjögurra mánaða, dafnar með hverjum deginum og er nýbyrjaður að fara að sofa á skikkanlegum tíma, hjala og æfa sig í að snúa sér af bakinu og á hliðina. Og ég er heltekin af hverju litla augnabliki, heltekin af honum og hvernig ég get bætt mig í þessu móðurhlutverki. Mér finnst ég alltaf geta gert betur.

Þetta er tilfinning sem ég hef heyrt aðrar mæður kalla mömmusamviskubitið, mammviskubitið. Þessi tilfinning að ég hefði nú alveg getað gert eitthvað öðruvísi í uppeldinu.

Æ, samviskubitið ef ég dirfist að fara í burtu frá honum í meira en tvo tíma. En æ, samviskubitið ef ég ven hann á að ég sé til staðar á öllum tímum sólarhringsins, alltaf, alls staðar, tilbúin þegar hann vaknar og til taks þegar hann þarf að sofna.

Samviskubitið ef ég dirfist að gefa honum þurrmjólk því ég nenni ekki að pumpa. Samviskubitið þegar ég stekk frá og legg það á föður hans að gefa honum pela einu sinni og einu sinni. Samviskubitið yfir því að fá samviskubit yfir því að skilja feðgana eftir, þeir eigi nú alveg að geta séð um sig sjálfir. Ég sver, það er alltaf eitthvað.

Þegar bætist svo við umhverfissamviskubitið, þá fyrst byrja ég að naga á mér neglurnar. Að koma barni á legg er ekki sérlega umhverfisvænt þegar við tökum tillit til allra smáatriðanna sem fara í uppihald barna. Pappírsbleyjur til dæmis. Heilu gámafarmarnir af fötum sem við keppumst við að koma börnunum í áður en þau stækka upp úr þeim við tólf vikna aldurinn. Plastleikföngin, pappagrisjurnar, dótið og pelarnir. Í nánast hysterískri þörf til að veita syni mínum allt hið besta hef ég sjálf gerst sek um að líta undan loftslagsvandanum. Ég þykist vera umhverfisvæn en úff, þetta er fljótt að telja.

Mömmusamviskubitið er furðulegt fyrirbæri en það er enn furðulegra að sjá hvernig það hefur tekið fyrir hendurnar á umhverfishugsjónum mínum. Nú er ég svo upptekin af litlu hlutunum í uppeldinu að ég hef gleymt að skoða heildarmyndina, rétt eins og við eigum til að gera þegar við tölum um loftslagsbreytingar. Við erum fljót að afskrifa þær sem vandamál annars staðar og einbeitum okkur svo að litlu hlutunum sem friðþægja samvisku okkar um stund. En það er ekki nóg að segjast hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, við þurfum að taka skýra afstöðu, og það núna. En það er kannski vandinn. Við miklum það svo fyrir okkur að það verður auðveldara að bægja frá okkur áhyggjunum og við leyfum athygli okkar að renna óskiptri inn í hversdagsamstrið.

Rétt eins og ég þarf að minna mig á að hvert skref í uppeldinu er vegferð í átt að heilsteyptri manneskju sem getur tekist á við heiminn án afskipta móður sinnar, þá verðum við að minna okkur á að hvert skref sem við tökum í umhverfisvernd er gott skref.

Við megum ekki láta deigan síga þó að vandinn sé mikill. Jú, eftir barnsburð hef ég sjálf gerst sek um loftslagssinnuleysið sem ég sá alls staðar í kringum mig meðan ég skrifaði þessa blessuðu MA-ritgerð en í stað þess að gefast upp fyrir því þá verð ég að axla ábyrgð. Það gagnast mér lítið að fá samviskubit yfir því að ala upp barn sem þarf að takast á við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Hann er fæddur, kominn til að vera, og mitt hlutverk er að gera mitt besta, ekki aðeins til að draga úr eigin kolefnisspori, heldur til að gera syni mínum kleift að takast á við heim þar sem loftslagsbreytingar verða sífellt meira aðkallandi vandi. Það er allavega mitt framlag, einn dag í einu.